12.05.1965
Efri deild: 91. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið aftur til þessarar hv. d. vegna breytingar, sem á því var samþ. í hv. Nd. í sambandi við skattaeftirlitið. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja margt um þá till. Hv. þm. sjá, hvernig hún er orðuð í frv., eins og það liggur fyrir, en efnislega er gert ráð fyrir í till. þeirri, að vissir frestir séu veittir, ef fólk vill af sjálfsdáðum koma skattframtölum sínum í lag og sé þá heimilt innan þeirra fresta að falla frá skattsektum, en að öðru leyti er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að menn borgi þá skatta, sem þeim ber að greiða af því fé, sem kann að hafa verið undan dregið.

Hugsunin með brtt. þessari er að ná raunhæfari árangri með því að herta skatteftirliti, sem nú er gert ráð fyrir og það er skoðun mín, sem hef staðið að flutningi þessarar till., að hún þjóni jákvæðum tilgangi í þá átt að gera eftirlitið í framtíðinni raunhæfara og ætti að mega að vona a.m.k., að það geti leitt til jákvæðari afstöðu borgaranna um leið til eftirlitsins og auðvelda það, að síðar verði hægt að taka harðar og ákveðnar á brotum, sem verða á skattalögunum. En það er að sjálfsögðu sameiginlegt áhugamál okkar allra, að það takist að uppræta á sem raunhæfastan hátt þá miklu meinsemd, sem skattsvik hafa verið í þjóðfélaginu og það er mín skoðun, að með þeirri breytingu, sem gerð hefur verið á frv. og þeirri heimild; sem þar er veitt, þá sé lagður heppilegur grundvöllur að nýskipan þeirra mála.