13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þær breytingar, sem þetta frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, felur í sér, eru þessar:

Í fyrsta lagi samkv. 2. gr. frv., að persónufrádráttur er hækkaður um 30%. Hann hækkar úr 25 þús. kr. hjá einhleypum í 32.500, hjá hjónum úr 35 þús. upp í 45.500 og fyrir hvert barn á framfæri úr 5 þús. upp í 6.500 kr. Í þessu sambandi vil ég taka það fram, sem drepið er á í grg. fyrir frv. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér liggur einnig fyrir hv. Alþ., að Efnahagsstofnunin hefur framkvæmt athugun á því, hverjar breytingar hafa orðið á vinnutöxtum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna frá árinu 1963–1964. Það er áætlun Efnahagsstofnunarinnar, að vinnutaxtabreytingar hafi að meðaltali valdið um 23% hækkun launa hjá þessum þremur stéttum á tímabilinu. Ef hins vegar litið er á framfærsluvísitöluna, er meðalvísitala ársins 1963 134.67 stig, en árið 1964 160.67 stig. Hækkun milli þessara tveggja ára var því 19.3% .

Í öðru lagi felur þetta frv. í sér breytingu á útsvarsstiganum samkv. 3. gr. frv. og breyting er í rauninni í tvennu lagi. Í fyrsta lagi: Nú eru tvö útsvarsþrep, þ.e.a.s. 20% og 30%, en lagt til hér, að bætt verði við því þriðja, 10%, þannig að þau verði 10%, 20% og 30%. Í öðru lagi, að bilin verði breikkuð. Nú eru lögð 20% á fyrstu 40 þús. kr. útsvarsskyldra tekna og 30% á það, sem umfram er. Samkv. frv. verða lögð 10% á fyrstu 20 þús., 20% á næstu 40 þús. og 30% á það, sem þar er umfram. Til skýringar vil ég geta þess, að fyrir hjón með tvö börn yrði þá útkoman þessi: Persónufrádráttur hækkar úr 45 þús. upp í 58.500, en 30% álagið kemur fyrst á tekjur yfir 60 þús. í stað 40 þús. áður. Þegar maður tekur þetta saman, koma eftir núgildandi l. 30% eða hámarkið á tekjur yfir 85 þús. kr., en eftir frv. á tekjur yfir 118.500 kr.

Í þriðja lagi er breyting á því framlagi, sem jöfnunarsjóði sveitarfélaga er sjálfum ætlað. Það er nú samkv. gildandi l. 1% af tekjum sjóðsins, áður en úthlutað er til sveitarfélaganna, en lagt til, að verði hækkað í 3%. Ástæðan er þessi: Á s.l. ári gátu allmörg sveitarfélög gefið nokkurn afslátt frá útsvarsstiganum. Í Reykjavík og ýmsum fleiri kaupstöðum var sá afsláttur t.d. 9%. Með þeirri miklu hækkun á persónufrádrætti og breytingu á útsvarsstigum, sem lagt er til, að gerð verði með þessu frv., má búast við minni afslætti hjá sveitarfélögunum frá þessum útsvarsstiga eða útsvarsreglum. Nú er svo ákveðið í l, um tekjustofna, að ef eitthvert sveitarfélag nær ekki áætlaðri útsvarsupphæð sinni með því að nota gildandi útsvarsstiga og álagningarreglur að viðbættum 20%, er það eitt af hlutverkum jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að greiða aukaframlag. Til þessa ákvæðis hefur hingað til ekki þurft að taka. En ef jafnmiklar breytingar verða gerðar á útsvarsreglunum og hér er gert ráð fyrir, má gera ráð fyrir því, að einhver sveitarfélög þurfi að leita á náðir jöfnunarsjóðs vegna þess, að hærra álag á útsvarsstiga, en 20%, er sveitarfélögunum óheimilt. Þegar höfð er hliðsjón af því, að á s.l. ári var jöfnunarsjóður sveitarfélaga með nokkrum halla, vegna þess að hann hljóp undir bagga af öðrum ástæðum, en þessum með nokkrum sveitarfélögum, en hallinn nam 1 millj. 277 þús. kr., þá er það augljóst, að það verður að auka nokkuð tekjur hans af óskiptu fé, til þess að hann sé þess megnugur að standa undir slíkri hjálp, ef til þarf að taka. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að hann fái af óskiptu 3% í stað 1%.

Í sambandi við þessar till. hafa menn reynt að gera sér grein fyrir því, hvernig sveitarfélögin stæðust þessar breytingar á útsvarsstiga og hækkanir á persónufrádrætti og hafa skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar reiknað út nokkur dæmi þar og önnur svo verið áætluð, í framhaldi af þessum útreikningum. Það liggur að vísu ekki endanlega fyrir, hversu miklu nema heildartekjur framtaldar í Reykjavík nú að þessu sinni. En líkur benda til þess, að heildartekjur framtaldar og eru þá talin bæði einstaklingar og félög og atvinnurekstur, muni nema um 30% hærri upphæð en árið áður. Miðað við þessa aukningu á framtöldum tekjum, — ég vil taka það skýrt fram, að ég tala hér um framtaldar tekjur, það er ekki vist, að tekjur í heild í bæjarfélaginu hafi aukizt sem þessu nemur, á því er enginn vafi, að stofnun og starfsemi rannsóknardeildar ríkisskattstjóra hefur haft í ýmsum tilfellum veruleg áhrif til bættra framtala, — en ef við miðum við, að framtaldar tekjur í heild, bæði einstaklinga og fyrirtækja, séu um 30% hærri fyrir árið 1964 en 1963, má gera ráð fyrir, að Reykjavík muni nægja þessi útsvarsstigi og þessi persónufrádráttur og geta gefið væntanlega 5–6% afslátt í stað 9% í fyrra. Svipuð útkoma mundi væntanlega verða um nágrannakaupstaði eins og Hafnarfjörð og Kópavog og til eru kaupstaðir, sem mundu væntanlega geta gefið meiri afslátt og hafa gefið hærri prósentuafslátt, en Reykjavík á undanförnum árum, sérstaklega í fyrra. Allmargir kaupstaðir er talið að muni ná sinni útsvarsupphæð án nokkurs álags, en örfáir er talið að þurfi að bæta einhverju álagi þar ofan á. Varðandi sveitahreppa er hins vegar ekki gert ráð fyrir, að þeir mundu þurfa álag á stiga, þegar miðað er við það, hversu mikinn afslátt frá útsvarsstiga flestir þeirra hafa getað gefið á undanförnum árum. Þó vil ég taka það fram sérstaklega, að ýmsir forráðamenn fámennra sveitarfélaga eða sveitarhreppa munu vera áhyggjufullir út af því, að persónufrádrátturinn sé hækkaður eins mikið og hér er gert ráð fyrir og hræddir um verulegt tekjutap sinna sveitarfélaga, þannig að þar þurfi álag á stigann til að koma, en um þetta er erfitt að fullyrða að svo stöddu.

Ég legg til, að þessu frv. sé vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.