11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að ræða efnislega þær breytingar, sem nú er verið að gera á tekjustofnalögunum, heldur benda n., sem um þetta mál fjallar, á, að hún taki til athugunar fyrir 3. umr. málsins nokkur atriði.

Í fyrsta lagi vildi ég benda á, að samræma þurfi þá fresti og tímatakmörk, sem sett eru annars vegar í frv. um breytingar á tekjuskatti og eignarskatti og með hliðsjón af núgildandi lögum og hins vegar í l. um tekjustofna sveitarfélaga. Þessi lög þurfa að hafa innbyrðis samræmi, og n. þarf að taka þessi lög bæði tvö og bera saman þau tímatakmörk, sem í þeim eru sett. Í fyrsta lagi er reiknað með því í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, að skattskrá skuli lögð fram eigi síðar en 1. júní, og fyrir lok maímánaðar er skattstjóra skylt að hafa lokið ákvörðun tekna og eigna og samið þessa skattskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga segir hins vegar í 43. gr., að störfum þeim, sem um ræðir í 42. gr., þ.e. störfum framtalsnefndar, skuli vera lokið fyrir lok aprílmánaðar og það sem meira er, að sveitarstjórn eða framtalsnefnd geri skrá um álagningu sveitarsjóðsgjalda; sem fara skulu fram samkv. skattskrá, sem lögð á að hafa verið fram eigi síðar en 1. júní. Skrá sveitarstjórnar eða framtalsnefndar um álagninguna, gjöld til sveitarsjóðsins, skal hafa verið lögð fram fyrir 20. júní. Þetta er að sjálfsögðu frestur, sem þarna væri gefinn frá 1. júní, frá því að skattskráin er lögð fram, en hún skal liggja frammi í tvær vikur frá 1. júní, þ.e.a.s. til 14. júní. Að ætlast svo til þess, að sveitarstjórn skuli hafa lagt fram skrá um álagningu sveitargjalda fyrir 20. júní, það er náttúrlega ekki réttmætt að hafa slíka kröfu uppi, þegar vitað er, að henni verður ekki framfylgt. Þessir frestir hafa ekki verið teknir bókstaflega til greina í framkvæmdinni, og það er ástæðulaust að vera að hafa í lögum slíka fresti, sem ekki er hægt að ætlast til að sé framfylgt. N. þyrfti að taka til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki mætti breyta þessum frestum á þá leið, að til þess sé hægt að ætlast, að eftir þeim verði farið. Það er að sjálfsögðu mjög aukið hagræði að því fyrir rn. og alla aðila, sem fylgjast vilja með álagningu og framlagningu útsvarsskrár, að einhverjir frestir séu alveg afmarkaðir og það skýrt, að eftir þeim sé hægt að fara.

Í öðru lagi vildi ég benda á, að í frv. með þeim breyt., sem nú hafa verið gerðar, virðist vanta alveg ákvæði til bráðabirgða um það, hvaða fresti skuli hafa uppi í ár. Nú er kominn miður maímánuður, og það segir sig sjálft, að þá er ekki á þessu ári hægt að framfylgja þeim frestum, sem eru í þessu frv. og þá vantar a.m.k. bráðabirgðaákvæði, sem gilda skal um yfirstandandi ár.

