11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það gildir í rauninni sama um þetta mál eins og önnur, sem á dagskrá hafa verið hér í dag, að enginn tími er til þess, að eðlilegar umr. geti nú farið fram um málið, þar sem komið er að þinglokum. Ég mun því stytta mál mitt eins og ég frekast get.

Ég hef áður tekið það fram í umr. um þetta mál, að það er skoðun okkar Alþb.–manna, að það sé brýn þörf á því að taka til rækilegrar endurskoðunar öll gildandi lagaákvæði um innheimtu á beinum sköttum til opinberra aðila. Það er mjög erfitt að taka á þessum málum af nokkru viti, án þess að þessi mál séu lögð fyrir sem heild, þ.e.a.s. innheimta á tekju– og eignarskatti, innheimta á útsvörum og ýmsum öðrum beinum sköttum. En málin liggja ekki þannig fyrir nú, að þess sé kostur.

Ég flyt á þskj. 732 nokkrar brtt. við frv. Aðalatriði þessara tillagna eru þau, að lagt er til, að persónufrádráttur og annar frádráttur, sem leyfður er skv. skattalögunum af almennum tekjum, verði nokkru hærri en gert er ráð fyrir í frv. Í frv. er persónufrádrátturinn hækkaður um 23% frá því, sem hann hefur verið, en ég legg til, að hann verði hækkaður um 30% eða sem svarar þeirri tekjuhækkun, sem úrtök sýna, að orðið hafi á milli síðustu tveggja ára. Þá legg ég til, að veittur verði sérstakur frádráttur verkafólki og fólki, sem vinnur við fiskiðnað og hafnarverkamönnum, svipaður frádráttur og sjómenn hafa nú skv. skattalögunum. Ég hafði rökstutt þessa till. hér áður og veit, að það þarf ekki að fara um hana mörgum orðum. Hv. þm. vita, hvaða rök standa til þess, að eðlilegt er að veita þessu fólki sérstaklega nokkrar skattaívilnanir umfram ýmsa aðra launþega.

Þá legg ég einnig til, að skattur á félögum verði hækkaður frá því, sem nú er ákveðið í lögum. Í fyrsta lagi, að varasjóðstillag félaga verði gert lægra, en það er nú heimilað, að það verði lækkað úr 25% af hreinum tekjum niður í 20% og að síðan verði skattstiginn á félögunum hækkaður úr 20% í 30%. Það er enginn vafi á því, að nú er svo komið, að skattur á félögum er lægri hér á landi, en í flestum nálægum löndum og nú er búið að koma því þannig fyrir, að skattur félaga er orðinn allmiklu lægri, en skattur einstaklinga, þó að um sams konar rekstur sé að ræða hjá báðum aðilum. Ég álít því, að það sé full þörf á því, að um leið og lagt er til að lækka skattinn nokkuð á lágtekjum og almennum launatekjum, þá verði einnig gerðar ráðstafanir til þess að hækka skattinn á félögum.

Þá legg ég til, að ákveðið verði í lögunum, að tekið skuli sérstakt úrtak framtala og á þeim gerð sérstök og allnákvæm athugun til þess að reyna að veita aukið aðhald með, að framtöl séu rétt og til þess að fyrirbyggja skattsvik. Við Alþb.-menn höfum flutt hér till. nokkrum sinnum áður í þessa átt og teljum mjög miður farið, að þessar till. okkar skuli ekki hafa verið samþ.

Þá leggjum við einnig til, að skattstiganum verði nokkuð breytt frá því, sem lagt er til í frv. og hann lækkaður á hinum lægri tekjum frá því, sem lagt er nú til í þessu frv.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem ég flyt að þessu sinni, en tek það jafnframt fram, að mér er alveg ljóst, að það hefði þurft að gera miklum mun meira til þess að koma skattalöggjöfinni í viðunandi horf, en ég tel, að engar aðstæður séu til þess, eins og málið liggur fyrir Alþingi nú.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um málið en orðið er.