05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins í örfáum orðum ræða þær brtt., sem fram hafa komið frá 1. og 2. minni hl. hv. heilbr.– og félmn., en vil þó áður gera smáleiðréttingu á því yfirliti, sem ég gaf í kvöld um útsvar hjóna í lægsta tekjuflokki, sem ég taldi vera samkv. frv. og till. meiri hl., ef samþ. yrðu, 3 þús. kr. Þarna hefur komizt inn skekkja, þessi upphæð var tekin úr öðrum útreikningum, sem komu ekki fram í nál., en á þarna að vera 4.000, eins og réttilega kemur fram í álíti 1. minni hl. Þá breytist einnig prósentuútreikningur af þessum lægsta tekjuflokki, hækkar úr 3%, eins og ég taldi, að hann mundi verða, í 4%. Þó að þetta skipti ekki máli, vildi ég láta þetta koma fram hér, því að þetta er eins og það raunverulega mundi verða, ef frv. með breytingum verður hér samþ.

Í sambandi við 2. brtt. frá hv. 2. minni hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 634, þar sem lagður er til sérstakur frádráttur, 700 kr., fyrir hverja viku hjá verkafólki, sem vinnur við hvers konar fiskiðnað og hafnarverkamönnum, að þeim skuli veittur þar sérstakur frádráttur, 700 kr. á viku, þá vil ég geta þess, að í því bæjarfélagi, sem ég veiti forstöðu, fór fram fyrir nokkrum árum mjög ýtarleg athugun á því, hvort tiltækilegt væri að veita verkafólki, sem vann við fiskiðnaðinn, sérstakan afslátt á útsvörum. Eftir mjög viðtæka athugun, vil ég segja, komst bæjarstjórnin þar að þeirri niðurstöðu, að þetta mundi raska svo mikið grundvelli við álagningu útsvara, að hún treysti sér ekki til þess, þótt þar hefði verið fullur vilji fyrir hendi þá. Það kom mjög greinilega í ljós, að fljótlega var komið að þeim vanda, hvar ætti að stanza, ef talað var um fólk, sem ynni við fiskframleiðsluna, því að í þeim bæjarfélögum, sem að miklu leyti byggja afkomu sína á sjávarútvegi og fiskiðnaði, má segja, að það eru langsamlega flestar starfsstéttir, sem beint og óbeint starfa að þessari atvinnugrein. Það eru ekki einasta þeir, sem vinna í fiskiðjuverunum, heldur einnig þeir, sem vinna í netaverkstæðum, vinna í vélsmiðjum, vinna í slippum, dráttarbrautum og fleiri og fleiri skyldum atvinnugreinum. Allt þetta fólk er ein samhangandi keðja og ef einn hlekkurinn þar fær sérstök fríðindi, yrði það að sjálfsögðu að ganga yfir allan hópinn, sem þá aftur þýddi, að mikill þungi og allt of mikill þungi útsvarsbyrðanna mundi færast yfir á launafólk, sem þarna stæði utan við og þá er orðið fámennur hópur, þannig að við töldum, að þetta mundi skapa svo mikið óréttlæti, að við að mjög athuguðu máli treystum okkur ekki til að fara inn á þetta, þótt við gjarnan hefðum viljað gera það til þess að örva fólk til starfa við þessa atvinnugrein.

Í 3. till. hv. 2. minni hl. er lagt til í síðustu mgr., að gjaldanda, sem hefði greitt helming útsvarsins eða meir fyrir áramót, beri einnig að fá það dregið frá, eins og hann hefði greitt útsvarið að fullu. Ég tel, að einmitt þessu ákvæði gildandi laga megi ekki raska, því að þetta er kannske það sterkasta fyrir sveitarfélögin í innheimtu þeirra á sínum gjöldum, að þetta ákvæði skuli vera og í mörgum tilvikum er þetta einnig til hagræðis fyrir gjaldendur, sem þá safna síður á sig útsvörum milli ára og lenda þá síður í þrengingum með að komast fram úr skuldum sínum við sveitarfélagið, þannig að ég tel, að þetta mundi verka öfugt, bæði fyrir sveitarfélögin og einnig fyrir gjaldendur.

