04.05.1965
Efri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft mál þetta til meðferðar, en elns og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um málið. Meiri hl. leggur til í nál. sínu á þskj. 577, að frv. verði samþ. óbreytt til 3. umr., en nokkur atriði í sambandi við afgreiðslu þess verða tekin til nánari athugunar milli 2. og 3. umr.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, frá því að fjárlög voru afgreidd, var þá áætlað, að tekju- og eignarskattur mundi nema um 500 millj. kr. að óbreyttum skattstigum, en í fjárl. voru skattar þessir áætlaðir 375 millj. kr. og er sú lækkun skattstiga, sem í frv. þessu felst, í meginatriðum byggð á því, að sú áætlun standist og mun þar þó teflt á tæpt vað. Efni frv. sé ég að öðru leyti ekki ástæðu til að rekja fyrir þdm., enda munu þeir hafa kynnt sér það gaumgæfilega.

En hitt er hins vegar að ýmsu leyti nýtt í sambandi við meðferð þessa máls á þingi, sem fram kemur í grg. frv., að ríkisstj. hefur átt viðræður við fulltrúa Alþýðusambands Íslands um breytingar þær, sem í frv. felast og telur rétt, að brtt. fulltrúa Alþýðusambands Íslands verði teknar til athugunar við meðferð málsins á þingi. Það verður auðvitað alltaf álitamál, hvort og þá að hve miklu leyti taka eigi tillit til hagsmunasamtaka, jafnvel þótt svo fjölmenn séu sem Alþýðusamband Íslands, við ákvörðun opinberra gjalda og um aðra hliðstæða löggjöf. Hygg ég ekki ofsagt, að til skamms tíma hafi það verið ríkjandi skoðun, að kjarabaráttu sína beri launþegum að heyja við atvinnurekendur á grundvelli þeirra reglna, sem vinnulöggjöfin setur um það hverju sinni, en málefnum sem fjármálum ríkisins beri Alþ. að skipa án þess, að stéttasamtökunum sé veitt þar nokkur aðild að. Þetta sjónarmið hefur líka verið réttmætt og eðlilegt á sínum tíma.

En ekki má að mínu áliti loka augum fyrir því, að síðustu áratugina hafa þjóðfélagslegar og efnahagslegar aðstæður breytzt svo, að slíkt gefur tilefni til þess, ef það gerir það ekki óhjákvæmilegt, að áðurnefnd afstaða sé endurskoðuð. Áður fyrr, þegar vinnumarkaðir voru meira aðgreindir, en nú er og önnur stefna ríkjandi í peningamálum, hlaut kjarabarátta verkalýðsins að vera fyrst og fremst kaupgjaldsbarátta eða barátta um það, hvernig skipta bæri arðinum af framleiðslunni milli kaupgjalds og ágóða atvinnurekenda. Atvinnurekendur gátu, miðað við þær aðstæður, yfirleitt ekki velt af sér þeim kauphækkunum, sem þeir sömdu um. Nú er þetta öðruvísi, vegna þess að kaup allra launastétta fylgist nú yfirleitt að. Samkeppni er minni en áður og sveigjanlegri stefna rekin í peningamálum, en yfirleitt var, t.d. fyrir síðustu heimsstyrjöld og því hafa atvinnurekendur nú yfirleitt aðstöðu til þess að velta kauphækkunum, sem þeir semja um, yfir í verðlagið og sækja þær þannig í vasa launþeganna sjálfra. Það er því í rauninni ekki verið að semja um kjörin eða skiptingu arðsins, heldur verðgildi peninganna eða nokkuð, sem ekki er í verkahring stéttasamtakanna, hvort sem í hlut eiga samtök atvinnurekenda eða launþega, að fjalla um. Ef samtök launþega eiga ekki að verða ónýtt tæki til þess að bæta kjör meðlima sinna og hafa áhrif á hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum, verða þau því að fá fótfestu á þeim vettvangi, þar sem málum þessum er raunverulega ráðið til lykta, en sá vettvangur er þeir ýmsu opinberu aðilar og stofnanir, sem ákvarðanir taka um skipan efnahagsmála, þar á meðal fjármála ríkisins, bæði að því er snertir útgjöld hins opinbera og tekjuöflun þess. Í þá átt hefur þróunin gengið í grannlöndum okkar, að því er snertir meðferð kjaramála og slík hlýtur þróunin einnig að verða hér að mínu álíti, þó að við höfum í þessu efni lifað lengur í fortíðinni ,en nágrannar okkar og er það að mínu álíti skýring á þeim lélega árangri, sem orðið hefur af kjarabaráttu launþega síðustu 20 árin eða frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Júnísamkomulagið á s.l. vori var dagsbrún nýs tíma í þessum efnum, þótt engu skuli spáð um það, hvort ekki eigi eftir að koma snurða á þann þráð, sem þá var upp tekinn. Við því er rétt að vera búinn, því að allar nýjungar eiga erfitt uppdráttar í byrjun.

