12.05.1965
Efri deild: 91. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, þó að ástæða hefði verið til þess að taka til athugunar allmargt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. mælti hér í ræðu sinni áðan. Sumt af því kom mér mjög á óvart, miðað við þann glögga skilning, sem hann yfirleitt sýnir á eðli vandamála og þótti mér sem skyti nokkuð skökku við í þeim efnum frá því, sem venjulega er og ekki sízt vegna þess, að mér fannst örla á því, að hann gæfi í skyn aðrar hvatir frá minni hendi bak við þetta mál, heldur en raunverulega eru og er það mjög ólíkt honum að bera slíkt á borð.

Það, að einhver hafi hvíslað í mitt eyra, að þetta skyldi nú gerast, einhverjir góðir menn, sem kunni að skipta miklu máli að hafa vinsamlega sambúð við, að mér skildist, það verður auðvitað hver þm. að álíta það, sem hann vill, um það efni. Ég hirði ekki einu sinni að mótmæla slíkri ásökun. En um það atriði, hver hafi verið upptök þessarar till., þá tel ég alveg nægilegt, að ég flyt till. og ég ber á henni alla ábyrgð og mun alveg fús til þess að taka á mig þær sakir og er ekkert að reyna að bera fyrir mig neina embættismenn í því efni. Hitt er allt annað mál að að sjálfsögðu flyt ég ekki slíka till, án þess að hafa samráð við ríkisskattstjóra. Það liggur í augum uppi.

En það, sem ég vildi hér sagt hafa án þess að fara út almennar umr. um þetta, er aðeins þetta: Við vitum það mætavel öll, að skattsvik eru rótgróin meinsemd í okkar þjóðfélagi, — rótgróin meinsemd, —- og það hafa, eins og hv. þm. sagði, verið lengi í lögum margvísleg viðurlög gegn skattsvikum án þess að skila nokkrum einasta árangri og yfirleitt held ég, að engir menn hafi verið sektaðir fyrir skattsvik og sáralítið uppvíst í því efni, fyrr en nú eftir að ákvæði var sett um sérstaka skattrannsóknardeild, að það örlar á því og ég vil segja mjög verulega, að breytt viðhorf séu í þessu efni. Og einmitt vegna þess álít ég höfuðnauðsyn, að þessi skattrannsóknastarfsemi mæti þeim viðbrögðum frá borgurunum, sem eðlileg eru og fái ekki í byrjun annaðhvort á sig það orð vegna hinna almennu skattsvika, sem eru í landinu, að þar sé um einhverja ofsóknarherferð að ræða gegn borgurunum, sem ekki eiga rétt á sér eða beitt sé í óhófi, eða þá á hinn veginn, að starfshættir hennar verði með þeim hætti, að vegna hinna almennu skattsvika leiðist hún yfir í það að mynda sér svo hógværan refsiramma, sem síðan verði fordæmi hennar síðari aðgerða, að nánast verði þessi refsiákvæði nafnið tómt, eins og þau hafa verið. Þetta vil ég ekki, að verði og þess vegna vil ég, að þessi sérstaka heimild sé veitt, sem hér er gefin. Þetta er orðað sem heimild og að sjálfsögðu ekki neitt fastmótað um það, hvernig hún verði framkvæmd í einstökum atriðum. Það eru í lögum einnig heimildir, það er orðað í heimildarformi um skattsektir allt að tíföldu, sem eru að sjálfsögðu geysilegar refsingar. Ég get lýst því yfir, að mín skoðun er sú, að eftir að þessi tími er liðinn, þá verði þessum refsingum beitt harðar, en ella hefði verið, ef þessar heimildir væru ekki gefnar, sem hér eru. Ég vil, að með þessum heimildum sé skattborgurunum gert það ljóst, að það er ætlunin að taka á þessu með öðrum hætti, en áður var gert og það er hér um breytt viðhorf í þessu efni að ræða, en hins vegar er viðurkennd sú staðreynd, hvort sem hún er mönnum ljúf eða leið, — og auðvitað er hún okkur öllum leið, — að þetta ástand hefur verið í þjóðfélaginu og því hætt við, að menn beri sig illa, ef það á að fara að beita þá þungum refsingum, þó að refsingarnar hafi verið til staðar í lögum og einmitt þótt þær hafi verið til staðar, þá hefur þeim ekki verið beitt. Og það að gefa í skyn, að þetta ákvæði verði til þess í rauninni að þyngja á þeim, sem telja heiðarlega fram og borga eðlilega sína skatta, það er algerlega út í hött. Hér er eingöngu um það að ræða að gefa mönnum kost á af fúsum og frjálsum vilja að koma þessum málefnum sínum í lag og ég tek það fram, að það hefur aldrei verið meiningin, að skattalögreglan héldi ekki áfram sínum störfum af fullum krafti og það er ekki meiningin, að þetta þurfi endilega að bíða þeirra tilfella, þegar næstu framtöl eiga sér stað.

