13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Breytingar þær, sem felast í þessu frv., sem hér liggur fyrir, ganga of skammt að mínum dómi í lagfæringum á því ófremdarástandi, sem hér hefur skapazt í skattamálum á undanförnum árum og alveg sérstaklega kom í ljós á s.l. ári, Þær breytingar, sem í þessu frv. felast og horfa til lækkunar á tekjuskattinum, eru ekki fullnægjandi. Það hefði þurft að lækka tekjuskattinn meir, en hér er gert ráð fyrir. Og ég held, að þessar breytingar, sem hér er um að ræða, gangi skemmra, en menn höfðu ástæðu til að reikna með, miðað við það, sem á undan var gengið og miðað við það, sem látið var í veðri vaka s.l. sumar. En þegar metnar eru þær breytingar, sem í þessu frv. felast og mál þessi athuguð, verður ekki komizt hjá því að líta aðeins um öxl og athuga, hvað gerzt hefur áður í þessum málum og einkanlega verður ekki hjá því komizt að staldra við það, sem gerðist í skattamálunum á s.l. ári. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma að rifja þá sögu hér upp, en skal aðeins nefna örfá atriði.

Það var þannig, að fram til 1960 gilti svokölluð umreikningsregla á tekjuframtölum og skattstigum, en hún var numin úr gildi 1960, þegar þó annars um leið voru gerðar nokkrar breytingar á skattal., sem horfðu til lagfæringar og lækkunar á sköttum að öðru leyti. Afleiðing þeirrar breytingar varð sú, að skattabyrðin hefur þyngzt ár frá ári vegna vaxandi dýrtíðar og var svo komið á s.l. ári, árinu 1964, að sýnilegt var, að við svo búið mátti ekki standa og að skattalagareglurnar gátu ekki haldizt óbreyttar frá því, sem verið hafði, vegna þess að á árinu 1963 hafði orðið veruleg tekjuaukning í krónutölu hjá mörgum skattþegnum og það var auðsætt að, að óbreyttum skattalögum mundu þær álögur, sem á þá legðust, verða þeim alveg óbærilegar. Þess vegna var á s.l. ári lagt fram frv. af hálfu ríkisstj. um nokkrar lagfæringar á skattal., þar sem m.a. var gert ráð fyrir því, að persónufrádráttur væri nokkuð hækkaður, en þó langt frá eðlilega og einkanlega þar sem jafnframt voru þá gerðar nokkrar breytingar á skattstiganum, sem stefndu til hækkunar.

Þegar þessi mál voru til meðferðar á Alþingi þá, bentu þm. Framsfl. á, að lagfæring persónufrádráttarins væri ekki fullnægjandi. Þeir báru þá fram brtt. til hækkunar á persónufrádrættinum og lögðu til, að tekin yrði upp hin fyrri umreikningsregla og lögðu til, að skattstigarnir væru lækkaðir í það horf,. sem þeir höfðu verið í áður og þeir bentu þá rækilega á, að samþykkt á þessu frv. ríkisstj. í óbreyttu formi mundi leiða til þess, að tekjuskattur og útsvar hækkuðu meira, en hóflegt væri og yrðu lítt bærileg almenningi. Það er kunnara, en frá þurfi að segja og öllum í fersku minni, að þessum aðvörunum var í engu sinnt, till. framsóknarmanna voru ekki teknar til greina.