Hitt er svo annað mál, að þó að ég hyggi það sameiginlega skoðun okkar, sem að meirihlutaálitinu stöndum, að stuðla beri að því, að kjarasamningar séu gerðir á breiðari og raunhæfari grundvelli, en til þessa hefur verið, er því mjög þröngur stakkur skorinn, miðað við núverandi aðstæður, hverjum árangri megi ná í þeim efnum með breytingu á tekjuskattinum. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi afgreiðsla fjárlaga, sem ég áðan minntist á, en við hana var samþykkt ágreiningslaust, er mér óhætt að fullyrða, að gera ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti næmu 375 millj. kr. eða ég minnist þess a.m.k. ekki, að neinar till, hafi komið fram við fjárlagaafgreiðsluna um hækkun eða lækkun þeirrar áætlunar, svo að við hana er Alþ. bundið. En í öðru lagi og það atriði er e.t.v. öllu mikilvægara, er sá tekjuskattur, sem nú er í lögum, hátekjuskattur. Það hefur í rauninni ekki breytzt, síðan skattabreytingin var gerð árið 1960, þrátt fyrir það moldviðri, sem upp var þyrlað um skattana á s.l. sumri. Árið 1964, en það ár munu skattgreiðendur hafa orðið flestir síðan skattalagabreytingin var gerð 1960, greiddu 61% af framteljendum engan tekjuskatt, en helmingur þeirra, sem tekjuskatt greiddu, náði ekki upp fyrir tekjubil lægstu skattstiga eða 10%, þannig að hámarkstekjuskattur þeirra nam 3 þús. kr. Til þess að ná þeim skatti þurfti maður með meðalfjölskyldu eða 3 börn og konu á framfæri að, hafa 180- l00 þús. kr. í tekjur, því að allir njóta einhvers löglegs frádráttar vegna nefskatta, skulda, viðhaldskostnaðar íbúða o.s.frv. Geta það varla talizt drápsklyfjar skatta, þótt menn greiði 3.000 kr. í skatt af svo háum tekjum, eða þannig mundi ekki undir neinum kringumstæðum vera litið á í nágrannalöndum okkar. Aðeins 20% skattgreiðenda greiddu þannig á s. 1, ári 3.000 kr. eða meira í tekjuskatt.

Ef stefna á að því að bæta sérstaklega hag láglaunafólks með væntanlegum kjarasamningum og efnahagsráðstöfunum í sambandi við þá, er auðsætt, að lækkun tekjuskatts getur ekki orðið úrræði í því efni, af þeirri einföldu ástæðu, að láglaunafólk greiðir alls engan eða þá mjög lágan tekjuskatt.

Í ljósi þessa, sem ég hef nú sagt, vil ég fara aðeins nokkrum orðum um þær brtt. þeirra hv. þm., sem skilað hafa minnihlutaálitum og afstöðu mína til þeirra að svo stöddu.

