11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

202. mál, Laxárvirkjun

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sagði, að það fælist ekki nein ákvörðun um tíma í þessu frv. og það er alveg rétt. Það er ekkert ákvæði um tíma. En ég lýsti því hér sem minni skoðun, að ég liti þá svo á, að það væri hugsunin að virkja eftir þörfum, sem fyrir hendi eru, sem sé mjög fljótt. Og þess vegna kom mér það dálítið á óvart, þegar ég las það hér í seinustu línu skýrslu ríkisstj. um alúminíummálið, að Laxárvirkjunin eigi að bíða, þangað til eitthvað annað verður ákveðið. Hvað lengi á að bíða? Það er hlutur, sem þarf að upplýsa mikli betur og útskýra það nánar, eftir hverju á að bíða. Og það veit ég, að hæstv. ráðh, getur upplýst okkur miklu betur um og talað um það af fullkomnum rólegheitum og sagt okkur, eftir hverju á að bíða, áður en tekin yrði fullnaðarákvörðun um það, hvenær ráðizt verður í þá virkjun, sem nú er verið að heimila hér með sérstökum l. Við getum ekki beðið endalaust eftir virkjuninni, það er alveg útilokað. Og ég held, að á Laxárvirkjunina verði að líta sem sjálfstætt mál, sem sérstaklega þarf að leysa fyrir það svæði, sem hún er ætluð fyrir og þess vegna þætti mér gott að vita nánar um það, hvaða önnur mál eru tengd við framkvæmdir í Laxá. Það er mikilvægt, að það fáist upplýst nánar, en komið hefur fram.