11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

202. mál, Laxárvirkjun

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Í grg., sem fylgir frv. um Laxárvirkjun, er tekið fram, að það sé að meginstofni til byggt á gildandi löggjöf. Lagt er til, að gerðar verði eftirfarandi breytingar:

Þegar tímabært þykir að dómi ríkisstj. að leggja aðalorkuveitur frá Laxárvirkjun til Norðvesturlands, Skeiðsfossvirkjunar og Austurlands, er Laxárvirkjun heimilt með nánara samkomulagi við ríkisstj. í hvert sinn að leggja þessar aðalorkuveitur og selja raforku í heildsölu til rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna í þessum landshlutum. Áður en til framkvæmda kemur, skal hafa náðst samkomulag við hlutaðeigandi aðila um raforkuverð og sölusamningar gerðir. Með þessu ákvæði er veitt heimild til stækkunar orkuveitusvæðis Laxár. Ákvörðun um þetta atriði kemur stjórn virkjunarinnar til með að taka, eftir að ríkisstj. hefur tekið málið upp. Framkvæmdir allar eru háðar því skilyrði, að náðst hafi samkomulag við aðila um raforkuverð.

Laxárvirkjun er heimilað að reisa allt að 12 þús. kw. raforkuver í Laxá við Brúar, einnig eldsneytisstöðvar, sem fyrirtækið telur rétt, að komið verði upp.

Til þess að standa undir kostnaði við þessar framkvæmdir, sem þegar hafa verið áætlaðar, er ríkisstj. heimilað að taka lán allt að fjárhæð 160 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt og endurlána féð Laxárvirkjun. Auk þess er ákveðið, að ríkið láni Laxárvirkjun 20 millj. kr. með þeim kjörum, sem ráðh. ákveður. Einnig er gengið út frá því, að ríkissjóður leggi Laxárvirkjun til óafturkræft framlag allt að 5 millj. kr. gegn jafnháu framlagi frá Akureyrarkaupstað. Öll þessi ákvæði um fjáröflun byggjast á þeirri staðreynd, að virkjunin hefur ekki haft aðstöðu til þess að leggja til hliðar fé til nývirkjunar. Verður því að taka til lánsfjár og beinna framlaga eigenda virkjunarinnar. Stjórn Laxárvirkjunar ákveður að fengnum till. Efnahagsstofnunar heildsöluverð á raforku. Skal verðið við það miðað, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Að því skal stefnt, að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi, til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku. Með þessu ákvæði á að tryggja það, að fyrirtækið eigi nægilegt eigið fé til stækkunar og framkvæmda, þegar þar að kemur. Raforkuver þurfa að fá lán til langs tíma og með hagstæðum kjörum, þar sem hagnaður þeirra hlýtur að koma á mörgum árum. En hvaða fyrirtæki fær slík kjör, nema um verulegt eigið fé sé að ræða? Rammi 6. gr. Laxárvirkjunarl. var of þröngur varðandi þetta atriði, þar sem þar var tekið fram, að virkjunin seldi Rafveitu Akureyrar og rafmagnsveitum ríkisins raforku við kostnaðarverði að viðbættum 5%. Af þessu ákvæði leiddi það t.d., að virkjunin gat ekki ráðizt í jafnnauðsynlegar framkvæmdir og aðgerðirnar við Mývatnsósa nema tryggja sér lánsfé til þeirra. Vegna þessa drógust framkvæmdir öllum til tjóns. Í þessu sambandi verður að hafa það í huga, að notendur raforkunnar verða að greiða kostnaðinn við öflun hennar. Ákvæði um hámarksverð verða þeim því ekki til hagsbóta, ef þau stangast á við raunveruleikann.

Þá verður kjörtímabil Laxárvirkjunarstjórnar nú 6 ár í stað 3 áður. Gengið er út frá, að aðilar komi sér saman um oddamann, 5. manninn í stjórnina, eftir að þeir eiga virkjunina að helmingi hvor. Náist hins vegar ekki samkomulag milli aðila, skipar hæstiréttur oddamanninn. Oddamaður skal vera formaður stjórnarinnar.

Að lokum er svo sú breyting, að felld skuli niður aðflutningsgjöld og söluskattur af efni, tækjum og vélum til virkjunarinnar, svo og til eldsneytisstöðva, sem Laxárvirkjun kann að reisa á Akureyri.

Ég hef nú í örfáum orðum gert grein fyrir breytingum á löggjöfinni um Laxárvirkjun. Segja má, að meginatriði þeirra séu, að nú er aflað heimildar til allt að 12 þús. kw. nývirkjunar, heimild er fengin fyrir fjáröflun, heimild gefin til þess að færa orkuveitusvæðið mjög mikið út, ef hagkvæmt þykir og ákvæðunum um verðlagningu raforkunnar breytt í það raunhæfa horf, að virkjunin geti sjálf lagt verulegt fé af mörkum til nýrra framkvæmda.