Það var mikið látið af þeim lækkunum á sköttum, sem fælust í þessu frv., það var mikið gumað, er óhætt að segja, af þeim skattabreytingum, sem þá voru gerðar og einkanlega voru málgögn stjórnarflokkanna óspör á fögur orð og fyrirheit í því sambandi. En þegar svo skatta- og útsvarsskráin hér í Reykjavík kom út s.l. sumar og skattskrár annars staðar tóku að birtast, brá mönnum heldur í brún, og þá hjaðnaði skjótt skrum stjórnarblaðanna, sem þau höfðu áður haft uppi um þær skattalækkanir; sem þau töldu, að gerðar hefðu verið, því að það kom sem sé á daginn, að það reyndist allt rétt, sem framsóknarmenn höfðu sagt um þessi efni við meðferð málsins á Alþ. og það þarf ekki að rekja það, hversu menn stóðu þá andspænis gífurlegum skattabyrðum og hvernig fjöldi heimilisfeðra sá fram á það, að þeir höfðu svo sem ekkert eftir til framfærslu sér og sinnar fjölskyldu, þegar skattaútgjöld höfðu verið dregin frá. Og fjöldi manna vissi ekki og sá ekki fram á það, hvernig hann ætti að standa í skilum með greiðslu opinberra gjalda. Þetta var auðvitað þeim mun tilfinnanlegra sem áður og samtímis hafði komið til mjög mikil hækkun og aukning hinna óbeinu skatta í mismunandi myndum, en þó vitaskuld einkanlega sölusköttum.

Fólk varð ókvæða víð þessum skattabyrðum, því að það hafði ekki gert sér ljóst almennt, við hverju mátti hér búast. Það hafði lagt of mikinn trúnað á málflutning stjórnarblaðanna, ekki tekið nægilegt tillit til og ekki gefið nægilegan gaum að þeim aðvörunum, sem framsóknarmenn höfðu sett fram um málið á þingi. En þegar menn stóðu andspænis þessu skattafargani, sem þá kom í ljós, virtist svo sem allir væru sammála um, að gera þyrfti á þessu lagfæringar og mætti í því sambandi t.d. benda á margar skeleggar greinar, sem birtust um þær mundir í einu stjórnarblaðanna, Alþýðublaðinu. Framkvæmdastjórn Framsfl. varð einna fyrst til þess að andmæla þessari skattabyrði og benda á, að gera þyrfti ráðstafanir til þess að bæta úr í þessum efnum, samþykkti þegar eftir að skattskrá hafði verið birt ályktun, þar sem því var beint til stjórnarinnar fyrst og fremst að gera lagfæringar á þeirri skattaálagningu, sem þá hafði fram farið, en í annan stað stungið upp á því, að stofnað væri til n., sem skipuð væri fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkunum og hefði það hlutverk að endurskoða skattalöggjöfina með það fyrir augum að reyna að finna það fyrirkomulag í þeim efnum, sem gæti hentað til nokkurrar frambúðar. Í kjölfar framsóknarmanna að þessu leyti sigldu svo aðrir aðilar, bæði Sósfl., sem sendi sín mótmæli og síðar Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem tóku upp viðræður við ríkisstj. og þær viðræður leiddu til þess, að það var skipuð samstarfsnefnd Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandsins og ríkisstj. til þess að athuga þessi mál. Um leið er svo rétt að geta þess, að fram fóru í ríkisútvarpinu s.l. sumar. 17. ágúst að ég ætla, umr. um þessi málefni, þar sem til mála tóku fyrirsvarsmenn stjórnmálaflokkanna, þ. á m. hæstv. fjmrh. og þar af er skemmst að segja, að það var samdóma álít allra þessara manna, sem mál fluttu þá í ríkisútvarpinu, jafnt stjórnarsinna sem stjórnarandstæðinga, að gera þyrfti verulegar lagfæringar í þessum efnum og ef ég man rétt, taldi hæstv. fjmrh. upp nokkrar lagfæringar, sem gera þyrfti og voru þær raunar mjög í þá stefnu, sem framsóknarmenn höfðu gert till. um við meðferð málsins áður á Alþingi.

Á skattálagningu s.l. sumar fékkst samt sem áður ekki lagfæring. Að vísu voru gerðar nokkrar ráðstafanir í þá átt að veita mönnum nokkurn gjaldfrest á greiðslu gjaldanna, ef þeir óskuðu eftir og hefur það vafalaust hjálpað einhverjum til þess að komast þó yfir erfiðasta hjallann í því efni, en var náttúrlega langt frá því að vera fullnægjandi.

