11.05.1965
Neðri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

185. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þessu var vísað til fjhn. fyrir um það bil einum sólarhring og það var haldinn fundur um það kl. 1.30 í dag, hálftíma áður, en þingfundur hófst í d. Þetta mál er þannig vaxið, að maður þyrfti að hafa haft tíma til að athuga það, en hann hefur enginn gefizt, því að hér hafa mörg stórmál legið fyrir.

Hér er lagt til, að farið verði inn á nýjar brautir í þessu verðjöfnunarmáli á olíu og benzíni. Það er lagt til að fara að borga úr verðjöfnunarsjóði að nokkru leyti stofnkostnað olíugeyma hjá olíufélögunum. Þetta getur risið upp hingað og þangað um landið. En það er um málið að segja, að við fulltrúar Framsfl. höfum ekki á þessum skamma tíma getað fengið okkur ýmsar upplýsingar, sem við hefðum þurft að fá til þess að geta tekið afstöðu til málsins og látum það því afskiptalaust. Satt að segja teljum við það óhæfu að afgreiða slíkt mál svo undirbúningslaust.