15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

6. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að það er síður en svo, að ég mundi á nokkurn veg telja mér það til ávirðingar eða skammar, þó að ég hefði samið um það utan þings við forustumenn Alþb. eða Sósfl. á s.l. vori að beita mér fyrir þessari lagasetningu, ef ég hefði talið, að hún mundi greiða fyrir því samkomulagi í efnahagsmálum, sem þá komst á. Ég mundi þvert á móti telja mér það til lofs að hafa átt þátt í að leysa það mál með ekki meiri fórnum en þessari, ef eitthvert samhengi væri þarna á milli með þeim hætti, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. virðist álíta. Það má vel vera, að ég hafi verið opnari fyrir þeirri sanngirni, sem felst í þessu frv., vegna þess að ýmsir forustumenn Alþb. sýndu mikla sanngirni í þeim samningum. Mér dettur ekki í hug að bera á móti þessu. Hitt vil ég taka alveg skýrt fram, eingöngu vegna þess að það er sannleikanum samkvæmt, að um þetta voru engir samningar gerðir, og mér þykir það furðulegt, að jafnsanngjarn maður og hv. 3. þm. Norðurl. v. skuli ekki vilja hafa það, sem sannara reynist. Ég skýrði frá þessu hér eingöngu vegna þess, að ég hafði lesið um þetta í blöðum og vildi láta hið rétta koma fram, ekki vegna þess, að ég teldi þetta út af fyrir sig svo ákaflega miklu máli skipta, heldur af því að hér er um staðreynd að ræða, sem engum er kunnari en mér. Ef þessir samningar hefðu verið gerðir, þá hlyti ég að hafa gert samningana. Og ég er sá eini maður af öllum í veröldinni, sem getur fullyrt, að samningarnir hafa ekki verið gerðir, af því að ég hlyti að vera annar aðili þeirrar samningsgerðar. Hún hefur ekki átt sér stað.

Svo geta menn rætt um það, hvort þetta frv. sé eðlilegt eða ekki, hvort ég hafi farið í gegnum sjálfan mig, með því að ég hafi stundum verið á móti kommum og vilji nú hafa þá í þessum nefndum. Það er allt annað mál. Ég er alveg óhræddur, hvenær sem tími er til, —meir en óhræddur, ég er mjög fús til þess að ræða afstöðu til kommúnista við hv. þm., bæði hér í d. og hvar sem er annars staðar. Það breytir ekki neinu, þó að hv. þm. segi, að sér sé heldur vel við kommúnista eða a.m.k. hafi ekki á þeim eins illan bifur og ég. Honum er þó lítt um að hafa þá í n., þar sem hann segir, að ég vilji hafa þá, þó að mér sé illa við þá.

Út af fyrir sig lærum við það smám saman, að í þingstörfum yfirleitt tjáir ekki að ætla að kveða skoðanir niður með þeim hætti að halda mönnum frá því að hafa þingleg afskipti af málum. Það er svo enn annað, að í sumum málum er svo mikið djúp á milli flokka, að það tjáir lítt samtal eða samstarf, og þannig er á milli sjálfstæðismanna og kommúnista í utanríkismálum, — ég fer ekkert dult með það, — og má segja, að það sé milli ríkisstj. og þeirra í utanríkismálum. Hitt vitum við, eins og fram hefur komið og þingstörf glögglega sýndu í fyrra, að það var ekki heppilegt að hafa þennan flokk utan við n. Reynslan varð önnur. Nú sé ég, að af einhverjum ástæðum er þetta mikið tilfinningamál fyrir mínum ágæta vini, hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég sannast sagt skil ekki, allra sízt af því að hann má vita það eftir yfirlýsingu mína, að hann hefur rangt fyrir sér í þessari getgátu. Um það er ekkert annað að segja en oft fer sá villt, er geta skal.

