11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

202. mál, Laxárvirkjun

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr hófi fram og tel ekki ástæðu til að ræða efnisatriði frv., enda er augljóst, að það er lítill sem enginn ágreiningur um meginefni þess og það hefur verið upplýst og mér er kunnugt um, að frv. var samið og flutt í samráði og með vitund stjórnar Laxárvirkjunar. Ég vil því lýsa því yfir, að það er full ástæða til að fagna frv., eins og það er, þó að e.t.v. mætti hugsa sér breytingar á einstökum greinum. Með þessu frv. er m.a. mörkuð stefna, sem ég veit, að er fagnað á Norðurlandi, a.m.k. á Akureyri og þar í grennd, m.a. það, að Laxárvirkjun er haldið sem sjálfstæðu fyrirtæki, en utan við Landsvirkjunina. Og einnig virðist mér, að felist í frv. fyrirheit um, að fljótlega verði framkvæmd viðbótarvirkjun við Laxá, sem óneitanlega er mikil þörf fyrir, því að þegar er orðið vart við orkuskort á þessu svæði og mjög brýn nauðsyn til, að ráðizt verði í myndarlega viðbótarvirkjun til þess að fullnægja þörfunum. Þetta er það helzta, sem um frv. er að segja nú og ég skil frv. a.m.k. þannig, að ætlunin sé að hefja mjög fljótlega viðbótarvirkjun í Laxá. Þannig er a.m.k. ástæða til að skilja frv. Og mér virðist, að andi og orðalag frv., eins og það liggur fyrir, gefi það beint til kynna, enda er nauðsynin augljóslega fyrir hendi. En hins vegar langar mig til þess að gera hér litla aths. og fsp. til hæstv. raforkumálaráðh. eða jafnvel hæstv. iðnmrh. Hér liggur fyrir þinginu skýrsla ríkisstj. til Alþ. um athugun á byggingu alúminíumverksmiðju á Íslandi. Á öftustu blaðsíðu þess eru hugleiðingar, sem mér eru ekki alveg fullljósar, hvað merkja. Og mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. gætu upplýst, hvað í þessu felst. Seinasta lína þessarar skýrslu hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er því æskilegt, að ákvarðanir um litla virkjun Laxár bíði, þar til ljóst er, hver hin raunverulega þróun þessara mála verður.“

Hvað merkja þessi orð? Þýða þau það, að það frv., sem hér liggur fyrir og við erum nú að ganga frá, eigi ekki að koma til framkvæmda á næstunni, það eigi að bíða eftir því, að eitthvað annað verði gert? Ef svo er, er mér ekki ljóst, hvað á að gera á næstunni í raforkumálum Norðlendinga og ég hygg, að fleirum muni fara sem mér, að þeim sé þetta ekki fullljóst. En ég tel, að það væri mjög æskilegt, áður, en þetta mál fer hér út úr d., að nánari skýring verði gefin á þessu af hæstv. ráðh.