11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths., sem ég ætla að gera hér við ræður frsm. minnihlutaálitanna um þetta mál.

Báðir þessir hv. þm. kvörtuðu undan því, að hækkun persónufrádráttarins væri of lítil og það væri illt til þess að vita, að ríkisstj. treysti sér ekki að ganga lengra. Það er ekki úr vegi í sambandi við þetta að lita dálítið aftur í tímann og spyrja, þegar fulltrúar þessara hv. flokka áttu aðild að ríkisstj., við hvaða kjör menn hafi þá búið í sambandi við útsvarsálagningu og persónufrádrátt, því að sannleikurinn var sá, að á meðan það ákvæði var í gildi, að hægt var að leggja á eftir efnum og ástæðum, þá var farið ákaflega langt niður. Og ég man eftir því, að þegar tekjustofnalögin voru fyrst í endurskoðun á valdatíma þessarar ríkisstj., kom það meira að segja fram, að það hefði verið lagt á tekjur, — það var að vísu fyrst og fremst í sveitahreppum, — sem voru 3 þús. kr. Það er þess vegna fyrst og fremst verk núv. ríkisstj. að hafa tryggt fólki einhvern vissan, lögboðinn persónufrádrátt til útsvars, þannig að það væri einhver hluti af tekjum þess, sem væri útsvarsfrjáls. Það er þess vegna ekki hægt að taka mjög alvarlega, þegar þessir sömu menn telja nú, að ríkisstj. gangi allt of skammt í því efni, og ég er a.m.k. þeirrar skoðunar, að það hefði verið sama, hvað ríkisstj, hefði gengið langt í þessu, alltaf hefðu komið till. um að gera eitthvað meira.

Mér hefur verið sagt, að það hafi nú að undanförnu borizt kvartanir frá forráðamönnum sveitarfélaganna, þ. á m. frá Húsavík, um það, að með þessum persónufrádrætti og þessum breytingum væri verið að ganga of langt í persónufrádrætti, með þessum breyt., sem felast í þessu frv. Það er auðvitað hægt að gera eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), það er auðvitað hægt að stórhækka þennan persónufrádrátt enn þá frá því, sem gert er í frv., og láta svo meginhlutann eða talsverðan hluta af útsvörunum lenda á jöfnunarsjóði og láta svo ríkissjóð greiða jöfnunarsjóði þann hluta. En í fyrsta lagi tel ég, að ríkissjóður hafi ekkert fé til þess að standa undir þessu og ef hann ætti að gera það, yrði ríkissjóður að innheimta hjá gjaldendunum eða skattborgurunum fé til þess að geta greitt þetta. Það er auðvitað skammgóður vermir, eins og þessi hv. þm. lagði til, að taka þetta bara að láni, því að auðvitað þarf ríkissjóður að borga þessa peninga og þótt hann taki þá ekki í ár af gjaldendum, verður hann að gera það síðar.

Það má reyndar líka minna á í þessu sambandi, að það er núv. ríkisstj., sem hefur veitt sveitarfélögunum hlutdeild í söluskattinum, sem varð auðvitað til allmikilla bóta fyrir fjárhag sveitarfélaganna og hefur áreiðanlega létt mjög undir með þeim.

Þá skal ég líka geta þess, sem ég reyndar hefði átt að geta í fyrri ræðu minni, að í þessu frv. felst einnig sú breyting, að það skal hækka fasteignamat gagnvart eignarútsvari, þannig að það þrefaldist og þetta gefur sveitarfélögunum auðvitað nokkrar auknar tekjur, þó að þær jafni hvergi það bil, sem verður við þessa breytingu, sem er á persónufrádrættinum, og breytingu á útsvarsstiganum sjálfum.

Að því er snertir ræðu hv. 9. þm. Reykv. (BergS) vil ég aðeins leiðrétta það, að ég hef ekki hér í sambandi við þetta mál verið að prédika neinar stórfelldar skattalækkanir. Ég hef litið þannig á, að það væri fyrst og fremst á valdi sveitarfélaganna, eftir þeirra ákvörðunum, hver útsvarsbyrðin verður í heild. Það má deila um það við ríkisstj., hvort tekjuskattur hafi lækkað eða ekki og það má deila um það, hve mikið hann hafi lækkað, en það mál er hér ekki á dagskrá og ég skal ekki fara neitt út í það. En um útsvörin tel ég, að það geti ekki verið við Alþ. að sakast eða ríkisstj., vegna þess að það eru sveitarfélögin, sem ráða þeim sjálf. Ég veit ekki til þess, að það séu uppi raddir um það á Alþ. að skerða sjálfsforræði sveitarfélaganna í þessum efnum til þess að leggja á útsvör. Það hefur að vísu verið skert á þá lund, að það er settur ákveðinn útsvarsstigi og ákveðinn persónufrádráttur, sem verður að hlíta. En að öðru leyti hafa þau ákaflega frjálsar hendur, þó ekki ótakmarkað, um það að hækka eða lækka þessa útsvarsstiga eftir vild og eftir þörfum, þannig að það fer fyrst og fremst eftir ástandinu í hverju sveitarfélagi, hvað það á hverjum tíma telur sig þurfa að ná miklu inn í útsvör, hvort hægt er að segja, að útsvörin þar hafi hækkað eða lækkað frá árinu á undan eða ekki. Ég vil alveg frábiðja það, að ég hafi sagt nokkuð í þá átt hér í þessum umræðum, að með þessu væri verið að boða stórfellda útsvarslækkun og þá á ég fyrst og fremst við útsvarsbyrðarnar í heild. En hitt get ég endurtekið, að varðandi fólk með lágar tekjur verður þetta veruleg lækkun á útsvari.

Hv. 9. þm. Reykv. kom dálítið inn á skattsvikin. Ég skal ekki gera þau mikið að umtalsefni, en mér fannst hann tala um skattsvikin eins og það væri einhver hlutur, sem væri nýtilkominn í tíð núv. ríkisstj. Eins og allir vita, hefur undandráttur undan skatti átt sér stað hér um marga áratugi og hefur þá ekki skipt miklu máli, hvaða ríkisstj. hefur setið. En ég vil árétta það í þessu sambandi, að það er einmitt núv. ríkisstj., sem stóð að breytingum á tekjuskattsl. í fyrra um þetta efni og enn fremur er nú verið að gera verulegt átak í þeim efnum, sem ég óska vissulega eftir að muni bera góðan árangur.