08.05.1965
Neðri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Árið 1960 voru gerðar breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt. Þá var felld úr lögum svonefnd umreikningsregla, sem verið hafði í gildi frá 1954. Afleiðingarnar af þessari breytingu urðu þær, að tekjuskatturinn hækkaði sjálfkrafa á næstu árum vegna aukinnar dýrtíðar, þar sem bæði persónufrádráttur og tekjutölur skattstigans breyttust ekki. Árið 1964 voru sett ný skattalög. Þá var persónufrádráttur hækkaður, en um leið voru gerðar breytingar á skattstiganum, sem höfðu í för með sér hækkanir á skattinum. Við meðferð skattafrv. á þinginu í fyrra sýndum við framsóknarmenn fram á, að skattarnir skv. frv. yrðu miklu hærri en var árið 1960 og við bárum fram brtt. um að taka aftur upp umreikning á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans og um að láta skattstigann frá 1960 haldast óbreyttan, til þess að skatturinn yrði raunverulega ekki hærri en hann var árið 1960. Stjórnarflokkarnir felldu þessar brtt. framsóknarmanna á þinginu í fyrra. Hins vegar gumuðu þeir mjög af sinni framgöngu í skattamálunum og töldu sig vera að lækka skattana til mikilla muna. Það fólk, sem lagði einhvern trúnað á skrum stjórnarflokkanna um skattalækkanir vorið 1964, varð fyrir ákaflega miklum vonbrigðum, þegar skattskrárnar komu út síðar á því ári. Óánægjan varð svo mikil og almenn, að stjórnin sá sitt óvænna, skipaði n. til að íhuga málið og gaf þar með fyllilega í skyn, að hún vildi gera einhverjar leiðréttingar í þessum efnum. En niðurstaðan varð sú, sem kunnugt er, að engar lagfæringar voru gerðar á hinum háu opinberu gjöldum 1964 og framkoma stjórnarinnar varð þannig enn til þess að valda mönnum vonbrigðum.

Og nú liggur hér fyrir stjórnarfrv. um breytingu á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Það er athyglisvert, að í frv. kemur fram, að ríkisstj. hefur loks komið auga á það, að við framsóknarmenn höfum haft rétt fyrir okkur, þegar við höfum haldið því fram, að rétt væri að láta umreikningsregluna sem var í lögum fyrir 1960, gilda áfram. í 8. gr. frv. er lagt til, að þessi regla verði aftur upp tekin. Hún er þó að því leyti frábrugðin hinni gömlu aðferð, að áður var miðað við kaupgjaldsvísitölu, en nú á skv. frv. að miða við svonefnda skattvísitölu, sem fjmrh. á að ákveða, en enginn veit, hvernig verður.

Í frv. eru ákvæði um hækkun á persónufrádrætti og tekjutölum skattstiganna, sem nemur u.þ.b. sömu hækkun og varð á vísitölu framfærslukostnaðar frá 1963–1964. Einnig er gerð lítils háttar breyting á skattaprósentunni, en segja má, að tekjuskattur skv. frv. verði raunverulega mjög svipaður í ár eins og hann var í fyrra og verði frv. samþ. óbreytt, verður skatturinn enn langtum hærri, en hann var árið 1960. Því veldur hækkunin á hundraðshlutatölum skattsins, sem ákveðin var í fyrra. Til dæmis um þetta má nefna, að af fyrstu 16 þús. kr. skattskyldum tekjum verður skatturinn raunverulega 80% hærri nú en hann var árið 1960 og af 80 þús. kr. skattskyldum tekjum verður hann 44% hærri en 1960. Það er fyllsta ástæða til að mótmæla slíkum hækkunum á beinum sköttum til ríkis, á sama tíma sem óbeinu skattarnir hafa verið margfaldaðir.

Fulltrúar Framsfl. í fjhn. Ed. báru fram brtt. við frv., sem stefndu að því, að tekjuskattur yrði raunverulega jafnhár nú eins og hann var 1960. Þessar till. voru felldar í þeirri d. Við munum einnig flytja slíkar brtt. við frv. hér í þingdeildinni.