Enn fremur, fyrst ég fór að taka til máls, vil ég vekja athygli á efnu ákvæði í 13. gr. tekjustofnal., þar sem segir svo, að ef sveitarstjórn hefur ákveðið að nota heimild um innheimtu aðstöðugjalds, sem þær gera flestallar, skal hún tilkynna skattstjóra þá ákvörðun sína og láta honum samtímis í té upplýsingar um, hversu hátt þetta gjald skuli vera, sbr. 10. gr. Síðan segir: „Tilkynning skattstjórans skal send eigi síðar en 15. febrúar ár hvert.“ Álagning aðstöðugjalds er orðin alveg föst. Hún er í öllum kaupstöðum og allflestum sveitarfélögum notuð, enda ráð fyrir því gert í l., að þau séu yfirleitt notuð hjá öllum sveitarfélögum og það virðist ástæðulaust að gera sveitarstjórnum þá skyldu að senda skattstjóra tilkynningu um það, að hún hyggist leggja á aðstöðugjald á hverju einasta ári. Þetta var kannske talið ekki óeðlilegt, þegar l. voru sett. En þegar séð er, að aðstöðugjöld eru hvarvetna notuð, er alveg ástæðulaust að vera að auka svo á skriffinnskuna, skulum við segja, að slíkar tilkynningar, sem eru alveg óþarfar, skuli þurfa að sendast árlega.

Að lokum vildi ég aðeins, fyrst ég er kominn hingað, láta þau orð falla, að hækkun persónufrádráttar við álagningu sveitarútgjalda eru að sjálfsögðu takmörk sett. Í því sambandi verður að hafa í huga ákvæði l. um takmörkun á heimild sveitarfélaga um hækkun útsvara frá þeim stiga, sem ákveðinn er hér á hinu háa Alþ. Í l. er gert ráð fyrir því, að hækkunin megi ekki fara fram úr 20% og ég vil vekja athygli á því, að nú þegar er séð, með þeim stiga, sem hér er verið að ákveða, að nokkur sveitarfélög munu verða á mörkum þess að þurfa að fara fram úr þessu 20% hámarki til þess að ná þeim tekjum til sveitarsjóðsins, sem ráð er fyrir gert í fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna, sem þegar hafa verið samdar og áttu að hafa verið afgreiddar fyrir áramótin. Hérna er fyrst og fremst um að ræða nokkra kaupstaði á Norðurlandi. Ég tel ekki nauðsynlegt að nefna nema þá, sem alveg bersýnilega lenda í þessum vandkvæðum. Þar er náttúrlega Siglufjörður efstur á blaði, en svipuð tilvik gætu komið upp bæði á Húsavík og Ólafsfirði eða svo mætti ætla, með því að þessir kaupstaðir hækkuðu báðir sína útsvarsstiga, þeir hækkuðu báðir álagningu sína á s.l. ári um 5%, þannig að það má ætla, að þeir verði við mörk þess að þurfa að fara yfir það hámark, sem l. skammta þeim.

Ég vek athygli á því, að það hlýtur að skoðast, a.m.k. meðan það er ekki orðið algengt, að sveitarfélög fái framlag úr jöfnunarsjóði, sem viss skerðing á fjárhagslegu sjálfsforræði sveitarfélaganna, að þau þurfa að undirgangast þá málsmeðferð, sem ráð er fyrir gert, þegar þau leita til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um framlög. A.m.k. lögin fjalla nákvæmlega um það, hvernig með skuli fara. Ég skal ekki fullyrða, að sú meðferð muni öll höfð í framkvæmdinni. En það er ástæðulaust eða ástæðulítið af Alþ. að setja þær reglur, sem mundu verða þannig skoðaðar í hinum ýmsu sveitarfélögum, að það sé skerðing á þeirra sjálfsforræði, svo sem mundi sýnast leiða af þeim till., sem hv. 1. þm. Norðurl. e. var nýlega að lýsa. Ég vildi benda á þetta, áður en til atkvgr. kæmi um þá till., enda þótt þau rök, sem þar voru fram borin fyrir réttmæti þess, að viss sveitarfélög fengju aðstoð frá jöfnunarsjóði undir vissum kringumstæðum, þar sem erfiðleikar steðja að af náttúruvöldum, sem eru sveitarstjórnum alveg óviðráðanlegir, séu réttmæt og ekkert við það að athuga. Á þetta vildi ég benda að lokum og teldi varhugavert, að frá Alþ. kæmu slíkar reglur, að sveitarfélögin teldu það skerðingu á sínu fjárhagslega sjálfsforræði að fara eftir þeim.