Stjórn Laxárvirkjunarinnar hafði tækifæri til þess að kynna sér frv. og nýmæli þess, áður en það var lagt fram á Alþ. og í öllum atriðum, a.m.k. í öllum meginatriðum, var hún því samþykk, svo sem fram kemur í bókun stjórnarinnar á fundi, sem haldinn var 6. þ. m.

Í rúmlega 25 ár hafa orkuverin við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu séð Akureyrarkaupstað fyrir rafmagni. Byggðir Eyjafjarðar og Suður-Þingeyjarsýslu fá og þaðan orku, svo að Laxárvirkjunin nær nú til svæðisins frá Dalvík og allt austur að Tjörnesi. Það var á árunum 1938 og 1939, að Akureyrarbær réðst einn í það stórvirki að beizla að nokkru afl Laxárinnar við Brúar. Þá var augljóst, að vegna sívaxandi rafmagnsnotkunar væri Glerárstöðin orðin gersamlega ófullnægjandi. Beinn voði var fram undan, ef ekki fengist aukin raforka. Athuganir höfðu verið gerðar á ám í nágrenni bæjarins, en engin þeirra þótti álítleg til virkjunar. Voru þá rannsökuð fjarlægari fallvötn, m.a. Goðafoss, en Laxá var að lokum valin sem hentugasta fallvatnið, m.a. vegna jafnrennslis árinnar og góðra aðstæðna til framhaldsvirkjunar. Eins og kunnugt er, fellur Laxá úr Mývatni, sem liggur um 280 m yfir sjávarmál. Árfarvegur er um 34 km að lengd og meðalrennsli um 35 kúbikmetrar á sek. Árni Pálsson verkfræðingur gerði áætlun um virkjunina á sínum tíma, en erlent verkfræðifirma sá um allar framkvæmdir.

Með fyrstu virkjun Laxár fengust 1.500 kw, sem var álitleg aukning, þegar á það var litið, að Glerárstöðin gamla framleiddi ekki yfir 300 kw. Orkan var þannig fimmfölduð í einum áfanga. Akureyringar stóðu einhuga að þessari framkvæmd, eftir að hún var ákveðin, en ekki mun þó vera hallað á neinn, þó að sagt sé, að undirbúningur og framkvæmdir hafi fyrst og fremst mætt á þáv. bæjarstjóra, Steini Steinsen verkfræðingi og Knúti Otterstedt rafveitustjóra. Störf þessara merku manna í þágu raforkumála okkar Norðlendinga verða þeim seint þökkuð.

Þegar ráðizt var í Laxárvirkjunina var sýnt, hvert stefndi í atvinnumálum Akureyrar, að bærinn mundi fyrst og fremst byggja afkomu sína á fjölþættum iðnaði. Öllum var því ljóst, að næg raforka fyrir hóflegt verð var ein helzta forsendan fyrir vexti og viðgangi bæjarfélagsins og til að tryggja, að möguleikar væru jafnframt fyrir hendi til aukningar hennar með hagkvæmum hætti. Árið 1944 var bætt við nýrri vélasamstæðu. Vélahúsið hafði verið byggt fyrir tvær samstæður upphaflega, þannig að orkuframleiðslan náði 4.500 kw. Ekki leið þó á löngu þar til í ljós kom, að enn þurfti að auka raforkuna. Iðnaðurinn var í örum vexti á Akureyri, jafnt og þétt fjölgaði býlunum, sem fengu rafmag, og með vaxandi fiskvinnslu þörfnuðust sjávarplássin enn meiri orku. Strax á árinu 1946 var því farið að hugsa til nývirkjunar.