Það, sem er sameiginlegt í álitum hjá 1. og 2. minni hl. hv. heilbr.- og félmn., er sú grundvallarbreyting, sem gerð er á útsvarsstiganum, og þá um leið, að báðir aðilar leggja til, að ekki megi hækka útsvörin að niðurjöfnun lokinni meira en um 10%, en í gildandi l. er ákvæðið miðað við 20%. Ég skal fúslega viðurkenna, að það væri mjög æskilegt og mundu engir frekar óska þess, en sveitarstjórnarmenn, að hægt væri að lögfesta útsvarsstiga eitthvað í þá átt, sem lagt er til hjá báðum þessum aðilum. En það, sem gerir, að þetta er útilokað er, að sveitarfélögin mundu missa miklar tekjur við það, ekki einasta af lágtekjufólki, heldur einnig og miklu meira af hátekjufólki, þannig að þeim væri gert ófært að starfa á nokkuð svipuðum grundvelli og nú er og gert ófært að uppfylla þær skyldur og þær kvaðir, sem á þau eru lögð með lögum í sambandi við rekstur þeirra. Ég hygg, að með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á útsvarsstiganum, sé gengið eins langt og frekast er unnt í þessu atriði, ef ekki á að raska alveg og ég vil segja kippa fjárhagsgrundvellinum undan sveitarfélögunum. Það atriði, að jafnframt því að lækka útsvarsstigana, eins og 1. og 2. minni hl. hafa gert, og samtímis að leggja til, að leyfilegt álag á heildarniðurjöfnun yrði fært niður úr 20% niður í 10%, mundi verka þannig í öðru lagi, að flestöll sveitarfélögin og þar með einnig Reykjavík mundu lenda að verulegu leyti til þess að geta staðið við sína fjárhagsáætlun yfir á jöfnunarsjóð. Með því væri jöfnunarsjóður gerður óvirkur að því marki, eins og hann nú starfar, nema þá til kæmi í hann nýtt og aukið fé, sem ekki mundi skipta tugum millj., heldur jafnvel yfir 100 millj. Á þessu hefur engin athugun verið gerð, en aðeins af því lauslega, sem maður hefur getað fengið út úr þessu, sýnist, að þetta mundi kosta a.m.k. marga tugi millj., ef ekki meir. Við athuganir, sem gerðar voru á niðurjöfnunarstiga svipuðum þeim, sem er hjá hv. 2. minni hl., lauslegar athuganir, sem voru gerðar á þessu, kom í ljós, að þó að reiknað væri með 28 eða 30% tekjuhækkun, mundi Reykjavik þurfa að bæta ofan á útsvarsstigann, í öðru tilfellinu með 28% hækkun 57% og með 30% hækkun 41%. Hafnarfjörður mundi þurfa að bæta ofan á stigann 62–69%, Kópavogur 73–82%, og hygg ég, að þannig yrði um flest önnur sveitarfélög, þannig að það liggur nokkurn veginn alveg ljóst fyrir, að þetta er svo mikil röskun á fjárhagsgrundvelli sveitarfélaganna, að slíkt er ekki, eins og aðstæður eru í dag, framkvæmanlegt. En með því að auka fé jöfnunarsjóðs er að sjálfsögðu hægt að lækka útsvarsstígann, ef sveitarfélögin þurfa ekki jafnhliða og í sama mæli að auka tekjur sínar eða rekstrarútgjöld.

Ég skal nú ekki tefja umr. um þetta mál frekar, það hefur ekki verið gefið tilefni til þess. N. afgreiddi þetta mál þannig, að þó að allir væru sammála um þær brtt., sem þar komu fram hjá meiri hl., gat minni hl. þess strax í upphafi, að hann teldi þetta ekki nægilegt og er ekkert við því að segja. En þess ber þó að gæta, að þarna fer saman sú aðstaða, sem hægt er að skapa fyrir sveitarfélögin, annars vegar og hins vegar það, sem bæði hv. 1. og 2. minni hl. óska að fá gert og ég vil endurtaka, að sveitarstjórnarmenn sjálfir auðvitað væru mjög inni á, ef það væri framkvæmanlegt, sem ég tel því miður eftir athugunum, sem mér er kunnugt, að hafa verið gerðar á þessu máli, að ekki sé.