Till. hv. framsóknarmanna ganga í meginatriðum út á það að fjölga skattþrepum og mundu, ef samþykktar væru, þýða talsverða lækkun á tekjuskattinum. Nú er það í sjálfu sér engan veginn óskynsamlegt sjónarmið að mínu áliti, að æskilegt sé að fjölga skattþrepunum. En þeirra till, mundu koma í bága við áðurnefnda afgreiðslu fjárl. og tel ég því ekki unnt að samþykkja þær.

Þá vil ég aðeins víkja að till. hv. 4. þm. Norðurl. e. Þær eru að því leyti á raunhæfari grundvelli en till. hv. framsóknarmanna, að þar er gert ráð fyrir tekjuöflun á móti. Það er gert ráð fyrir verulegri hækkun á félagaskattinum, sem mundi samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef um félagaskatt á s.l. ári, gefa milli 30 og 40 millj. kr. í ríkissjóð, og ég vefengi það ekki, þótt ég hafi ekki gert á því neina sérstaka athugun, sem í nál. hv. þm. segir, að þetta mundi geta bætt ríkissjóði upp að fullu eða jafnvel meira, en það tekjutap, sem hann yrði fyrir, ef till. hv. þm. um lækkun á skattstigunum, nema þeim hæsta, yrðu samþykktar. Það má auðvitað um það deila, hverjir skattstigar hlutafélaga eigi að vera, þó að ég geti ekki stillt mig um að taka fram, að mér finnst það hreinar öfgar, þegar hv. þm. talar um, að gróðafélög, eins og hann orðar það og mun þá fyrst og fremst eiga við hlutafélög, megi heita skattfrjáls hér á landi. Ef við berum okkur í þessu sambandi saman við nágrannaþjóðirnar, virðist mér samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um skattstiga þar, að skattstigar á hlutafélögum hér séu yfirleitt mjög svipaðir og þar. Um þetta hef ég þó allan fyrirvara, því að til þess að gera slíkan samanburð á skattálagningu félaga hér og annars staðar á Norðurlöndum þyrfti að athuga ýtarlega, ekki eingöngu skattstigana sjálfa, heldur ákvæði um varasjóðshlunnindi, afskriftarreglur o.fl., en til þess hef ég ekki haft tækifæri. Og í sambandi við þær till., sem hv. þm. gerir um hækkun félagaskattsins, má á það benda, að samkv. þeirri breytingu, sem verður á útsvarsl. samkv. því frv., sem nú liggur fyrir, mundi það þýða verulega þyngingu skattbyrðarinnar á félögunum. Ég fer ekki nánar út í það, enda mun sú hlið málsins verða rædd, þegar útsvörin koma hér fyrir, en ég hygg, að hv. þm. sé þetta fyllilega ljóst.

Þar að auki má ekki loka augunum fyrir því, að ef skattar á félögum væru verulega þyngdir, hvort sem menn telja það af öðrum ástæðum sanngjarnt eða ekki, færi ekki hjá því, að möguleikar félaganna á því að standa sjálf undir atvinnurekstri sínum með eigin fjáröflun mundu verulega rýrna, en það mundi aftur þrengja lánamarkaðinn og skapa meiri erfiðleika á útvegun fjármagns til íbúðarhúsabygginga og annars slíks. Þetta skal ég ekki ræða frekar, enda er það að mínu álíti ekki kjarni málsins, heldur hitt, að sé farið inn á þá braut að leggja fram fé úr ríkissjóði til þess að mæta óskum verkalýðsfélaganna, og í sjálfu sér finnst mér það ekkert óheilbrigt, enda var lagt inn á þá braut, eins og kunnugt er, með júnísamkomulaginu á s.l. ári, þegar ríkisstj. skuldbatt sig til þess að leggja fram ákveðna fjárhæð til aukinna framkvæmda í húsnæðismálum, — og fjár til þess aflað á þann hátt, sem verkalýðsfélögin telja ekki bitna á sér, t.d. með félagaskatti, eins og hv. 4. þm. Norðurl, e. leggur til, eða eignarskatti samkv. húsnæðismálalöggjöfinni, sem nýlega var verið að samþykkja hér í hv. d., þá sýnist önnur ráðstöfun þessa fjár líklegri til þess, að komið sé til, móts við óskir verkalýðsfélaganna, en sú að verja þessum peningum til lækkunar tekjuskatts, því að ef sú leið er farin, má fullyrða, að á móti hverri 1 kr., sem sparast fyrir verkamenn með því og þó aðeins þá, sem bezt eru settir, eru það aðrir aðilar í þjóðfélaginu, sem mundu fá 10 kr. á móti hverri einni, sem verkamennirnir fá, aðilar, sem ekki er hægt að ætlast til af verkalýðsfélögunum, að þau heyi harða baráttu fyrir.