Með l. um Laxárvirkjun frá 25. maí 1949 urðu þáttaskil í sögu hennar. Jafnframt því sem tryggð var framkvæmd á nýrri virkjun með ábyrgð ríkisins fyrir lánum, var svo kveðið á í l., að ríkið ætti rétt á að stækkun lokinni að gerast eigandi að 35% mannvirkjanna og helmingi þeirra, þegar lokið væri næstu aukningu virkjunarinnar þar á eftir. Ríkið skyldi kaupa tiltölulegan hluta af þeim mannvirkjum, sem í eigu fyrirtækisins voru, af Akureyrarkaupstað með því að taka á sig greiðslu á tilsvarandi hluta lána og annarra greiðsluskuldbindinga fyrirtækisins. Næðist ekki samkomulag um kaupverð mannvirkjanna, sem fyrir voru, þegar l. gengju í gildi, skyldi það ákveðið með mati samkv. l. um framkvæmd eignarnáms, en kaupverð þeirra mannvirkja, sem gerð væru eftir þann tíma, skyldi verða kostnaðarverð þeirra að frádreginni eðlilegri fyrningu. Ári síðar var svo gerður samningur milli fyrrgreindra aðila um virkjun neðra fallsins við Laxá og var ríkið þar með orðið meðeigandi í allri Laxárvirkjun að 35%. Bæjarstjórn Akureyrar tilnefnir nú 3 menn í stjórn virkjunarinnar, en ríkisstj. 2 menn. Virkjunin er að öllu leyti rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi samkv. reglugerð, sem ráðh. hefur staðfest. Á árinu 1953 var svo viðbótarvirkjun að stærð 8.000 kw tekin í notkun. Uppsett afl Laxárvirkjunar er því nú í dag 12.500 kw. Til þess að draga úr rekstrartruflunum vegna krapa og ísmyndunar var á árunum 1946–1960 ráðizt í ýmsar framkvæmdir, þar sem áin fellur úr Mývatni. Þaðan rennur hún í þremur kvíslum. Var þar bæði um breikkun og dýpkun á farvegi að ræða, einnig lokur settar í eina kvíslina. Framkvæmdir þessar kostuðu verulegt fé, sem Framkvæmdabankinn lánaði að nokkru leyti. En þær hafa gefið mjög góða raun, þar sem ekki hefur komið til neinna verulegra stöðvana orkuversins, síðan þessum framkvæmdum lauk.

Eins og ég hef getið um, hefur rafmagnsnotkunin á orkuveitusvæði Laxár stöðugt farið vaxandi. Til þess að fyrirbyggja rafmagnsskort og koma upp varaafli var ráðizt í það á árinu 1960 að setja upp 2.000 kw dísilrafstöð á Akureyri og á s.l. ári var svo annarri bætt við af sömu stærð. Komi til rekstrartruflana eða vélabilana frá orkuverunum við Laxá, eru þessar stöðvar mjög þýðingarmiklar fyrir allt orkuveitusvæðið. Með rafmagnsskömmtun yrði þá unnt að forða mestu skakkaföllunum.

Samanlagt afl véla Laxárvirkjunar og dísilstöðvanna á Akureyri er núna 16.500 kw. Mesta álag á þessu ári mun ekki vera áætlað undir 14 þús. kw. Raforkumálaskrifstofan áætlar samkv. upplýsingum í febrúar 1965 orkumarkað núv. Laxárvirkjunar sem hér segir: Árið 1968 18 þús. kw. árið 1970 20 þús. kw. og árið 1973 25 þús. kw. Í þessari áætlun er ekki gert ráð fyrir raforkuþörf kísilgúrverksmiðju, sem allar horfur eru á, að rísi upp við Mývatn innan tíðar eða öðrum stórrekstri.

Allt frá 1959 eða 1960 hefur Laxárvirkjunarstjórn rætt á fundum sínum undirbúninginn að nýrri Laxárvirkjun. Varðandi það mál hefur hún skrifað raforkumálaráðh. og rætt við hann og raforkumálastjóra. Sigurði Thoroddsen verkfræðingi var falið að gera áætlanir um nýjar virkjanir og jarðboranadeild raforkumálaskrifstofunnar að annast jarðvegsathuganir. Í apríllok 1964 skilaði Sigurður Thoroddsen áætlun um 4 mismunandi tilhaganir um virkjun fallsins við Brúar og áætlun um að veita Suðurá til Laxár, en það mundi auka vinnslugetuna við Brúar um 30–40%. Skýrsla hans til Laxárvirkjunarstjórnar er mjög ýtarleg og nær til áætlanagerðar um 10 mismunandi virkjanir. Þar er og vikið að vatnasvæði árinnar og gerð grein fyrir flutningsvirkjun vegna hinna ýmsu tilhagana, spennistöðvum við virkjanirnar, háspennulínu til Akureyrar og spennistöð þar. Því miður brestur mig þekkingu til þess að lýsa þessum till. Sigurðar Thoroddsens, en þær miðast við framkvæmdir, sem við mundum nú telja stórvirkjanir. Til þess að standa undir þeim fjárhagslega, þ.e.a.s. greiða afborganir og vexti af lánum, þyrfti stórauknar tekjur, sem núverandi markaður skilar ekki að óbreyttum aðstæðum. Stóriðja á Norðurlandi í einhverju formi eða sala á rafmagni til hins orkufreka markaðar við Faxaflóa mundi að sjálfsögðu gerbreyta dæminu. Tenging við Austurland og vesturhluta Norðurlands kemur til með að mynda nýjan markað, en hann er þó ekki nægilega stór, eins og nú er háttað, til þess að greiða kostnaðinn af stórvirkjun við Laxá, nema þá neytendur vildu taka á sig hærra verð, en framleiðslan greiðir núna á Suður- og Suðvesturlandi.

