13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Frv. þetta um tekjustofna sveitarfélaga, sem nú hefur verið lagt fram á hv. Alþ., flytur ekki mikinn boðskap, ég held ekki neinn fagnaðarboðskap fyrir þá, sem hafa vænzt þess, að frá þessu þingi kæmi ný skattalöggjöf, sem létti byrðum, a.m.k. útsvarsbyrðum, á lægstu tekjur og miðlungstekjur. Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. hafði ekki heldur nein stór orð um það, að þetta frv. fæli í sér neinar verulegar lækkanir á útsvarsbyrðunum og í aðalmálgagni ríkisstj. sé ég í morgun, að þar er ekki viðhaft neitt orðbragð um það, að nú sé hér á ferðinni skattalækkunarfrv., hvorki að því er snertir tekjuskattinn né útsvörin, heldur er það orðað mjög varfærnislega, þ.e. frv. til lagfæringar skatta og útsvara. En orðið „lagfæringar“ gefur þó að vísu einhverjar vonir og það er hægt að heimfæra á þann veg, að þó að það blasi örugglega við sem staðreynd, að menn fá samkv. þessu frv. a.m.k. eins há útsvör að krónutölu og s.l. ár og í flestum tilfellum sjálfsagt nokkru hærri, er hitt a.m.k. samkv. þeim töflum, sem fylgt hafa á athugunarstigi þessa máls og ég hef fengið tækifæri til þess að sjá, þá er dæmi þar sýnt um, að hundraðshluti útsvaranna verði aðeins lægri í ár en í fyrra og það einasta, sem réttlætir þá að viðhafa orðið „til lagfæringar útsvara“. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir þessum þremur breytingum, sem gerðar eru á frv. frá gildandi útsvarslöggjöf, og skal ég ekki fara nánar út í það.

Ég tel þetta frv. frá sjónarmiði lágtekjufólks algerlega ófullnægjandi lagfæringu og leiðréttingu frá því, sem gildandi löggjöf markaði þessum málum básinn. Ég get raunar ekki sagt, að í frv. felist nein leiðrétting eða lagfæring, því að nánast er um það eitt að ræða, að álagningarreglur eru nú færðar til samræmis við áætlaðar auknar tekjur á árinu 1965 móts við tekjur ársins 1964 og þá miðað við krónutöluna, eftir því sem menn nú geta áætlað tekjurnar. Það er búizt við því, að tekjur hafi hækkað milli 20 og 30% hjá mönnum þarna á milli ára og það er gerð hækkun, sem nemur 30% á persónufrádrættinum. Þetta er því nokkurn veginn hnitmiðuð lagfæring á útsvarsstiga og álagningarreglum miðað við hinar auknu tekjur, sem menn þykjast nú vita um, að um sé að ræða í krónutölu frá árinu á undan.

Það er sagt frá því í niðurlagsorðum aths. frv., að ríkisstj. hafi átt viðræður við fulltrúa Alþýðusambands Íslands um breytingar þessar. Aths. þær, sem fulltrúarnir báru fram, koma til athugunar við meðferð málsins á Alþ. Jú, það er rétt, að fulltrúar frá Alþýðusambandinu hafa átt tvisvar viðræður við ráðh. úr ríkisstj. um þetta mál, meðan það var á undirbúningsstigi. Ég tel ekki rétt að gefa hér neina skýrslu um þessar viðræður. Þær eru algerlega á byrjunarstigi og í raun og veru mjög skammt áleiðis komnar og þó taldi ríkisstj. rétt að leggja frv. um tekju- og eignarskatt og um tekjustofna sveitarfélaga fram, þó að þessar viðræður hefðu engan árangur borið á þessu stigi, enda hafa þær ekki sett neitt svipmót á þessi frv. Þau eru flutt og lögð hér fram fyrir þingið í þeim búningi, sem þau komu frá hæstv. ríkisstj. Hvort framhald þessara viðræðna getur leitt til nokkurra lagfæringa á frv., að því er varðar skattlagningu láglaunafólks eða fólks með upp í miðlungstekjur, skal ég ósagt láta, enda hefur ekki á það reynt enn þá. En ekki blæs nú liklega með það. Alþýðusamband Íslands hélt nýlega ráðstefnu um launa- og kjaramál og þar var gerð samþykkt um útsvars- og skattamál og nefnd Alþýðusambandsins veitti umboð til þess að hefja viðræður við hæstv. ríkisstj., m.a. um þau mál. Sá umræðugrundvöllur, sem þar var lagður af hendi Alþýðusambandsins, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt verði teknar upp samningaviðræður við ríkisstj. um eftirfarandi: 1. Lækkun útsvara og skatta af lágtekjum og miðlungstekjum, þannig að þurftartekjur séu almennt útsvars- og skattfrjálsar. Skattþrepum verði fjölgað og skattar og útsvör innheimt jafnóðum og tekjur falla til. Jafnframt verði skattar og útsvör á gróðarekstur hækkaðir og ströngu skattaeftirliti framfylgt.“