Framsóknarmenn fylgdu sínum till. eftir með því að leggja hér fram í þingbyrjun frv., sem gekk mjög í þá stefnu, sem þeir höfðu gert till. um strax í ályktun sinni 7. ágúst, en það frv. hefur ekki fengizt afgreitt og því hefur ekki varið sinnt. En hitt vonuðu menn, að hæstv. ríkisstj. mundi sem allra fyrst, eftir að þetta þing kom saman, leggja fyrir það till. til breytinga á skattal. og til lagfæringa á þeim. Menn hafa nú beðið nokkuð lengi eftir þeim till. frá hæstv. ríkisstj., þar sem þessar tillögur koma ekki fram fyrr en nú, þegar væntanlega fer að styttast í þessu þingi. Og það var nú svo, því miður, að alþm. fengu á þessu þingi að sjá framan í ýmsar aðrar skattabreytingar, áður en kom til þessara till. um lækkun á sköttum, sem þó hafði áður verið gefið fyrirheit um og má þar til nefna t. d. söluskattshækkunina, sem mönnum er í fersku minni, launaskatt, hækkun eignarskatts vegna þreföldunar á fasteignamati, sem nú liggur fyrir og flutt var sem breyting við húsnæðismálalög, og í þessu sambandi má þá einnig nefna, að það hefur komið hér líka fram á þessu þingi, að ríkisstj. hyggst nota þá heimild, sem hún fékk í fjárl., til þess að skera fjárveitingar til verklegra framkvæmda niður um 20% eða allt að 20%. Andspænis þessu urðu menn að standa, áður en þetta frv. kom fram, en nú er það þó loksins komið. Og það er í stuttu máli sagt, eins og ég sagði áðan, alveg ófullnægjandi að mínum dómi til þess að bæta úr því óviðunandi ástandi í þessum málum, sem ríkt hefur. Það felur að vísu í sér nokkra hækkun á persónufrádrætti og lækkar hundraðstölur — og felur líka í sér breikkun á þrepum skattstigans og lækkar hundraðstölur hvers þreps um 10%. Um tvær þessar fyrrnefndu breytingar, sem þannig felast í þessu frv., er það að segja, að þar er í rauninni aðeins um að ræða lagfæringu á álagningarreglunum til samræmis við þá verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað miðað við árið 1964. Hins vegar felst ekkí í þeim nein lagfæring á skattabyrðinni, eins og hún var í fyrra og birtist mönnum þá. Lækkun á hundraðstölu hvers skattþreps er of lítil. Ég held, að það hefði ekki verið ofrausn að lækka hundraðstölu skattþrepanna um t.d. 30%. Þá hefði þurft að fjölga skattþrepunum meir, en gert er og hefði líklega verið hæfilegt að miða hámarkið við 100 þús. kr., þegar tillit er tekið til þeirra gífurlegu breytinga, sem orðið hafa á gildi krónunnar og tekjum manna.

Það er sérstaklega ljóst, að þessar lagfæringar eru með öllu ófullnægjandi, þegar höfð er í huga sú óhóflega aukning óbeinna skatta, sem átt hefur sér stað og nú síðast alveg sérstaklega hækkun söluskattsins, sem ég drap á áðan og einnig núna hækkunin á eignarskattinum, sem ég veit að vísu ekki, hverju nemur. Það er nú sagt í frv. til húsnæðislaga, að sú hækkun eignarskattsins, sem þar er lögboðin, muni vera til þess að mæta útgjöldum, sem þar eru sögð vera 40 millj. Það liggur mér vitanlega ekkert fyrir um það, hvort hækkun eignarskattsins vegna þreföldunar fasteignamatsins muni nema 40 millj. eða einhverri annarri upphæð. Ég býst satt að segja við, að hún muni nema eitthvað lægri upphæð. En samt sem áður er augljóst, að þar er um verulega skattahækkun að ræða og sú skattahækkun er þá samtímis og raunar aðeins fyrr á ferðinni heldur en þessi skattalækkun, sem loksins sér dagsins ljós með þessu frv.

