11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

202. mál, Laxárvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég heyrði nú ekki alveg allt, sem hv. þm. sagði, en ég held, að ég hafi þó gripið nægilega mikið til þess að vita, við hvað hann á. Hann spyr um það, hvernig beri að skilja þetta, sem sagt er á öftustu síðu í skýrslu ríkisstj. um alúminíumverksmiðju. Ég held, að hv. þm. geti skilið, hvað felst í því frv., sem við erum að ræða um, þ.e. Laxárvirkjun. Þar er engin ákvörðun um tíma, hvenær ráðizt verði í Laxárvirkjun. Það er aðeins heimild um það að stækka virkjun í Laxá, en það er engin tímaákvörðun. Ég geri ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi fullt samráð við Laxárvirkjunarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar um það og ég vil vekja athygli á því, að sú stærð á virkjun, sem ákveðin er í þessu frv., er sett þarna inn í samráði við Laxárvirkjunarstjórn. Og þetta er sú hagstæðasta lítil virkjun, sem hægt er að fá í Laxá og sérstaklega til áætlunargerðarinnar stofnað eftir beiðni Laxárvirkjunarstjórnar af Sigurði Thoroddsen. Ég á þess vegna alveg ómögulegt með að svara nokkru um það, hvenær hafizt verður handa um virkjun í Laxá. Það er ákvörðunaratriði, sem síðar verður tekið af stjórnarvöldunum og stjórn Laxárvirkjunar. En eins og tekið er fram í frv. um Landsvirkjun, er þar beinlínis sagt, að Norðlendingar geti, ef þeir vilja, gerzt strax aðilar að Landsvirkjun og þeir gætu e.t.v. strax gerzt aðilar að Landsvirkjun, þótt ráðizt væri í þá virkjun, sem gefin er heimild til með þessu frv. — Ég vona, að ég hafi svarað nægilega skýrt.