En hann segir: Hvernig má koma því heim, að ekki hafi verið samið um þetta utan þings og strax á fyrsta degi þingsins skuli hafa verið leitað samkomulags um að fá afbrigði frá þingsköpum, sem miðuðu við það, að þetta frv. yrði samþ.? Það lá fyrir á fyrsta degi þingsins, að þetta frv. yrði flutt. Það var þá búið að leggja það fram í ríkisráði. Ég man ekki, hvort því var útbýtt á 1. eða 2. degi þingsins, ég þori ekki um það að fullyrða. En ég man, að ég talaði um það við formann þingflokks Alþb., hv. 5. þm. Austf., að þetta mál kæmi fram, og talaði um það við hann, eftir að þing kom saman. Hann var þá með þá till., að eðlilegt væri, að strax yrði kosið í n. samkv. þessu frv. Mér sýndist það eðlilegt, en ég lagði á það áherzlu, að hann leitaði um það samkomulags á milli þingflokka. Ég sagði honum, að ég mundi ekki fara og óska eftir slíku samkomulagi, enda eðlilegt, að hann gerði það, benti hins vegar á, að ef ekki fengist um það samkomulag milli flokka, þá væri hægt að hindra, að slík kosning færi fram, Framsfl. hefði það í valdi sínu. Og ég hygg, að það fyrsta samkomulag, sem komst á um málið, hafi verið það samkomulag, sem gert var um þessa undanþágu frá þingsköpum, að því undanteknu að stjórnarflokkarnir voru búnir að koma sér saman um málið innan ríkisstj. Ég hafði ekkert farið dult með það, að ég ætlaði að bera þetta frv. fram, og það má vel vera, að einhverjir menn í Alþb. og eins einhverjir menn í Framsfl. hafi verið búnir að heyra það áður en þing kom saman, að ég ætlaði að flytja frv. Ég fór ekkert dult með þetta og hafði látið það uppi við menn, að ég teldi þetta vera eðlilega lausn.

Sannast að segja ræddi ég um það nokkuð á síðasta Alþingi, hvort eðlilegt væri að bera fram þessa breyt. Það varð þá ekki úr, að það væri gert. En málið hafði sem sagt verið til athugunar áður en nú. Ég hef ekki litið á þetta sem neitt stórmál í eðli og ekki heldur það þó að því sé haldið fram að um málið hefði verið samið utan þings á milli flokka. Það er samið um fjölda mála utan þings á milli flokka, og eins og ég segi er síður en svo nokkur óvirðing í því. Þetta var hins vegar ekki gert um þetta mál. Úr því að það hefur þótt taka því að segja það ranga hér í þingsalnum, taldi ég rétt, að hið rétta kæmi einnig fram. Svo ræður hver því alveg meinfangalaust af mér, hvort hann vill hafa það, sem sannara er eða rangara. Ég skal ekki eltast við það frekar. Hver má hafa sér það til gamans, ef hann vill, eftir að búið er að leiðrétta hann, að halda fram röngu máli. Þá er það ekki mín sök, heldur hans.

Um það, hvort heppilegt sé að hafa 7 manna n. í Ed., þá er það töluvert áhorfsmál, og við ræddum um það nokkuð í Sjálfstfl., að það þyrfti alls ekki að leiða af þessari breytingu, að það yrðu almennt 7 manna n. í Ed. Hitt held ég, að Alþb.-menn hafi sérstaklega óskað eftir því, að svo yrði, og við þá ekki séð neina ástæðu til að amast við því, og voru þó ekki allir mjög hrifnir af því. En ég vek athygli á því, að lögin segja ekki fyrir um þetta eða lagafrumv., þar er einungis sagt, að í nefndum megi ekki vera fleiri en 7, og deildin hefur það í hendi sér að hafa 3 eða 5 menn, ef hún vili svo ákveða. Það eitt er ákveðið, að fjöldi nm. á að standa á stöku.

Varðandi það, sem hv. 12. þm. Reykv. hafði eftir mér varðandi kosningu í þfkn. um okkar samtal, þá var það í einu og öllu rétt, og ég hef ekki neitt við hans frásögn að athuga, enda hygg ég, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hljóti að viðurkenna, að hann hafi eitthvað misskilið það, sem þar gerðist. Það getur ekki átt sér annað stað, vegna þess að hv. 12. þm. Reykv. hermdi svo nákvæmlega það, sem ég hafði sagt við hann, og það, sem okkur fór á milli, að mér þykir ólíklegt, að hann hafi sagt allt annað í hv. allshn.