11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið úr hv. Nd. og tók þar allverulegum breyt. Ég mun hér gera grein fyrir, í hverju þessar breyt. eru fólgnar og þá miða við frv. eins og það liggur fyrir eftir þá afgreiðslu, sem það fékk í Nd.

Með þessu frv. er í fyrsta lagi breytt útsvarsstigunum á þá lund, að þrepunum er fjölgað um eitt samkv. gildandi útsvarslögum. Það voru aðeins tvö þrep í úrsvarsstigunum, þ.e.a.s. af fyrstu 40 þús. kr. skyldi greiða 20%, en af því, sem umfram er, 30% í útsvari, en nú er þessu breytt þannig, að það er bætt einu þrepi neðan við: 10% skal greiða af fyrstu 20 þús., 20% af næstu 40 þús. og síðan 30% af því, sem umfram er. Þetta er áreiðanlega til mikilla bóta, því að eftir núgildandi lögum hafa verið of fá þrep í útsvarsstiganum og er þess vegna ástæða til að fagna því, að þessu hefur verið breytt og bæði þetta ákvæði og reyndar fleiri, sem felast í þessu frv., eru sérstaklega miðuð við það að vera til hagsbóta fyrir lágtekjufólk.

Í öðru lági er persónufrádráttur hækkaður allmikið, þannig að persónufrádráttur einstaklinga verður samkv. frv. 35 þús. kr., en er í gildandi lögum 25 þús. Það er hækkun um 40%. Persónufrádráttur hjóna verður 50 þús. kr., var 35 þús. kr. samkv. gildandi l. og hækkar um 43% . Persónufrádráttur fyrir barn verður 10 þús. kr., en er í gildandi lögum 5 þús., hækkunin 100%. Ef tekið er meðaltal og litið á hjón með tvö börn, verður persónufrádráttur þeirra 70 þús. kr. samkv. þessu frv., en er í gildandi lögum 45 þús. og það gerir hækkun um 55%. Þetta er langsamlega mesta hækkun, sem orðið hefur á persónufrádrætti í útsvari og það sést í raun og veru bezt, hvað þessi hækkun er mikil, að meðaltali 56%, þegar þess er gætt, að tekjur manna munu eftir úrtaki, sem gert hefur verið, hafa hækkað um sem næst 27–28% á árinu 1964, miðað við árið á undan. Þó að það sé auðvitað engin fullnaðarniðurstaða, þar sem þetta er aðeins úrtak, hlýtur það þó a.m.k. að gefa mönnum upplýsingar, sem hljóta að fara nálægt lagi, þó að auðvitað reynslan ein geti skorið úr til fullnaðar. Og það má líka benda á, að samkv. athugunum, sem gerðar hafa verið, þá er talið, að kaup launastéttanna hafi að meðaltali átt að hækka miðað við kauptaxtana um 23% frá árunum 1963–64. En eins og ég gat um áðan, þá hafa raunverulegar tekjur sýnt sig hækka nokkru meira og menn geta sjálfsagt haft skiptar skoðanir á því, af hverju þessi munur stafar, hvort menn hafa lagt á sig meiri vinnu, hvort það séu betri framtöl vegna aukins skatteftirlits eða launahækkanir utan kjarasamninga og e.t.v. blandast allar þessar ástæður að einhverju leyti saman. En það er alveg ljóst, að með þessum breytingum persónufrádráttarins er þó bezt gert við barnmargar fjölskyldur, þar sem persónufrádráttur barna er hækkaður langsamlega mest.

Auk þessa má svo benda á það ákvæði frv., sem er reyndar skylt þessu, persónufrádrættinum, sem er á þá leið, að í kaupstöðum skuli útsvör, sem eru lægri en 1.500 kr., felld niður. Þetta mundi þýða það, að hjón með tvö börn, sem byggju í kaupstað og hefðu 86 þús. kr. nettótekjur, yrðu útsvarsfrjáls. Ég hygg nú, að margir muni álíta, að það séu svo lágar tekjur, að ekki sé hægt að taka útsvar af þeim, en þess ber auðvitað að gæta, að þegar talað er um 85 þús. kr., eru það nettótekjur. Ég álít, að það mundi vera nokkuð nærri lagi, þótt það sé ekki hægt að gefa upp neina ákveðna upphæð, að hjón með tvö börn, sem hefðu 100 þús. kr. brúttótekjur, mundu í ákaflega mörgum tilfellum algerlega sleppa við útsvör samkv. þessari grein, vegna þess að flestir hafa ýmsa frádráttarliði á skattframtalinu hjá sér, svo sem vexti, almannatryggingagjald, viðhald húseigna og annað slíkt, og þess vegna álít ég, að það mundi láta nokkuð nærri; að eftir þessum lögum mundu hjón með 100 þús. kr. brúttótekjur verða útsvarsfrjáls í kaupstöðum.