Till. Sigurðar Thoroddsens, sem ég drap á áðan, voru athugaðar í tækninefnd í raforkumálum, sem ráðh. skipaði og var niðurstaða hennar sú, að hagkvæmast væri að styðjast við olíustöðvar á Akureyri fram yfir 1970, fá þá rafmagn frá Búrfellsvirkjun og virkja Laxá eftir það í stórum stökkum. Með þessu móti væri hagsmunum neytendanna bezt borgið.

Að fengnu þessu áliti fól Laxárvirkjunarstjórn Sigurði Thoroddsen að athuga, hvort ekki væri unnt að virkja við Brúar á einhvern þann hátt, sem betur hentaði þeim orkumarkaði, sem fyrir hendi væri og frá fjárhagslegu sjónarmiði yfirleitt. Sigurður Thoroddsen gerði þá áætlun um 11 þús. kw virkjun, sem án nýrrar linu til Akureyrar mundi kosta um 170 millj. kr. að aðflutningsgjöldum frátöldum. Kostnaður við síðari 11 þús. kw. er áætlaður: vinnsluvirki 74.5 millj. og flutningsvirki 60 millj. eða heildarkostnaður 134 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að ný virkjunarmannvirki, þ.e.a.s. stór stífla, mundu koma í veg fyrir truflanir af völdum kraps og íss á stöðvunum, sem nú eru fyrir í Laxá. Jafnframt mun sandburður hverfa að mestu úr ánni og minnka þá til muna slit á vélum. En þessar framkvæmdir auka og nokkuð orkuframleiðslu þeirra stöðva, sem fyrir eru, þ.e.a.s. um 500 –1000 kw. og virkjun með hárri stíflu býr enn fremur í haginn fyrir stórvirkjanir í Laxá. Það má ekki dragast, að gerðar verði ráðstafanir til þess að tryggja orkuveitusvæði Laxárvirkjunar næga raforku. Málið þolir raunar enga bið.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir í stuttu máli, eru staðreyndirnar þessar: Orkuverið við Brúar skilar 12.500 kw og dísilstöðvarnar á Akureyri 4.000 eða samtals 16.500 kw. Hinir vísu menn hjá raforkumálaskrifstofunni spá því, að orkuþörfin á núv. Laxárvirkjunarsvæði verði þegar á árinu 1970 um 20 þús. kw. Vegna neytendanna og atvinnurekstrarins á orkuveitusvæðinu er nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma til þess að tryggja þeim, sem ódýrasta raforku. Hvaða leiðir eigi að fara, til þess að þessu takmarki verði náð, verða eigendur Laxárvirkjunar að ákveða í samráði við sérfræðinga sína og stjórn raforkumálanna. Áður en endanleg ákvörðun verður tekin í þessu máli, þarf að rannsaka mörg atriði og ég leyfi mér að benda á örfá.

Nú er gert ráð fyrir þeim möguleika, að orkuveitusvæði virkjunarinnar verði tengt Norðvesturlandi og Austurlandi, en þar skortir nú rafmagn. Tenging þessara landshluta mundi að sjálfsögðu auðvelda stærri virkjanir í Laxá, tryggja þeim betri fjárhagslegan grundvöll. Þá ber að hafa það í huga, að hve miklu leyti getur verið hagkvæmt að nota rafmagn til upphitunar. Úr því eiga sérfræðingar að skera. í því samhandi hefur það sennilega úrslitaþýðingu fyrir virkjunina, að jarðhiti fáist í grennd Akureyrar, en það mun vonandi skýrast á næstunni. Kæmi orkufrekur iðnaður á Norðurlandi, eykur hann að sjálfsögðu þörfina fyrir meira rafmagn. Öll þessi atriði og raunar að líkindum fleiri þarf að athuga, áður en úr því verður skorið, hvort nú þegar eigi að ráðast í nýja virkjun við Laxá eða hvort leysa skuli þörfina fyrst um sinn með nýjum eldsneytisstöðvum á Akureyri og virkja síðar Laxá. Yrði það ofan á, að Laxárvirkjun sameinaðist Landsvirkjun, kynni sú ákvörðun að flýta fyrir lagningu háspennulínunnar milli Suður- og Norðurlands, en sú tenging hlýtur að koma fyrr eða síðar.

Eins og fram kemur á þskj. 746, hefur hv. fjhn. athugað frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess, en einstakir nm., þrír nm., hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.