Hér sjá menn, að það er svo fjarri því, að lágtekjur og miðlungstekjur verði skattfrjálsar, að persónufrádrátturinn fyrir einhleyping verður aðeins 32.500 kr. Eftir að þeirri tekjuupphæð er náð, er byrjað að seilast eftir útsvörum af tekjum, þegar hreinar tekjur hafa náð þessari upphæð og nái tekjurnar hjá hjónum 45.500 kr., á þar einnig að byrja að seilast eftir útsvari. Frádrátturinn fyrir barn, sem heimilaður er í þessu frv., er 6.500 kr., var áður 5000. Hjón með tvö börn og 60–70 þús. kr. tekjur eru því orðin útsvarsgjaldendur og er þá alveg auðsætt hverjum manni, að þar er faríð of djúpt ofan í vasa fátæks manns, því að 70 þús. kr. duga illa fyrir fæði og húsnæði, þótt engar aðrar lífsþarfir séu teknar með. En á slíkri fjölskyldu hvíla þó þar að auki nefskattar eða bein útgjöld, sem ekki verður undan vikizt og verða að takast af þessu neyzlufé ekki minna en 5–6 þús. kr. fyrir hjón og kæmi þar ofan á, þótt ekki væri nema 5–6 þús. kr. útsvar, er komin þarna 10–12 þús. kr. skerðing á 60 þús. kr. tekjum og það er að mínu álíti allt of nærri gengið og hygg ég, að flestir verði sammála um það. Það er því mín skoðun, að þó að þarna sé gerð till. til hækkunar á persónufrádrættinum úr 25 þús. kr. fyrir einstakling upp í 32.500 kr. er það allt of smátt spor, svo smátt, að þess gætir naumast og með því er engu réttlæti fullnægt. Ég held, að það væri allnærri gengið lágtekjufólki, þó að einstaklingurinn fengi ekki á sig útsvarsbyrði fyrr, en við 50 þús. kr. tekjur, þ.e.a.s. persónufrádráttur einstaklingsins yrði 50 þús. kr., hjóna þá 70 þús. kr. og frádrag fyrir barn væri ekki undir 10 þús. kr. Samt sem áður kæmi útsvarsbyrði að nokkru á tekjur innan við 100 þús. kr. Ég tel það algert lágmark þess, sem þyrfti hér að gerast varðandi útsvarslöggjöfina, til þess að hægt væri að segja, að lágtekjufólki væri líft og veruleg lagfæring hefði orðið í útsvarsmálunum.

Þá tel ég enn fremur, að útsvarsstigarnir, sem nú er gert ráð fyrir að verði þrír, í staðinn fyrir að þeir voru tveir, ættu að vera ekki færri en 6 og ættu að jafnast þannig, að fyrsta útsvarsupphæð, sem tekin væri af tekjum, sem nú er gert ráð fyrir að sé 10%, næmi 5%, og fari upp í 30% og stiginn milli 5 og 30 komi í staðinn fyrir milli 10 og 30. Með þessu væri einnig stutt að því, að ekki væri gengið allt of nálægt hinum lægstu tekjum, sem ekki mega skerðast að neinu, til opinberra skatta.