Þessi atriði, sem ég hér hef aðeins lítillega minnzt á, verða að sjálfsögðu athuguð nánar í n. þeirri, sem fær þetta mál til meðferðar og ég skal þess vegna ekki fjölyrða miklu meira um það nú á þessu stigi, vil þó taka fram, að 8. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að framvegis verði tekin upp eins konar umreikningsregla hliðstæð þeirri, sem áður var í l., er til bóta að mínum dómi. En þó er þar hængur á, fyrst sá, að þessi skattaskali, sem þar skal miða við, skal ákveðinn af fjmrh. að fengnum till. þar til greindra aðila, en það er á þessu stigi, þegar ákvæðið er lögtekið, þess vegna harla óvíst, hvernig framkvæmdin verður í þessum málefnum. Þetta er þess vegna gallað að því leyti til. Í annan stað hefði, áður en þessi umreikningsregla er upp tekin, þurft að gera nauðsynlegar lækkanir á skattabyrðinni frá því, sem var 1964, til þess að það yrði sambærilegt við það, sem áður var og hefði orðið, ef umreikningsreglunni hefði alla tíð verið haldið og jafnframt þá auðvitað gerðar þær breytingar, sem gerðar hafa verið og óhjákvæmilegar hafa verið vegna breytinga á verðlagi og krónugildi. En þó að þessir annmarkar séu á 8. gr. frv. að vísu, álít ég hana þó til bóta.

Ég skal ekki, eins og ég sagði, miklu við þetta bæta. Það er öllum ljóst, að skattamálin eru erfið mál, en samt sem áður hygg ég, að margir mundu una sæmilega við það að gjalda til opinberra þarfa það, sem þeim ber með réttu, ef þeir sæju og sannfærðust um, að það væri eitt og hið sama látið yfir alla ganga í þessum efnum. Ég fullyrði, að það skortir mikið á það í réttarvitund almennings, að það sé svo nú og skattskráin síðasta bar því miður þess glögg vitni, að það virtust margir komast þar fram hjá sköttum, sem hefðu ekki átt að gera það og það var óskiljanlegur munur á því, hverja skatta menn áttu að greiða samkv. þeirri skrá, bæði skatta og útsvar. Nú hefur að vísu verið stofnað til skattalögreglu, sem tekin er til starfa. Í þeirri stofnun eru ágætir menn og þess er að vænta, að árangur verði af starfi hennar, en þá skiptir líka miklu, að henni sé fengið gott veganesti og það sé reynt að stuðla að því almenningsálíti, sem gerir henni auðvelt að starfa. Mér finnst satt að segja, að ofurlítið hafi á það skort, m.a. í málgögnum hæstv. ríkisstj. Ég minnist þess t. d., að í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, birtist leiðari 11. febr. s.l., og það var síður en svo, að það væri hvatning til skattalögreglunnar í þeim leiðara. Það mátti miklu frekar segja, að í þeim leiðara væri beinlínis aðvörun til skattalögreglunnar um það að fara ekki ógætilega í þessum efnum. En út í það skal ég ekki fara nánar, en undirstrika aðeins það, að í þessu frv. er ekki að finna nein sérstök ákvæði til viðbótar þeim, sem áður hafa verið í lögum, sem eigi að tryggja það, að framkvæmdin í þessum málum sé réttlát og í því lagi, sem hún þarf að vera. En eins og ég sagði, geri ég síður en svo litið úr þeirri stofnun, sem tekið hefur til starfa, og vona, að starfsemi hennar geti borið árangur.

