05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil hér mæla fyrir nál. og brtt. á þskj. 633, sem við fulltrúar Framsfl. í heilbr.– og félmn. þessarar hv. d. flytjum við frv. um tekjustofna sveitarfélaganna.

Mér hefur lengi fundizt, að hið tvöfalda álagningarkerfi ríkisins og sveitarfélaganna á tekjur og eignir gjaldenda væri meingallað. Það er dýrt í framkvæmdinni og tafsamt og veldur margs konar erfiðleikum, sem hægt væri að komast hjá mörgum hverjum, ef breytt væri um þetta tvöfalda álagningarkerfi og það sameinað í eitt. Ég skal ekki eyða tíma hv. d. til þess að ræða um þetta atriði. Mig langar aðeins til þess að vekja athygli á því, að við 4 þm. Framsfl. höfum í tvö skipti a.m.k. flutt till. til þál. um skipun mþn. í skattamálum, sem m.a. ætti að semja frumvarp að heildarskattalöggjöf og ætti við samningu þess frv. m.a. að hafa þau meginsjónarmið, að tekju- og eignarskattur og útsvör verði sameinuð og lögð á í einu lagi og renni í sameiginlegan sjóð ríkisins og sveitarfélaganna, enn fremur að setja reglur um skiptingu tekjuskatts og eignarskatts þessa á milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, enn fremur reglur um skiptingu á hluta sveitarfélaganna.

Þessa þáltill. okkar fjórmenninganna hefur í þau skipti, sem hún hefur verið flutt, dagað uppi og engin athugun mér vitanlega hefur farið fram í þá stefnu, sem þáltill. okkar markar.

Einn af þeim erfiðleikum, sem hið tvöfalda álagningarkerfi hefur skapað, er sá, að þegar álögur ríkisins hafa verið úr hófi fram þungar, hafa möguleikar sveitarfélaganna, sem leggja sín gjöld á, eftir að ríkið hefur lagt á sín árlegu gjöld samkv. fjárl., þrengzt mjög verulega, einfaldlega vegna þess, að því meiri sem ríkisskattheimtan er á gjaldendur í landinu, þeim mun minna er eftir af greiðslugetu gjaldendanna til þess að greiða sveitarútsvör sín.

Hæstv. ríkisstj., sem kom til valda í ársbyrjun 1960, lýsti því yfir fljótlega, að hún ætlaði að vinna að meginstefnubreytingu í sambandi við tekjuöflun ríkissjóðs, þ.e.a.s. því var lýst yfir, að tekjuöflunin mundi framvegis byggjast að langsamlega mestu leyti á innheimtu óbeinna skatta, en að sama skapi var ætlunin að lækka þá beinu skatta, sem innheimtir voru í ríkissjóð. Reynslan síðan 1960 hefur sýnt, að það hefur ekki staðið á því, að hinir óbeinu skattar til ríkissjóðs hafi hækkað og hækkað mjög verulega. En það eru ekki einungis óbeinu skattarnir, sem hafa stórhækkað, heldur hafa hinir beinu skattar ríkissjóðs nú síðan 1960, þ.e.a.s. tekjuskatturinn og eignarskatturinn, meira en fjórfaldazt á þessum árum og eru nú verulegur tekjustofn ríkissjóðs.

Fjárlög ríkisins hafa síðan 1958 og þar til í ár meira, en fjórfaldazt. Álögur sveitarfélaganna hafa á sama tíma, eftir því sem ég veit bezt, þrefaldazt. Söluskattur í ríkissjóð hefur síðan 1960 nífaldazt og tekjuskattur og eignarskattur, eins og ég gat um, hefur síðan 1960 fjórfaldazt. Þessar gífurlegu hækkanir, hvers kyns skattar í ríkissjóð og í sveitarsjóðina, hafa skapað ástand hjá miklum þorra gjaldenda þessa lands og þá fyrst og fremst launþegum, sem er algerlega óviðunandi. Skattpíning sú, sem mikið var umrædd, bæði hér innan þingsala og eins var ritað mikið um í dagblöð landsins á síðasta ári, þegar skattskrá Reykjavíkur var birt, er ferskasta dæmið um það, hvað hefur verið að gerast í skattamálunum hér á Íslandi undanfarandi ár.

