11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég flyt engar brtt. við frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er til umr. Í nál. mínu, sem prentað er á þskj. 743, skýri ég frá ástæðunum til þess, að ég flyt hér engar brtt. Ég skal ekki lengja umr. um málið með því að rekja það, sem í nál. stendur, en vísa aðeins til þess og undirstrika það. Ég verð ekki sakaður um þá fáu daga, sem ég hef setið hér í þessari hv. d., að hafa lengt umr. þar með óþörfu málþófi og þess vegna vildi ég leyfa mér við þetta tækifæri að fara nokkrum orðum um það mál, sem hér er á dagskrá.

Það er ljóst, að í öllum meginatriðum þessa frv. er fram haldið þeirri ranglátu skattastefnu gagnvart almenningi, sem einkennt hefur þessa hæstv. ríkisstj., sem nú situr, frá því að hún hóf valdaferil sinn, þá skattránsstefnu, sem á s.l. ári alveg sérstaklega kristallaðist í því miskunnarlausa blygðunarleysi að láta lágtekjumenn, lægst launuðu verkamenn borga jafnvel hærri útsvör og skatta, en mestu gróðamenn þjóðfélagsins, margfalda milljónera að eignum og margmilljónera að tekjum frá ári til árs.

Menn munu minnast þess, að á Alþ. í fyrravor, þegar skatta- og útsvarslög voru þá til umr., héldu stjórnarflokkarnir því blákalt fram, að um svo verulegar skattalækkanir yrði að ræða samkv. þessum nýju lögum, að einsdæmi væri í sögu þingsins. Þessu var haldið fram af áróðursmálgögnum stjórnarflokkanna fram á síðustu stund, allt fram til þess, að menn stóðu með staðreyndirnar í höndum sér, stóðu með það skjalfest svart á hvítu, að aldrei hefði meira skattrán verið framið gagnvart þjóðinni, en einmitt að þessu sinni. Og þegar það loksins rann upp fyrir stjórnarflokkunum, að ekki tjóaði öllu lengur að boða mönnum þann sannleika, að nú gætu menn farið í ferð til Suðurlanda fyrir útsvars- og skattalækkun sína, var því lofað hátíðlega, að þetta skyldi nú bætt að nokkru, en einnig haldið fram alveg purkunarlaust, að um þessa útkomu hefðu stjórnarflokkarnir ekkert vitað, þegar málið var til umr. á Alþ. Nú er ákaflega varlegt að trúa því, að jafnmikilvæg mál og hér um ræðir fyrir alla þjóðina séu lögð fram af ríkisstj. á Alþ. á þann veg, að hún geri sér ekki grein fyrir meginstaðreyndum málsins og það er full ástæða til að ætla, að stjórnarflokkarnir hafi á þessum tíma vitað annað og meira, en þeir sögðu, en leynt því. Og þetta vil ég marka m.a. af því, að annaðhvort í þann mund, sem verið var að afgreiða útsvarslög á Alþ. í fyrra með því fororði, að svo væri teflt í tvisýnu með skattalækkun tekjumöguleikum sveitarfélaga, að útlit væri fyrir, að þau þyrftu öll að grípa til meira og minna aukaálags, þá gerðist það, að fulltrúar Reykjavíkurborgar skutu saman skyndifundi og hækkuðu allt í einu áætlun sína um útsvarsálögur á borgara Reykjavíkur um litlar 40 millj. kr. Eru líkur til þess, að þetta hefðu fulltrúar Reykjavíkurborgar gert, ef þeir hefðu haldið, að fullyrðingar um stórkostlegar skattalækkanir, sem haldið var fram hér á Alþ. að yrðu, væru réttar, ef þær væru á rökum reistar, ef þeir vissu ekki betur, en látið var í veðri vaka, hér á hinu háa Alþ.? Ég held, að það sé meir en vafasamt, að svo sé, svo að ekki sé meira sagt. Og áfram er haldið þessari stefnu, áfram er haldið þessum málflutningi. Enn er sagt, að um stórfelldar skattalækkanir verði nú að ræða og að afkomu sveitarfélaga sé stefnt í algera tvísýnu.

Í fyrra gátu ýmis sveitarfélög og kaupstaðir lækkað skattana, veittu afslátt af skattstiganum allt að 40–60%, og svo óveruleg hækkun á persónufrádrætti sem nú hefur verið fallizt á mun ekki valda þeim ósköpum að mínu viti, að skattstigarnir núna reynist of takmarkaðir, tekjumöguleikar samkv. þeim of litlir, þegar tekið er tillit til þeirra tekjuhækkana, sem almennt urðu á s.l. ári. Enda kom það mjög skýrt í ljós í framsöguræðu hv. 9. landsk. þm., frsm. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. í þessu máli hér áðan, að þessi er ekki raunin. Þessi eru ekki rökin fyrir því, að ekki er hægt að ganga lengra til móts við kröfur verkalýðssamtakanna í sambandi við afgreiðslu útsvars- og skattamála hér á Alþ., heldur hitt, eins og hann sagði í niðurlagsorðum sínum: „Lengra hefur ríkisstj, ekki treyst sér til að ganga.“ En nú spyr ég: En treystir Alþ. sér ekki til að ganga lengra, þó að ríkisstj. treysti sér ekki til þess? Það er á valdi Alþ. að ganga lengra, að ganga til móts við sjálfsagðar og sanngjarnar kröfur almennings. Það er á þess valdi og þess valdi eins. En hér ber allt að sama brunni. Hér er það valdstefna hæstv. ríkisstj., sem ræður lögum og lofum, sú valdstefna, sem hefur þrengt sér æ meir og meir inn í alla hluti í þessu þjóðfélagi á þessum síðustu og verstu viðreisnartímum, sú valdstefna, sem ég óttast að eigi eftir að valda alvarlegri hlutum í þessu þjóðfélagi, en menn gera sér eða vilja almennt gera sér grein fyrir nú.

