06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það er nú sjáanlegt, hvernig hæstv. ríkisstj. og þingmeirihl. muni ætla að ganga frá skattamálum á þessu þingi. Ég ætla ekki að rekja þessi mál neitt nákvæmlega hér, það hefur þegar verið gert, en ég held, að segja megi, að í megindráttum líti nú málið þannig út, að í krónutölu muni menn yfirleitt greiða hærri gjöld á þessu ári, en hinu síðasta, vegna þess að tekjur hafa hækkað allverulega og þær lagfæringar, sem hér er gert ráð fyrir að gerðar verði, eru ekki nægar til þess, að skattar standi nokkurn veginn í stað í krónutölu, þó að tekjur hafi hækkað nokkuð, en lítið meira, en svarar til verðlagsbreytinga í landinu. Hins vegar mun hér verða lítið eitt minna hlutfall, sem menn greiða af tekjum sínum að þessu sinni, en gert var í fyrra.

Hér hafa verið fluttar brtt., sem voru mjög í samræmi við það, sem samninganefnd verkalýðssamtakanna hafði áður rætt um við ríkisstj., en ekki höfðu fengið undirtektir þar og síðan verið felldar hér við 2. umr. málsins. Það var ein till, af þeim, sem 2. minni hl. n. flutti, flutt af Hannibal Valdimarssyni, varðandi sérstakan frádrátt til fólks, sem vinnur við fiskvinnu, í fiskiðnaðinum og til hafnarverkamanna. Þessi till. fékk litla náð hér í þessari hv. d., en engu að síður vil ég leyfa mér við þessa umr. að taka hana upp nokkuð breytta og freista þess enn að fá hljómgrunn fyrir efni málsins, sem þar er um að ræða. Ég vil leyfa mér, þótt komið sé nú fram í 3. umr., að flytja hér skrifl. brtt. Það var seinast í gærkvöld, sem þessi mál voru afgreidd hér úr d., og vannst því ekki tími til þá að ganga frá till., en með leyfi hæstv. forseta er þessi till. á þessa leið, — ég vil taka fram, að hún er efnislega svipuð till. þeirri, sem var á þskj. 634 2. till. á því þskj., — hún er þannig:

„Á eftir 1. gr. frv. komi ný gr., svo hljóðandi: Eftir bókstafslið k í 30. gr. l. komi nýr liður, 1, svo hljóðandi:

Heimilt er að veita verkafólki, sem vinnur við hvers konar fiskiðnað og hafnarverkamönnum sérstakan frádrátt, 700 kr. fyrir hverja viku, sem þeir vinna að viðkomandi störfum, enda hafi þeir unnið þau störf ekki skemur en 6 mánuði af skattárinu.“

Sú breyting, sem hér er um að ræða frá fyrri till., er sú, að hér er um heimild fyrir sveitarstjórnirnar að ræða, en ekki ákvæði, sem þær eru skyldar að fara eftir og vil ég nú rökstyðja þetta nokkru frekar.

Það er tvennt fyrst og fremst, sem um er að ræða. Í fyrsta lagi tel ég það engan veginn réttlátt, heldur í hæsta máta ranglátt að leggja með sama mælikvarða á tekjur verkafólks, sem vinnur kannske 12–14 klst. á sólarhring og stundum miklu meira fyrir tekjum sínum og kemst á þann hátt kannske í æðiháar árstekjur. Þetta fólk vinnur ekki svona langan vinnutíma bara vegna þess, að það vilji vinna svona lengi, heldur er það fyrst og fremst vegna þess, að það er nauðsynlegt til þess að bjarga verðmætum, bjarga því allra verðmætasta, sem við þurfum að bjarga, þ.e.a.s. sjávarframleiðslu okkar. Það er ekki réttlátt að leggja á þetta fólk sama mælikvarða, jafnháar tekjur, skulum við segja, eins og á mann, sem vinnur 6–7 klst. á dag fyrir jafnháum tekjum. Það getur ekki verið, að það sé réttlátt að nota sama mælikvarða í báðum tilfellum.