Nú má segja það, að þetta gæti leitt til þess, að ýmis sveitarfélög yrðu í tekjuþröng, og yrði þá vitanlega að finna aðrar leiðir til þess að bæta úr því. Ekki væri óeðlilegt, að það væri brýnt fyrir sveitarfélögunum að draga nokkuð úr framkvæmdum, eins og ríkið hefur talið sig nauðbeygt að gera þrátt fyrir mikið góðæri í landi. Það væri ekki óeðlilegt, að limirnir dönsuðu eftir höfðinu, að því er það snerti og sveitarfélögin væru ekki alveg látin sjálfráð um það að ákveða sína fjárhagsáætlun, eins og þau lysti og láta síðan sníða útsvarslöggjöf út frá því sjónarmiði, að þeirri tekjuþörf, sem þau ákvæðu sjálf, væri fullnægt. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er búið að færa of mikinn hluta skattabyrðanna, sérstaklega að því er snertir útsvörin, yfir á launastéttirnar. Þær bera þetta ekki, það verður að ganga of nærri brýnum þurftartekjum tekjulágra einstaklinga til þess að ná þessari upphæð inn, sem launþegunum er ætlað að bera. Það er búið að létta um of byrðarnar á gróðarekstri í þjóðfélaginu og það verður, ef leiðrétting á að fást á útsvarsmálum einstaklinganna og lágtekjufólksins, að bíta í það súra epli að breyta þessari skiptingu byrðanna aftur á þann veg, að gróðarekstur í landinu beri meiri hluta af útsvarsbyrðunum, en honum nú er ætlað að bera og að minni hluti verði lagður á launastéttirnar. Ef til vill mætti hækka á hátekjumönnunum í launastéttum, en þó fæ ég mig varla til þess að prédika það, því að ef öllum heimildum er framfylgt, getur fallið á hálaunamann í launastétt allt að 60% af tekjum í skatta. Það er allnærri gengið, 30%í útsvör og allt að 30% í tekjuskatt, eða 27%, eins og lagt er til í þessu frv. Sú leið virðist því ekki fær. Það er eina leiðin, sem er fær til þess að lækka, eins og nauðsynin knýr á um, á launastéttunum, að ætla gróðarekstri í landinu, félögum og atvinnurekstri yfirleitt, meiri hlutdeild í skattabyrðunum, en þeir aðilar bera nú og með því væri áreiðanlega stefnt í réttlætisátt og málið yrði leysanlegt. En með því, eins og nú er gert, að ætla eingöngu að hreyfa útsvarslögin að því er snertir álagningu á einstaklingana, en breyta ekki álagningarreglunum á atvinnureksturinn, lendir þetta allt saman í sjálfheldu, nema því meiri sparnaður komi þá til eða dregið sé úr opinberum framkvæmdum. Það er líka hugsanlegt, að hlaupið væri undir bagga hjá þeim sveitarfélögum, sem harðast yrðu úti við það, að persónufrádráttur væri verulega hækkaður og að útsvarstekjurnar rýrnuðu þannig mjög af tekjum fólks með almennar vinnutekjur. Og þau sveitarfélög eru vissulega til, því verður ekki neitað, að það væri hugsanlegt, að þeim yrði hjálpað með því að leggja landsútsvör á fleiri aðila, en nú er gert og miðla síðan þeim sveitarfélögum, sem fyrir mestu tekjuskakkafalli hefðu orðið, af þeirri heildarupphæð, sem við það kæmi inn. Ég tel eðlilegt, að landsútsvör væru látin greiða sérhver þau fyrirtæki, hvar sem þau eru staðsett, ef þau inna af hendi almenna þjónustu fyrir landsmenn.

Menn minnast þess, að það var stormasamt hér í Reykjavík á s.l. sumri þann dag og þá daga, sem skattskráin kom út og næstu vikur, marga mánuði á eftir og menn höfðu ekki gleymt þessu um s.l. áramót, þegar þeir stóðu í þeim mikla vanda, hvernig þeir ættu að greiða keisaranum það, sem keisarans var, þ.e.a.s. hina álögðu skatta. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef þetta frv. til útsvarslaga, sem hér liggur fyrir, verður afgreitt í því formi, sem nú er það, verður ekki síður stormasamt hér á næsta sumri, þegar skattskráin hefur komið út. Mætti segja mér, að þá ýfðust upp gömul og ógróin sár hjá skattþegnunum, sem harðast þættust leiknir og þungi almenningsálitsins gegn skattpíningu yrði þá ekki vægilegri eða minni, en hann var á s.l. sumri. Það var alls ekki nein uppgerð hjá skattþegnunum s.l. sumar. Þeir voru hart leiknir margir. Það var gengið nærri getu þeirra, það var ekki viljaskortur til þess að greiða þjóðfélaginu það, sem því ber.

