08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

202. mál, Laxárvirkjun

Björn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh, gat um, hefur verið haft samráð við stjórn Laxárvirkjunar um þetta frv. og hefur verið orðið við óskum stjórnar Laxárvirkjunarinnar um flest, sem máli skiptir í sambandi við efnisatriði frv. Það hafa að vísu ekki verið teknar til greina allar ábendingar stjórnarinnar, en ég tel, að það, sem á það skortir, sé ekki svo veigamikið, að ástæða sé til að flytja um það sérstaka brtt. nú, þar sem þessi heimild mun nægja okkur norðanmönnum í bili a.m.k. Ég á sæti í stjórn Laxárvirkjunarinnar og var ekki sammála, þegar það mál var rætt þar, um þá grein, sem kveður á um það, hvernig verðlagningu skuli hagað og hef flutt brtt. um það, sem er alveg samhljóða þeirri brtt., sem ég flyt um sama efni varðandi frv. um Landsvirkjun og sé ekki ástæðu til að rökstyðja þá till. núna, þar sem ég hef gert það áður í ræðu um Landsvirkjunina. Ég vil aðeins segja það varðandi ummæli hæstv. fjmrh. um þetta atriði, að það sé ekki hægt að verða við þessari till. eða samþykkja hana, vegna þess að það muni ekki fást nægilega tryggur grundvöllur fyrir rekstri fyrirtækisins með þessu, að við höfum frá því að fyrst var virkjað við Laxá búið við þau verðlagningarákvæði, sem ákveðin eru í l. um Laxárvirkjunina, að raforkan er seld á kostnaðarverði, þ.e.a.s. þá er átt við verð, sem skapast af því, að allar greiðslur virkjunarinnar, bæði afborganir og vextir af lánum, eru teknar með inn í kostnaðinn auk venjulegs kostnaðar og annars viðhalds og síðan bætt við 5%. Þetta hefur fullkomlega dugað okkur í áratugi, síðan fyrst var virkjað við Laxá, ekki aðeins dugað til þess, að fyrirtækið hefur getað staðið við allar sínar skuldbindingar, heldur tvisvar sinnum ráðizt í það að tvöfalda orku sína, svo að mér sýnist ekki, að það sé nú nein ástæða til þess að breyta þessari verðlagningarreglu svo stórkostlega sem hér er fyrirhugað, enda þótt ég óttist þetta ákvæði í sjálfu sér miklu minna varðandi Laxárvirkjunina heldur en Landsvirkjunina, því að ég hef þá trú á norðanmönnum, að þeir muni gæta sín í þessum efnum og þegar öllu er á botninn hvolft, þá er úrslitavaldið í höndum stjórnar virkjunarinnar.