Í þessu frv. er skýrt frá því, að ríkisstj. hafi átt viðræður við fulltrúa Alþýðusambands Íslands um breytingar þær, sem felast í frv., en rétt þyki, að brtt. fulltrúa ASÍ verði teknar til athugunar við meðferð málsins á Alþingi. Og sams konar frásögn er í grg. frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Ég hef síður en svo nokkuð við það að athuga, að það sé haft samráð við almannasamtök eins og Alþýðusamband Íslands um þessi mál. Ég álít það mjög æskilegt og nauðsynlegt. En hitt verður að segjast, að það er svo dálítið kátbroslegt, að það skuli liggja fyrir þessari hæstv. ríkisstj, eða þeim mönnum, sem hana skipa, að hafa þetta samráð við utanþingsöfl, af því að fáir hafa lýst því með sterkara orðbragði, hversu óviðeigandi og óþinglegt það væri, en einmitt þeir. En þó að ég hafi að sjálfsögðu — og það er í samræmi við stefnu Framsfl. — síður en svo við það að athuga, að það sé haft samráð við stéttarsamtök um svo þýðingarmikil mál sem þessi, skiptir það þó talsverðu máli að mínum dómi, með hverjum hætti mál þessi hafa verið lögð fyrir stjórn Alþýðusambands Íslands. Ef samráð hefur verið haft við þessa viðtalsnefnd, þá er það í fullkomnu lagi. En hafi hins vegar þetta frv. eða þessi frv. verið lögð fyrir þá aðila, áður en þau voru lögð fram hér á Alþ., þá verð ég að lýsa þeirri skoðun minni, sem ég hef áður lýst í sambandi við önnur mál, þegar það hefur komið fyrir, að það hefur verið farið, að því er virðist, með frv. inn á fund stjórnmálafélaga hér í bænum og þau nánast lögð þar fram, áður en þau voru lögð fram á Alþ., að ég tel þá meðferð óþinglega og óheppilega. Og svo vil ég auk þess benda á það, að ég tel eðlilegt, að jafnframt því sem haft hefur verið samráð um þetta mál við Alþýðusamband Íslands og þess fulltrúa, hefði ekkert síður átt að hafa samband um málið við fulltrúa annarra stéttarsamtaka hér í landinu, sem sé samtök opinberra starfsmanna. Bandalag starfsmanna ríkis- og bæja. Ég held, að það standi einmitt svipað á um þau samtök og Alþýðusambandið að því leyti, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur sagt upp gildandi kjarasamningum og óskað á þeim endurskoðunar, og sú endurskoðun stendur yfir. Það er vitað mál og liggur í augum uppi, að það getur haft sína þýðingu um þá samninga, hvernig skattamálum er skipað, og það því fremur sem ég hygg, að skattalögin, eins og þau nú eru og skattálagningin snerti opinbera starfsmenn alveg sérstaklega og fram yfir jafnvel alla aðra þegna í þjóðfélaginu. Þess vegna verð ég að segja, að það hefði verið fyllsta ástæða til þess, úr því að samráð var haft við aðra um þetta mál, áður en það var lagt fram hér á þingi, þá hefði verið fyllsta ástæða til þess að hafa samráð einnig við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um það eða þess fyrirsvarsmenn. Það má vera, að það hafi verið gert, en það kemur ekki fram af þessu frv., og þess er ekki getið í því, eins og aftur á móti þess er getið um fulltrúa Alþýðusambands Íslands. Það kemur fram í því, sem hér er sagt og frá skýrt viðvíkjandi Alþýðusambandinu, að fulltrúar þess hafa ekki fallizt á þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, og ekki talið þær fullnægjandi, og þykir mér það raunar ekki undravert. En væntanlega koma till. frá þeim þá fram við meðferð málsins hér á þingi, eins og gert er ráð fyrir í grg., og er þess að vænta, að þær verði að einhverju leyti til greina teknar, enda má segja, að mér finnst, að í þessari skýrslu, sem stendur hér, sé gefið nokkuð undir fótinn með það.

Þessar breytingar, sem felast í þessu frv., eru vitaskuld til bóta, svo langt sem þær ná, og eru betri en ekki neitt. En það er hætt við því, að mörgum finnist heldur slakar efndir á öllum þeim fyrirheitum um lagfæringar í skattamálum, sem uppi voru höfð s.l. sumar, og eitt er víst, að þær eru alveg ófullnægjandi úrræði í því skattaöngþveiti, sem menn þreifuðu svo rækilega á s.l. sumar. Og ég verð að segja það, að ef þetta frv. verður óbreytt að lögum, hygg ég, að sagan frá því í fyrrasumar endurtaki sig, þ.e.a.s. að margir munu þá í sumar vakna upp við vondan draum, þegar skattskráin kemur út.