15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

6. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er búið að upplýsa, hvernig í þessu máli liggur, og þess vegna út af fyrir sig ástæðulaust um það að vera að þræta. Um þetta mál voru engir samningar gerðir utan þings, og allar getgátur í þá átt eru tilhæfulausar. Þetta er óhaggað og óhagganlegt. Um hitt var aldrei höfð nein launung, að menn gátu látið sér detta í hug að breyta ákvæðum þingskapa um þessi efni, og bollaleggingar voru uppi um það strax á síðasta þingi.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) segir nú, að einhvers staðar komi Alþb.-menn við sögu, úr því að það lá fyrir, að þeir óskuðu eftir, að það yrðu 7 menn kosnir í nefndir í þessari hv. deild. En er það ekki það, sem upplýst er og vitað, að þessi hv. deild veitti undanþágu frá þingsköpum til þess að kjósa 7 manna nefndir. Eftir hverra ósk var sú undanþága veitt, og hverjir voru aðilar að því samkomulagi? Það samkomulag var ekki hægt að gera, nema m.a. hv. Framsfl. væri þátttakandi í því. Og hann hefur því, alveg eins og við sjálfstæðismenn, fallizt á að hafa 7 menn í nefndum

Hv. þm. talar svo um það, hverjir eigi siðferðilegan rétt á því að eiga menn í nefndum. Um það má auðvitað alltaf deila, og er t.d. fróðlegt fyrir hv. þm. að reikna út, hvernig í nefndir á þingi ætti að vera skipað, ef þingflokkar hefðu þingmannafjölda í samræmi við fylgi á meðal kjósenda. Ég veit ekki, hvort það yrði hv. þm. til allt of mikillar ánægju að fara að rekja þá sögu til botns.

Þá var hv. þm. með dylgjur um það, sem hann vitnaði í hv. 9. þm. Reykv. (AG) og ég hef raunar áður heyrt, að ég hafi verið sérstaklega andvígur því, að samið væri við og samráð haft við ýmsa aðila utan Alþ. Ég skora á hv. þm. að koma með þær tilvitnanir, sem hann hér á við, í mín orð, til þess að við getum kannað, hvað ég hef sagt og hvað í þeim orðum felst. Ég ítreka það, sem ég hef sagt áður hér í þinginu, að út af fyrir sig skammast ég mín ekkert fyrir, þótt ég hafi einhvern tíma skipt um skoðun eða litið öðruvísi á mál áður fyrr heldur en nú. Þannig er um okkur alla, og orðhengilsháttur í þeim efnum er ákaflega þýðingarlítill. En varðandi þessi efni hef ég ekki skipt um skoðun í meginatriðum. Ég hef alltaf haldið því fram, að Alþingi og ríkisstj. verða að beita því valdi, sem þeim er trúað fyrir og þjóðin hefur ætlað þeim. En það er fásinna af þeim að ætla að beita því valdi án tillits til annarra löglegra afla í þjóðfélaginu. Og ég hef árum saman varað við, haldið um það margar ræður og skrifað um það margar greinar, hver hætta væri því samfara, ef í þessum efnum gæti ekki átt sér stað nauðsynleg og æskileg samvinna. En sú samvinna má auðvitað aldrei verða með þeim hætti, að ríkisstj. og Alþingi reyni að hlaupa frá þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir. Þetta var deiluefni mitt á hæstv. vinstri stjórn á sinum tíma, og sannaðist þá, ég vil segja, því miður, allt of vel, að ég hafi í einu og öllu haft rétt fyrir mér í gagnrýni minni á hana varðandi þessi efni frá upphafi. En þó að ég sé mjög fús til þess að ræða þessi efni hvenær sem er hér á Alþingi og annars staðar, þá má segja, að það sé nokkuð langt frá því umræðuefni komið, sem hér lá fyrir. Eins og ég segi, ég mundi sízt telja mér til ávirðingar, þótt ég hefði samið um þetta mál, ef ég hefði samið um það. En fyrir þá, sem vilja vita hið rétta og hvernig hlutirnir gerast, hugði ég, að það væri kannske fróðlegt að vita, að um þetta var ekki samið. Ef hv. þm. vill endilega hafa rangt fyrir sér, þá sýnir það, að hann hefur spillzt af sínum rekkjunautum eins og fleiri í Framsfl. Að upplagi er hann ekki svo spilltur, að hann vilji endilega hafa rangt fyrir sér.