11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

202. mál, Laxárvirkjun

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð viðkomandi brtt. á þskj. 749, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. við frv. það, sem hér er til umr. um Laxárvirkjun. Þessar brtt. eru fluttar til samræmis við þá afstöðu, sem við, þessir 2 sömu þm., höfðum til frv. til Landsvirkjunar, að svo miklu leyti sem við á, og eins og fram kom af máli hv. frsm. fjhn., hefur fjhn. öll skrifað undir mál., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við það. Og ég mun gera grein fyrir í örstuttu máli þeim brtt., sem ég stend hér að ásamt öðrum.

Þær eru þrjár. 1. brtt. er við 2. gr. Hún er um það, að við 2. mgr. gr. bætist: „Enda sé verðið ekki hærra, en raforkuverð hjá Landsvirkjun.“ Að þessu máli hníga mikið til þau sömu rök, og raunar alveg sömu rök og ég færði hér fram fyrir sams konar brtt., sem við stöndum að um frv. um Landsvirkjun og ég tel, að það sé eðlilegt, að sömu ákvæði gildi um Laxárvirkjun að þessu leyti, þar sem sýnilegt er, að henni er ætlað í framtíðinni að verða hluti af Landsvirkjun. Það lá nokkuð ljóst fyrir þegar í upphafi, en hefur skýrzt við meðferð málsins, vegna þess að sú breyting, sem hv. Ed. gerði á 2. gr. frv., sýnir það ótvírætt, að Laxárvirkjuninni er ætlað að ganga inn í Landsvirkjun og verða hluti af stærri virkjun þar nyrðra. Sú breyting, sem þar var gerð, er eins og kunnugt er sú, að í stað þess að áður stóð, eins og í Landsvirkjunarfrv., að það væri undir því komið, hvort áætlanir stjórnar Laxárvirkjunar og eigenda hennar sýndu, að fjárhagslega væri hagkvæmt að leggja orkuveitur, hvort það yrði gert eða ekki, en þessu hefur nú verið breytt á þá lund, að nú er það mat ríkisstj., sem þarna á til að koma og það mat hlýtur auðvitað að verulegu leyti og nánast eingöngu að byggjast á þörfinni um aukna raforku á því svæði, sem þessi virkjun getur náð til. Þess vegna er það till. okkar, að einnig þarna verði ákveðið rafmagnsverðið á svipaðan hátt og við hugsuðum okkur þessu varið hjá Landsvirkjun.

2. brtt. lýtur að nokkuð svipuðu efni. Hún er um það, að fyrri mgr. 5 gr. falli burt. Sú mgr. er um það, að til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þurfi Laxárvirkjun leyfi ráðh. þess, sem fer með raforkumál. Við teljum, að eðlilegast sé, að það sé Alþ., sem hér eftir sem hingað til ræður ferðinni í virkjunarmálum og með því að fella þessa mgr. niður, mundu raforkul. um þetta efni gilda óbreytt, eins og þau hafa gert og það teljum við flm. brtt. eðlilegt fyrirkomulag. Það hefur verið svo, að það er Alþ. og ríkið, sem hefur byggt eða stuðlað að byggingu allra þeirra raforkuvera, sem hér hafa verið reist á landinu og enn er það áætlunin, að það sé ríkissjóður, sem leggi til það fjármagn, sem hér á til að koma, því að í 11. gr. frv. um Laxárvirkjun er svo sagt, að ríkissjóði skuli heimilt að taka lán, 160 millj. kr., til þess að endurlána Laxárvirkjuninni. Þannig er það tilætlunin núna, eins og jafnan áður, að það sé forganga ríkisins, sem þarna á til að koma, enda þótt fyrirtækið verði fyrst um sinn sameign fleiri aðila. Þess vegna teljum við eðlilegt, að Alþ. haldi áfram að marka stefnuna í þessu máli, og það sé það, sem hefur úrskurðarvald um það hér eftir sem hingað til, en það vald sé ekki flutt annað.

3. brtt. okkar og sú síðasta fjallar um raforkuverðið. Í fyrsta lagi er örlítil breyting, sem hnígur að því, að það sé eðlilegra, að Hagstofan sé til ráðuneytis um rafmagnsverðið í stað Efnahagsstofnunarinnar, eins og núna er tekið upp í lög í fyrsta skipti. En meginbreytingin er þó sú, að við gr. bætist þessi mgr.: „Ráðh. sá, sem fer með raforkumál, staðfestir gjaldskrár Laxárvirkjunar.“ Satt að segja skil ég ekki þá tregðu, sem lýsir sér hér á hv. Alþ. gegn því að hafa þennan hátt á. Ég tel hann svo sjálfsagðan. Bæði þegar um Landsvirkjun er að ræða og eins um Laxárvirkjun, er það eitt ákveðið fyrirtæki, sem hefur einkaaðstöðu til þess að selja tiltekna vöru á tilteknu svæði. Og með fullri virðingu fyrir þeim ágætu stjórnum þessara fyrirtækja, bæði þeirra, sem nú eru og þeirra, sem væntanlegar eru, hlýtur það alltaf að verða nokkurt keppikefli þeirra að hafa fjárhag fyrirtækisins, sem þær starfa við, sem allra beztan. Og þess vegna hlýtur tilhneiging að verða til þess hjá þeim að ákveða raforkuverðið nokkuð hátt. Ég get vel fallizt á það, sem hér hefur komið fram í mörgum ræðum og allir virðast út af fyrir sig sammála um, að það sé eðlilegt, að slíkum fyrirtækjum eins og rafvirkjunum, sem þurfa að ráðast með tiltölulega stuttu millibili í fjárfrekar framkvæmdir, sé veitt heimild til þess að safna nokkrum sjóðum. Og ég tel víst, að þó að raforkumálaráðh. yrði falið að staðfesta gjaldskrá þessa fyrirtækis eins og allar aðrar gjaldskrár um verð á rafmagni, sem hingað til hafa gilt, mundi hann viðurkenna þetta sjónarmið. En ég tel bara óeðlilegt, að það sé stjórn fyrirtækisins ein, sem eigi að hafa úrskurðarvald um það, hversu langt er gengið í þessu efni, vegna þess að það eru vissulega fleiri hliðar á þessu máli, en sú ein að safna sjóðum. Raforkuverðið hefur mikil áhrif á framfærslukostnað allra heimila og þess vegna er ástæða til þess að reyna, eins og tök eru á, að halda því niðri, enda er sú stefna vissulega undirstrikuð í báðum þeim frv., sem hér um ræðir, þar sem nú er ætlazt til þess í fyrsta skipti, að aðflutningsgjöld tækjanna séu felld niður.

Þetta eru þær þrjár brtt., og ég og hv. 1. þm. Norðurl. v. höfum fram að færa við frv. um Laxárvirkjun, og ég mun ekki eyða fleiri orðum að því að lýsa þeim, tel að það sé þegar nægilega gert.