Í sambandi við þá réttlátu reiðiöldu, — þá öldu sjálfsagðrar fyrirlitningar gegn valdhöfunum, sem reis hér í fyrrasumar, þegar skattarnir birtust og í framhaldi hennar verður að rísa til alvarlegri viðbragða, en menn almennt hafa hugsað sér. Ríkisstj. fann það og skildi þá, að henni var að vaxa yfir höfuð nýtt afl í þjóðfélaginu, svo að til einhverra ráða varð að grípa. Og þá var lofað, að upp skyldi tekið skattaeftirlit, sem lagfærði eitthvað þá rangsleitni, sem skattskráin sýndi okkur að framin hefði verið. Allir voru sammála og hafa verið sammála um, að þetta skattaeftirlit væri nauðsynlegt og væri sjálfsagt. Nú er því ekki að leyna, að þau miklu skattsvik, sem talað er um að hér séu og hér eru, eru þess eðlis, að stjórnarvöldin hefðu hvenær sem var og án nýrrar löggjafar getað hindrað þau, ef þau vildu. En það hefur ekki bólað á því, að þau vildu neitt gera í þeim málum, að þeim þætti neitt athugavert við það, þó að hátekjumenn, ofsatekjumenn, menn, sem byggja fyrir augun um á almenningi milljónahallir, borguðu það, sem kallað er vinnukonuútsvar. Látum svo vera. Það voru allir sammála um það, að komið yrði á fót skattaeftirlitinu og sett löggjöf um þau atriði og ég skal taka það fram, að ég vanmet ekki vilja þeirra manna, sem að þessu skattaeftirliti standa. Það er enn á ný verið hér í brtt. við þetta frv. að auka og endurbæta löggjöf um skattaeftirlit og enn eru menn þeirrar skoðunar, að þetta sé nauðsynlegt og menn fylgja þessu að máli. Ég fyrir mitt leyti vil segja: Þetta er sjálfsagt og rétt, en það getur líka verið hættulegt. Það er hægt að misbeita því valdi, sem með þessum lögum er veitt valdhöfunum, eins og öllu öðru valdi, og ég vil lýsa því yfir, að ég vantreysti núv. ríkisstj. til þess að fara réttlátlega með þetta vald. Ég vil leyfa mér að geta þess hér við þessa umr., þó að það ef til vill komi til umr. aftur, það er ekki fullvíst, að í hv. Nd. hefur nú hæstv. fjmrh. lagt fram brtt. við lagagreinar, sem samþ. voru fyrir nokkrum dögum hér í þessari hv. d., á þá lund, að heimilt sé að fella niður skattsektir samkv. þeim málsgreinum, sem hér voru samþ., hafi skattþegn fyrir 1. marz 1966 af sjálfsdáðum gefið réttar skýrslur um þau atriði, sem máli skipta um tekjuskatt hans og eignarskatt eða talið fram til skatts. Hér er um heimildarákvæði að ræða, sem mjög auðvelt er í höndum valdstefnumanna að misnota á herfilegan hátt og mér er nær að halda eftir reynslu undanfarinna ára með sívaxandi spillingu í fjármálalífi þessa lands, spillingu sem allir sjá og viðurkenna, spillingu sem verður fyrst og fremst að skrifast á, reikning valdhafanna, vegna þess að þeir hafa ævinlega og alltaf haft lög til að útrýma henni, ef þeir vildu, þá er ég hræddur um, að heimild eins og þessi verði af núverandi valdhöfum misnotuð. Það er auðvelt samkvæmt þessum ákvæðum að mismuna mönnum, að hlífa þeim, sem hlífa skal, en láta lögin ganga yfir aðra og slik lög eru verri, en engin lög. Með þessu er ég ekki að mæla gegn skattaeftirliti og að eftirlit sé haft með því, að rétt sé talið fram. Ég er aðeins að benda á þennan möguleika og vara við honum í þjóðfélagi, þar sem eins háttar og í okkar þjóðfélagi í dag. Ég skal ekki orðlengja frekar um þau atriði.

Að lokum vildi ég svo aðeins segja: Hv. 9. landsk. þm. sagði í framsögu sinni hér áðan, að persónufrádráttur hækkaði nú svo, að til hagsbóta væri fyrir lágtekjumenn. Ég vil ekki vefengja þessi orð hans að neinu leyti. Það má vel vera, að með þeim breyt., sem hér eru lagðar til á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, náist það réttlæti, að allra lægst launuðu menn í þjóðfélaginu sitji nú í fyrsta skipti við sama borð og allra mestu gróðamenn þjóðfélagsins.