06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. og hef ekki heldur gert, en vil láta koma í ljós skoðun mína í sambandi við þetta mál, áður en það fer héðan út úr hv. deild.

Það sem mestu máli skiptir í sambandi við útsvör á hverjum tíma, er það, að framtöl framteljenda séu rétt. Það sem hefur valdið mestu um gremju fólksins, er það, hve langt er frá því, að framtölin séu rétt og því miður hefur sú breyting, sem gerð var á skattakerfinu í landinu, ekki komið í veg fyrir það eða breytt á neinn hátt til batnaðar frá því, sem áður var um rétt framtöl. En það skiptir auðvitað máli, þegar um reikningsdæmi er að ræða eins og útsvarsálagning er orðin nú, að grundvöllurinn sé réttur, en á það skortir verulega. Mér er það fullkomlega ljóst, að þó að nú verði gerð breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, mun sú breyting ekki lengi standa, frekar en fyrri breytingar og það er höfuðnauðsyn, þó að það hafi verið fellt hér í gær, að taka þennan lagabálk allan til endurskoðunar. Þar þarf einnig að taka til endurskoðunar reglurnar um jöfnunarsjóðinn og gera jöfnunarsjóðinn meira að jöfnunarsjóði, en hann nú er. En í sambandi við það vildi ég mega benda á, að við höfum í innheimtukerfi okkar til ríkis og sveitarfélaganna tvenns konar form. Við leggjum á beina skatta í útsvörunum og beina skatta til ríkisins, sveitarfélögin fá tekjur úr jöfnunarsjóðnum í gegnum söluskattinn. Ég held, að í framtíðinni munum við breyta þessu kerfi og það sé nauðsynlegt að gera það og það verði að vera á þann veg, að sveitarfélögin fái beinu skattana, við séum ekki að blanda þessu svo saman eins og nú er, heldur fái sveitarfélögin alla beinu skattana og taki þá að sér líka álagningu þeirra og þann kostnað, sem framtölum þeirra fylgir. En í sambandi við það, ef við breyttum því og létum einnig tekjur af beinu sköttunum ganga til jöfnunarsjóðsins, þurfum við að endurskoða reglurnar um jöfnunarsjóðinn og úthlutun hans. En ég vil undirstrika það, að það er brýn nauðsyn að endurskoða þennan lagabálk og það verður að stefna að því að gera þetta einfaldara í framkvæmd en verið hefur, og það verður bezt gert með því, að sveitarfélögin fái í sinn hlut beinu skattana, en ríkið sitji eftir með þá óbeinu.