Sú verðbólga, sem hér hefur farið um eyðandi eldi af meiri krafti síðustu árin, en nokkru sinni fyrr, hefur að sjálfsögðu leitt til þess, að tekjur launþega hafa hækkað allverulega frá ári til árs vegna verðbólguaukningar eingöngu. Raunhækkun teknanna, þrátt fyrir þá hækkun, sem orðið hefur talnalega, er kannske engin. En við þá verðbólguhækkun, sem hefur átt sér stað, hafa skattar á þessa gjaldendur verið í raun og veru að þyngjast nú hin síðustu árin allverulega.

Við fulltrúar Framsfl. í heilbr.- og félmn. lítum þannig á, að þær till., sem meiri hl. n. hefur lagt hér fram til breyt. á útsvarslögunum, gangi hvergi nægilega langt til þess að létta þann skattþunga til ríkisins og sveitarfélaganna, sem nú hvílir eins og mara á mörgum gjaldendum. Þess vegna, þó að við viðurkennum, að till. þeirra séu flestar til bóta, svo langt sem þær ná, höfum við engu að síður talið óhjákvæmilegt að flytja brtt. við frv. það, sem hér er verið að ræða, sem ganga að verulegu leyti lengra en þær till., sem stjórnarliðar hafa fengizt til að samþykkja í nefndinni.

Ég vil þá víkja að þeim brtt., sem við höfum flutt og liggja hér frammi á þskj. 633. Fyrsta brtt, okkar er við 8. gr. l. nr. 51 frá 1964, um tekjustofna sveitarfélaga, en 2. mgr. þeirrar gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Undanþegnir aðstöðugjaldi eru þeir, sem um ræðir í 29. gr., svo og skólar, barnahæli, sjúkrahús, elliheimili, orkuver til almenningsþarfa, sláturhús, mjólkurbú“ og þar á eftir viljum við taka inn í lögin: „ræktunarsambönd af jarðræktarvinnu fyrir félagsmenn.“

Þessi brtt. er flutt að gefnu tilefni út af vandamáli, sem skapazt hefur norður í landi við álagningu aðstöðugjalda á ræktunarsamband í einni sýslu þar, sem látið hefur vélar sambandsins vinna fyrir félagsmenn. Við teljum, að eðli málsins samkvæmt ætti þessi vinna fyrir félagsmenn með tækjum ræktunarsambandsins að vera undanþegin greiðslu aðstöðugjalda og teljum, að það sé mjög hliðstætt því, sem gildir um þá aðila aðra og þá starfsemi aðra, sem ég var að lesa hér upp áðan úr 2. mgr. 8. gr. l. um tekjustofna sveitarfélaga.

Önnur brtt. okkar hljóðar þannig: „Við 2. gr. Greinin orðist svo: 31. gr. l. orðist svo: Útsvar skal miða við hreinar tekjur og eign samkv. skattskrá, sbr. þó 36. gr. 2. mgr. og 42. gr. Við ákvörðun eigna til útsvars skal miða við gildandi fasteignamat þrefaldað.“ Þetta er óbreytt frá því, sem er í till. meiri hl., en þar að auki leggjum við til, að bætt verði við þetta: „Frá hreinum tekjum gjaldenda skal draga sem hér segir, áður en útsvar er lagt á þær skv. 32. gr.: Hjá einstaklingum 45 þús. kr. Hjá hjónum 63 þús. kr. Fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs á framfæri gjaldanda 12 þús. kr.“

