26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

185. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Menntmrh. (Gylfi D. Gíslason):

Herra forseti. Olía sú, sem nú er flutt til landsins, er flutt inn um tvær innflutningshafnir, Reykjavík og Hafnarfjörð. Á undanförnum árum hafa flutningar á olíu frá þessum höfnum út á land hins vegar farið mjög vaxandi, sérstaklega hafa flutningar til Austfjarða aukizt mjög verulega undanfarin ár í sambandi við auknar síldveiðar og síldarvinnslu í þeim landshluta. Á Austurlandi eða Norðurlandi, þar sem einnig er mikið um olíunotkun, er hins vegar engin innflutningshöfn og virðist því vera tímabært að stuðla að því, að komið verði á fót innflutningsgeymi eða geymum fyrir olíu á Austfjörðum og e.t.v. á Norðurlandi, til þess að lækka dreifingarkostnað olíunnar. Í gildandi l. um verðjöfnun á olíu og benzíni er hins vegar ekki lagaheimild til þess að greiða nokkuð úr verðjöfnunarsjóði til rekstrar slíkra innflutningsstöðva, þar sem lögin voru miðuð við það ástand, sem var, þegar þau voru sett og er enn, að öll olían er eingöngu flutt inn um hafnirnar í Reykjavík og Hafnarfirði. Þess vegna er í þessu frv. lagt til, að heimilt verði að ákveða tímabundna greiðslu úr verðjöfnunarsjóði til rekstrar innflutningsstöðva, sem reistar kunna að verða utan Faxaflóasvæðisins, ef það má ætla, að flutningur olíu og benzíns á viðkomandi svæði verði ódýrari með því móti. En þó segir í frv., að þessi greiðsla að viðbættum flutningskostnaði til annarra útsölustaða megi aldrei fara fram úr þeim kostnaði, sem mundi verða greiddur vegna flutnings frá innflutningsstöðum við Faxaflóa, þ.e.a.s. að olía flutt inn um þennan nýja innflutningsstað, olían úr þeim geymi má aldrei verða dýrari, en hún mundi verða flutt til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar og flutt áfram til notendastaðar eða til notendasvæðis. Þess vegna er tilætlunin með því að afla þessarar viðbótarheimildar sú að gera það kleift, að olíudreifingin verði smám saman ódýrari í kjölfar stórvaxandi olíunotkunar á Austurlandi og Norðurlandi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.