Í þessu efni, eins og öðrum skyldum, verður að horfast í augu við það, að það verður að einangra málið, beina aðgerðunum að þeim verkefnum, sem mest aðkallandi er að leysa, þannig að væri þessi leið farin, sýndist það t. d. hentara að leggja féð til verkamannabústaða, orlofsheimila verkamanna eða einhverra hugðarefna verkalýðsins, sem mundi þýða það, að tryggt væri, að féð kæmi þá óskipt til þeirra. Raunar er að því leyti óþarft fyrir mig að taka þetta fram, að mér finnst það koma fram, bæði beint og óbeint, í nál. hv. 4. þm. Norðurl. e., að hann geri sér þess fulla grein, að frá hagsmunasjónarmiði verkalýðsins er ekki feitt á stykkinu hvað afgreiðslu þessa máls snertir og hvað svo sem gert væri í þessum efnum. En það er full ástæða til þess að gera sér fulla grein fyrir því atriði, sem ég áðan nefndi, að nauðsynlegt er að einangra vandamálin, ef þau á að leysa. Það þýðir ekki að ætla sér að leysa vanda allra í einu vetfangi og gott dæmi um þetta er vinnutíminn, sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu. Hér er ekki um neitt nýtt vandamál að ræða. Vinnutími láglaunafólks hefur lengi verið of langur, ef það á að geta unnið fyrir kaupi, sem að öðru leyti tryggir mannsæmandi kjör. Þetta vandamál hefur verið ofarlega á baugi í 20 ára eða meira, en sú leiðin, sem bent hefur verið á til lausnar þessu vandamáli, er sú að hækka dagkaupið, þannig að styttri tíma þyrfti nú vegna hærra kaups, en áður til þess að vinna fyrir launum, sem viðunandi mætu teljast. Sú leið hefur líka verið farin. Dagkaupið hefur hækkað árlega eða a.m.k. annað hvert ár, en árangur af þessari leið hefur því miður ekki orðið neinn. Vinnutíminn hefur ekki stytzt, heldur jafnvel lengzt. En af hverju? Af því að þessi kauphækkun, sem hefur átt að gera láglaunafólki kleift að stytta vinnutímann, hefur ekki náð eingöngu til þess, heldur allra annarra, svo að afleiðingin hefur orðið sú, að þetta hefur farið út í verðlagið og árangurinn þannig ekki orðið neinn. Ef þetta stóra vandamál á að leysast, verður það aðeins gert með því að taka það raunhæfari tökum en gert hefur verið til þessa. Það þýðir ekki að halda áfram að berja höfðinu við steininn og hjakka áfram í sama fari.

Þó að það komi fram í þessum orðum, sem ég hef sagt um þær brtt., sem fluttar hafa verið af þeim hv. þm., sem eru í minni hl. fjhn., að ég býst ekki við að geta fallizt á þær nema þá að mjög óverulegu eða jafnvel engu leyti, tel ég samt sem áður rétt með tilliti til þess, hvernig n. hefur afgreitt þetta mál, og einnig með tilliti til þess, að það eru þó sumar þær till., sem fyrir liggja, sem ég hefði óskað, að nánar væru athugaðar, að beina því til þeirra hv. þm., sem hér eiga hlut að máli, að taka till, aftur til 3. umr., þannig að þær verði ásamt öðrum athugaðar í n, á milli funda.