En auk þessa og það, sem þó kannske er aðaltilgangurinn með þessari till., er að reyna að jafna ofurlítið aðstöðuna á vinnumarkaðinum sjálfum. Og þar eru að sjálfsögðu ekki sömu aðstæður hvar sem er á landinu. En hér í Reykjavik og sennilega í næstu kaupstöðum er nú ástandið þannig, að það má heita, að það skiptist í tvær meginheildir, hvernig háttað er kaupgreiðslum. Það er annars vegar fiskiðnaðurinn, hafnarvinnan og opinber fyrirtæki, sem greiða einvörðungu umsamda kauptaxta, telja sig á engan hátt geta vikið frá þeim, og ef það er gert, er það þá í hæsta lagi með því að ívilna mönnum eitthvað í tímareikningi. Hins vegar eru svo hvers konar framkvæmdir, verktakaframkvæmdir, byggingarvinna, þjónustustörf margs konar, ekki sízt verzlunin, sem greiða allt annað kaup, kaup, sem er 60–70, jafnvel upp í 100% hærra á klst. en greitt er í þessum atvinnugreinum. Það sjá náttúrlega allir, að ef þannig fer fram, er stefnt í beinan voða með undirstöðuframleiðslu okkar og það er þegar komið svo, að skortur á vinnuafli í þessum greinum er mjög mikill og það má ekki aðeins segja, að það sé skortur á vinnuafli, heldur verður það vinnuafl, sem þangað kemur, lakara og lakara, eftir því sem þessi samkeppni harðnar meir. Það er annars, þriðja og fjórða flokks vinnuafl, sem þessi atvinnurekstur fær. Blóminn úr vinnukraftinum, þeim mönnum sem eru á vinnumarkaðinum og geta boðið sig hvar sem er í vinnu, fer auðvitað til þeirra, sem greiða miklu hærra kaup. Ég mundi því segja, að þessi till. sé raunverulega miklu meira til þess að jafna þessa aðstöðu á vinnumarkaðinum, sem ég tel, að sé alveg lífsnauðsyn fyrir okkur að reyna að jafna á einhvern hátt. Og hvaða leiðir eru færar aðrar en einmitt að reyna að gera það með skattaálagningu? Sú upphæð, sem hér er tilgreind, er nokkurn veginn nákvæmlega hin sama og nú felst í þeim frádrætti, sem sjómenn fá, svo til nákvæmlega hin sama. Ég mundi leggja mikla áherzlu á, að þetta mál yrði afgreitt á þennan hátt.

Eins og ég tók fram áðan, er sjálfsagt aðstaða í hinum ýmsu sveitarfélögum eða bæjarfélögum ólík hvað þetta snertir. Ég get hugsað mér staði eins og helztu verstöðvar okkar hér við Flóann, jafnvel Vestmannaeyjar o.s.frv.; þar sem megin þorri fólksins vinnur að þessum atvinnurekstri einvörðungu eða svo til einvörðungu. Þar er þetta vandamál máske ekki fyrir hendi, en það er mjög tilfinnanlega fyrir hendi einmitt hér. Hér er einnig um heimild að ræða og það er þá á valdi sveitarstjórnanna, hvort þær notfæra sér þessa heimild eða ekki, hvort þær telja málið svo þýðingarmikið, að þær noti heimildina.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þessa brtt., en leyfi mér að afhenda hana forseta. Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um þessi skattamál að þessu sinni. Ég hef haft aðstöðu til þess að ræða þau við hæstv. ríkisstj. og sett skoðanir mínar þar fram, en ég vænti þess, að menn séu þess minnugir, hvað upp á teningnum varð, þegar skattskráin kom út í fyrra. Ég mundi telja, að með þeim breyt., sem nú er fyrirhugað að gera á útsvars- og skattal., verði ekki mikill munur á, hvernig útkoman eða niðurstaðan verður hjá launafólki. Ég skal að vísu ekki neita því, að þær breytingar, sem gerðar hafa verið hér, eru jákvæðar, svo langt sem þær ná, en þær ganga allt of skammt. Við vitum, að í okkar þjóðfélagi eiga sér stað gífurleg skattsvik, sem sjálfsagt er erfitt við að eiga að mörgu leyti. En það á sér líka stað ranglæti gagnvart launafólkinu, vegna þess að atvinnurekstur og stóreignir er engan veginn skattlagt í þeim mæli, sem ætti að gera. Það voru athyglisverðar tölur t.d. varðandi aðstöðugjöldin, sem hér voru lesnar upp áðan. Sýnir það, að Reykjavík er sennilega mun lægri í aðstöðugjöldum, en aðrir kaupstaðir og kauptún. Ef aðstöðugjaldaskalinn væri notaður hér í Reykjavík eins og heimilt er, er enginn efi á því, að hægt væri að létta byrðum af launafólkinu. Þetta hefur ekki fengizt fram að þessu. Og þó að ég játi það, að í þeim breytingum, sem hér liggja fyrir, felist jákvæðar till. frá því, sem l. gerðu ráð fyrir, vil ég þó taka það skýrt fram og í raun og veru þar með gera grein fyrir atkv. mínu, að með þessum lögum er verið að leggja þungar og ranglátar byrðar á alþýðu manna og allt launafólk í landinu og til þess að mótmæla þeim, mun ég greiða atkv. gegn þessu máli úr deildinni.