Hér er komið út í ógöngur, sem verður að leysa. Og það verður ekki að mínu áliti gert á annan hátt en með því að færa skattabyrðarnar nokkuð til, af herðum þessa fólks og yfir á aðra sterkari aðila, yfir á breiðari bók, sem nú um sinn hefur verið hlíft um of. Það væri auðvitað gott að geta hlíft þeim, ef það væri hægt án þess að ganga þá fram af öðrum, sem minni styrk hafa til þess að bera hinar þungu byrðar. Við verðum að vænta þess, að skattaeftirlitið batni og að því leyti uni menn betur sínum hlut, að það blasi ekki við þeim eins og s.l. sumar opinbert ranglæti, þannig að menn með hin breiðu bök hafi augljóslega komizt fram með stórfelld skattsvik. Við verðum að vona það og það játa ég, að ef á því sæist lagfæring, mundi almenningur bera án þess að mögla sínar byrðar, svo lengi sem getan hrekkur til, því að það þykir mönnum í raun og veru verst að búa við ranglætið. En það er ekki um það deilt, skattsvikin hafa verið í þjóðfélaginu að undanförnu mjög almenn og blasa raunverulega við allra augum.

Ég skal ekki, vegna þess, hvernig á stendur, fara fleiri orðum um þetta frv. Það er skoðun Alþb., að á þessu frv. þurfi að gera mjög verulegar breytingar. Það þurfi í fyrsta lagi að hækka persónufrádráttinn eigi minna en um 100% frá því, sem hann er nú í gildandi lögum, 25 þús. kr. frádráttur einstaklings verði að hækka í 50 þús. hið minnsta, persónufrádráttur fyrir hjón, sem nú er 35 þús., verði eigi lægri en 70 þús. kr. og frádráttur fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs, sem nú er 5 þús., verði eigi minni en 10 þús. kr. Þá teljum við rétt einnig, að skattþrepunum verði fjölgað og jafnvel að þau verði 5 eða 6 í staðinn fyrir 3, eins og lagt er til í þessu frv. Fleiri breytingar tel ég og að gætu komið til, en skal ekki ræða þær hér frekar. En svo mikið er víst, að erfitt er að finna umræðugrundvöll í þessum málum, milli verkalýðssamtakanna og ríkisstj., ef ekki fást fram verulegar breytingar á þessu frv.

Í þeirri samþykkt, sem gerð var á kjaramálaráðstefnu Alþýðusambandsins, var farið fram á, að þurftartekjur láglaunafólks yrðu almennt útsvars- og skattfrjálsar, að skattþrepunum verði fjölgað og skattar og útsvör innheimt jafnóðum og tekjur falla til. Um það höfum við þegar fengið svar, að það verði alls ekki hægt að framkvæma það á þessu ári og aðeins gefnar vonir um, að það kunni að geta komið til framkvæmda á árinu 1966. Þá höfum við einnig fengið vitneskju um það, að það er ekki ætlunin á þessu stigi að hreyfa neitt við l, um útsvör og skatta af gróðatekjum eða af atvinnurekstri, breyta því á nokkurn hátt nú. Þykir okkur það að vísu mjög miður, því að þar held ég, að lausnin sé eingöngu í því að breyta þar um og að möguleikar séu takmarkaðir til þess að létta af launastéttunum útsvarsbyrðunum, svo að nokkru nemi, nema því aðeins að það sé gert jafnframt að þyngja á gróðaaðilum þjóðfélagsins og láta þá bera réttmæta, þyngri byrði.

Við þessa umr. skal ég svo ekki segja fleira, en sú er afstaða Alþb. til þessa máls, að frv. þurfi í meginatriðum verulegra breytinga við, til þess að Alþb. geti veitt því stuðning.