11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

202. mál, Laxárvirkjun

Lúðvík jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég er samþykkur því að heimila stækkun Laxárvirkjunar, eins og ráðgert er í frv., en ég er hins vegar mótfallinn nokkrum öðrum atriðum í frv. og þá sérstaklega þeim, sem 8. gr. fjallar um, en það er um verðlagningu á raforku frá fyrirtækinu.

Sams konar ákvæði og þar eru eru í frv. um Landsvirkjun, sem hér liggur einnig fyrir. Við þau ákvæði flyt ég sérstaka brtt., en hef hins vegar ekki flutt brtt. við þetta frv., sem fyrst og fremst stafar af því, að mér þótti einsýnt, að það mundu verða látnar gilda sömu reglur í þessu falli um Laxárvirkjun og um Landsvirkjunina, en reiknaði hins vegar með því, að Landsvirkjunin, sem greinilega er hér forgöngustofnun í þessu efni, það mál yrði hér afgreitt fyrst. Sem sagt, afstaða mín til málsins miðast við þetta. Ég get fallizt á að heimila þá stækkun á Laxárvirkjuninni, sem í frv. felst, en er andvígur þeim reglum, sem er að finna í frv. viðvíkjandi verðlagningu frá orkuveitum.