Það er auðvitað þannig, að þegar persónufrádráttur er hækkaður, hefur hann áhrif á útsvör allra gjaldendanna, þ.e.a.s. hann hefur ekki bara áhrif neðst í skalanum fyrir þá, sem hafa lægstar tekjur, heldur hefur hann áhrif upp fyrir sig, þannig að, eins og reyndar oft hefur komið fram bæði í sambandi við skattana og útsvörin, hækkaður persónufrádráttur þýðir lika lækkaða skatta fyrir þá, sem hafa háar tekjur og þá er þetta, sem oft er deilt um, að slíkar ráðstafanir, hækkun persónufrádráttarins, leiða til þess, að hátekjumaðurinn fær meiri skattalækkun eða útsvarslækkun í krónutölu að upphæð til, en lágtekjumaðurinn fær aftur hærri afslátt eða hans útsvar lækkar meira hlutfallslega.

Nú er það auðvitað augljóst mál, að með þessari miklu hækkun á persónufrádrætti verða margir útsvarsfrjálsir eða sem næst því; sem ella hefðu greitt útsvör og nú er það svo, að sveitarfélögin verða auðvitað að ná þeim tekjum inn, sem þau hafa áætlað í útsvarstekjur á þessu ári, til þess að standa undir sínum útgjöldum og þá verður vitanlega ekki hjá því komizt, að þau verða að leggja á þannig, að þau nái þessum tekjum öllum inn, m.ö.o., að sveitarfélögin hafa eins og verið hefur samkv. þessu frv. heimild til þess að breyta útsvarsstiganum, ýmist að gefa afslátt af honum eða leggja ofan á hann. Undanfarin ár hefur reynslan sýnt, að yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga hefur gefið afslátt og það í sumum tilfellum allríflegan, einkum þó sveitahrepparnir, en það hefur heyrt alveg til undantekninga, ef kaupstaður hefur þurft að leggja ofan á stigann.

Þessi skali gefur sveitarfélögunum mun lægri tekjur en sá eldri. Hann getur auðvitað breytt þessari mynd talsvert, þannig að nú snúist málið við, að það verði jafnvel algengara í kaupstöðum og kauptúnum, að leggja þurfi ofan á stigann, en að gefa afslátt af honum. Þess vegna verða menn að gera sér það ljóst, að þeir, sem á annað borð lenda í því að greiða útsvar og sérstaklega það fólk, sem hefur háar tekjur, þó að það fái samkv. þessum skala allmiklu lægri útsvör, en eftir fyrri stiga eða skala núgildandi laga, getur þetta breytzt vegna þess, að af stiganum, sem gilti s.1. ár, fékk þetta fólk afslátt, en á þennan stiga, sem er lægri og þeim hagstæðari, verður hins vegar kannske að leggja ábót.

Þá er í þessu frv. ákvæði um það, að áður en úthluta skuli framlagi jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga, skuli draga frá úthlutunarfénu 3% af tekjum sjóðsins til að mæta þörfum sveitarfélaganna samkv. 15. gr. Eftir tekjustofnalögunum er það þannig, að ef sveitarfélagi dugir ekki 20% álag ofan á skalann, tekur jöfnunarsjóður við. Að vísu veit ég ekki til, að neitt slíkt tilfelli hafi átt sér stað fram að þessu, en það má auðvitað gera ráð fyrir því, að þegar skalinn lækkar svona mikið, þá muni það í örfáum sveitarfélögum geta orðið tilfellið, að þau verði að leggja 20% ofan á og dugi ekki til, og þá þarf jöfnunarsjóður að grípa inn i. Hér er þess vegna lagt til, að þetta sérstaka framlag jöfnunarsjóðs til að mæta þörfum sveitarfélaganna hækki úr, að mig minnir 1%, sem það er í gildandi lögum, í 3%.

Þessu máli var visað til heilbr.- og félmn. Nefndin klofnaði um málið, en meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., þó með einni brtt., sem er á þskj. 742. Það er brtt. við 61. gr. laganna, en brtt. er fyrst og fremst fólgin í því, að inn í tekjustofnalögin eru tekin efnisákvæði úr 48. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeim var breytt hér nýlega í meðförum Alþingis eða a.m.k. í meðförum þessarar hv. deildar.

Samkvæmt tekjustofnalögunum hefur ekki verið nein heimild til þess að leggja á gjaldendur sektir fyrir að svíkja undan útsvar og aðstöðugjald á sama hátt og hægt er með bæði tekjuskatt og eignarskatt og söluskatt og það er til þess að bæta úr þessum heimildarskorti, sem þessi brtt. er gerð, sem meiri hl. n. flytur og til þess að samræma þetta lögunum um tekju- og eignarskatt.

Eins og segir í aths., sem fylgja þessu frv., hefur ríkisstj. átt viðræður við fulltrúa Alþýðusambands Íslands um þessar breyt. og þar segir enn fremur, að athugasemdir þær, sem fulltrúarnir báru fram, komi til athugunar við meðferð málsin á Alþ., og eins og ég gat um í upphafi, hefur í meðferð Nd., að ég hygg, verið gengið allverulega til móts við óskir Alþýðusambands Íslands, þó að um það næðist ekki fullt samkomulag. En lengra hefur ríkisstj. ekki treyst sér til að ganga.

Ég ítreka svo það, að meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. með þeirri einu brtt., sem meiri hl. n. hefur lagt fram og ég lýsti hér áðan.