Eins og hv. þm. sjá strax, er hér lögð til nokkuð miklu meiri hækkun persónufrádráttar, en fulltrúar stjórnarliða í hv. heilbr.- og félmn. töldu sér fært að standa að. Hækkun á persónufrádrætti einstaklinga og hjóna samkv. till. okkar nemur um 80%, miðað við gildandi lagaákvæði um persónufrádrátt í útsvari. Hins vegar er hækkun á persónufrádrætti barna í 12 þús. kr. nokkuð meiri, en hækkun á persónufrádrætti einstaklinga, því að hækkunin samkv. till. okkar er um 140% frá gildandi lagaákvæðum. Hugsun sú, sem liggur að baki þessari brtt., er sú, að við teljum óverjandi að leggja útsvör á nauðþurftartekjur gjaldenda, eins og þær eru reiknaðar í sambandi við útreikning framfærsluvísitölu á hverjum tíma. Við teljum, að þessar till. um persónufrádrátt, auk annars löglegs frádráttar í sambandi við útsvarsálagningu, eigi nokkurn veginn að leiða til þeirrar niðurstöðu, að einstaklingar og hjón, t.d. hjón með 2 börn, þurfi ekki að greiða útsvar af tekjum, sem eru ekki umfram það, sem talið er nauðþurftartekjur fyrir hina svokölluðu vísitölufjölskyldu. Þá teljum við eðlilegt og réttlátt í sambandi við persónufrádráttinn að hafa hækkun persónufrádráttar fyrir börn hlutfallslega hærri en persónufrádráttinn fyrir einstaklinga. Það er eðlilegt þegar af þeirri ástæðu, að hin mikla, óbeina skattheimta í ríkissjóð, sem hefur farið hér vaxandi hröðum skrefum ár eftir ár, kemur að sjálfsögðu þyngst við barnafjölskyldurnar í landinu, og við teljum því sanngjarnt og eðlilegt, að hækkun persónufrádráttar komi stóru fjölskyldunum með mörgu börnin fyrst og fremst til góða.

Þriðja brtt. okkar er við 3. gr. frv. Hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Greinin orðist svo: Stafl. A, tölul. 1, 32. gr. laganna orðist svo: Einstaklingar og hjón: Af fyrstu 40 þús. kr. 10%. Af 40–90 þús. kr. greiðast 4 þús. kr. af 40 þús. kr. og 20% af afgangi. Af 90 þús. kr. og yfir greiðast 14 þús. kr. af 90 þús. kr. og 30% af afgangi.“

Breytingar þær, sem þessi till. hefur í för með sér, eru þessar: Í fyrsta lagi, að útsvarsskyldar tekjur allt upp að 40 þús. beri ekki hærra álag en 10%. Samkv. frv. eru útsvarsskyldar tekjur, sem eru umfram 20 þús. kr., komnar strax upp í hærri útsvarsstiga. Önnur breyt. er sú, að við lengjum útsvarsskylda tekjubilið, sem ber 20% álag, við hækkum það úr 60 þús. kr. upp í 90 þús. kr., og að hámark útsvarsstigans, þ.e.a.s. 30% af útsvarsskyldum tekjum, komi aðeins á tekjur gjaldenda, sem eru umfram 90 þús. kr.

Við teljum, að þessar brtt, séu sanngjarnar og eðlilegar, og þær miða eins og till., sem ég var að lýsa hér áðan, að því að lækka útsvör af lágum tekjum og miðlungstekjum fyrst og fremst. Það munu áreiðanlega vera mjög margir gjaldendur hér í landinu, sem lenda með útsvarsskyldar tekjur á tekjubilinu 20–60 þús. kr. og eiga þeir af þeim tekjum samkv. frv. að greiða 20%. Nú vitum við, að miðað við það verðlag, sem við búum hér við, eru slíkar tekjur engar óhófstekjur og teljum því, að ekki eigi að skattleggja þær tekjur, sem umfram eru 60 þús. kr. útsvarsskyldar tekjur, með 30% hámarkinu. Það teljum við of þröngt bil og leggjum til, að það verði hækkað upp í 90 þús. kr.

Fjórða breyt. okkar er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir 3. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: 2. mgr. 34. gr. laganna orðist svo: Hækkun útsvara má þó eigi fara fram úr 10 hundraðshlutum.“

34. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nú kemur í ljós, að útsvör skv. 32. og 33. gr. laga þessara reynast hærri eða lægri, en fjárhagsáætlun segir til um og skal þá lækka eða hækka hvert útsvar að réttri tiltölu, unz hinni áætluðu upphæð að viðbættum 5–10% er náð. Hækkun útsvara má þó eigi fara fram úr 20%.“ Við leggjum til, að þessi hækkunarheimild verði bundin við 10% í staðinn fyrir 20%, eins og er nú.

Þá flytjum við tvær brtt. við ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta; fyrri brtt. er svo: „Ríkissjóður greiði til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukalega það, sem með þarf árið 1965, til þess að jöfnunarsjóðurinn geti skv. d–ið 15. gr. laga nr. 51/1964, um tekjustofna sveitarfélaga, staðið straum af aukaframlögum, sem leitt getur af takmörkunum á álagningarrétti sveitarfélaganna þetta ár.“

Okkur er það ljóst, að þær brtt., sem við höfum gert, bæði er lúta að hækkun persónufrádráttar og eins um breyt. á útsvarsstigum eða tekjubilum á útsvarsstiga, munu leiða til einhverrar lækkunar á heildartekjum sveitarfélaganna. Við teljum, að það sé eðlilegt af ástæðum, sem ég var að lýsa hér áðan, að ríkissjóður greiði aukalega til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna það, sem nauðsynlegt kann að verða til þess að bæta upp þetta tekjutap sveitarfélaganna, einfaldlega af þeirri ástæðu, að ríkissjóður hefur með sinni miklu skattheimtu á gjaldendur gert sveitarfélögunum erfitt um vik að ná þeim tekjum inn, sem þau þurfa að fá með góðu móti og ekki sízt vegna þess, að við teljum, að þegar ákveðið var á hv. Alþ. árið 1960 að verja 20% af söluskatti af viðskiptaveltu hér innanlands í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, hafi mátt reikna með því, að jöfnunarsjóðurinn héldi því hlutfalli af viðskiptasöluskattinum í framtíðinni, en síðan hefur söluskattur þessi verið hækkaður úr 3% upp í 71/2%, án þess að sveitarfélögin fengju nokkuð af þeirri hækkun.

Önnur brtt. okkar við ákvæði til bráðabirgða er svo hljóðandi:

Ríkisstj. skal, strax eftir að frv. þetta hefur hlotið lagagildi, skipa 5 manna nefnd til þess að endurskoða öll löggjafaratriði, er gilda um útgjaldaskyldur sveitarfélaga og tekjuöflun þeirra. Skal nefndin sérstaklega leggja áherzlu á það með till. sínum að leggja grundvöll að eðlilegri skiptingu þjóðfélagslegra verkefna milli sveitarfélaganna og ríkisins í samræmi við breytta þjóðarhætti, svo og grundvöll að skiptingu tekjustofna milli þessara aðila eða skiptingu tekna, ef þær eru innheimtar í einu lagi af sama stofni fyrir sveitarfélög og ríki. Jafnframt rannsaki nefndin, hvernig hægt verði að komast í áfögum hjá því mikla ósamræmi, sem núverandi reglur um gjaldskyldu þegna þjóðfélagsins leiða af sér miðað við efni og ástæður. Nefndin verði þannig skipuð, að þingflokkarnir 4 tilnefni í hana sinn manninn hver, en ríkisstj. skipi 5. manninn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Nefndinni er heimilt að fá sér aðstoð við störf sín og hafa skal hún samráð við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Nefndin skili álíti og till. svo fljótt, að næsta reglulegt Alþ. geti fjallað um þær.“

Till. þessi skýrir sig að mestu sjálf. Með henni er lagt til, að skipuð sé sérstök nefnd til þess að athuga, hvernig skattamálum ríkisins og sveitarfélaganna verði bezt fyrir komið í framtíðinni, hver sé eðlileg skipting verkefna á milli sveitarfélaganna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Við teljum að það sé mjög knýjandi, að slík rannsókn verði látin fara fram sem fyrst og gerum ráð fyrir því í till. okkar, að verði hún samþykkt, ætti þessi nefnd að geta, ef vel er unnið, skilað rökstuddum till. til breyt. á núverandi fyrirkomulagi skattamálanna, sem hægt væri að leggja fyrir næsta reglulegt Alþ., þegar það kemur saman, væntanlega n.k. haust.

Ég vil svo að endingu aðeins lýsa því yfir, að við fulltrúar Framsfl. í nefndinni munum að sjálfsögðu greiða atkv. með brtt. þeim, sem hér hafa verið lagðar fram frá meiri hl. n., að okkar till. felldum, sem ganga lengra, því að þótt þær að okkar dómi gangi allt of skammt, eru þær þó til bóta.