Hitt er annað mál, að ég held, að það sé ekki annað en það, sem er öllum vitað, að enda þótt það sé rétt, að skattaframtöl hafi batnað verulega, þá er enn þá mjög almennur og víðtækur misbrestur á því, að skattaframtöl séu í réttu horfi, þannig að það vantar því miður mikið á það, að fyrir þessa þjóðfélagslegu meinsemd hafi verið grafizt. Það er álítamál, sem ekki er hægt nákvæmlega að forma í lögum, hvernig tekið verður á þeim atriðum, ef hafin er rannsókn og sá aðili gefur upp öll sín mistök og misferli af fúsum og frjálsum vilja. Ég geri ráð fyrir, að varðandi úrskurð þeirra mála, sem þegar liggja fyrir, sem ég skal játa, að ég hef ekki skoðað í einstökum atriðum, en það liggja þegar fyrir allmörg mál, — mér er ekki einu sinni kunnugt á hendur hverjum eru, þannig að það hefur ekki ráðið minni afstöðu til þessa máls, að þá verði það m.a. skoðað, með hverjum hætti menn hafa brugðizt við aðgerðum skattrannsóknardeildarinnar. Ég veit, að sumir af þeim aðilum hafa komið mjög ljúft og fúslega fram og upplýst öll sín mál, aðrir hafa sýnt þvermóðsku og orðið að beita öðrum hætti. Ég tel sjálfsagt, hvað sem líður þessari heimild, að það verði beitt sektum — metið eftir því, hvernig þessi tilvik eru. Hér er aðeins um heimild að ræða.

Ég skal ekki ræða þetta nánar, en ég vildi aðeins láta þetta koma skýrt fram, að hér er siður en svo hugmyndin með þessu ákvæði að draga úr því, að lögum sé framfylgt, heldur er það mín skoðun, — menn geta haft á því mismunandi skoðanir eins og öllu öðru, — að þetta sé jákvæð leið til þess einmitt að leggja grundvöll að því, að nýrri skipan í raunveruleika verði komið á þessi mál og beitt verði þeim refsingum, sem í lögum greinir, en ekki eins og þá áratugi, sem liðnir eru og refsingar hafa verið í lögum, að þau verði að engu höfð. Slík lög þjóna engu og ég held, að við hljótum öll að vilja sameinast um að stuðla að því með öllum jákvæðum aðgerðum, að það þurfi ekki að koma fyrir, eins og verið hefur á undanförnum árum, að menn leyfi sér það að undirrita kalt og rólega vafasöm skattaframtöl að viðlögðum drengskap, sem hefur sitt mikla gildi í okkar réttarfarslöggjöf, eins og mikill fjöldi landsmanna hefur gert til þessa. Það er vissulega tímabært, að þeim málum verði kippt í lag og ég vil innilega vona, að það takist og ég get alveg fullvissað hv. 3. þm. Norðurl. v. út af þeirri skemmtilegu sögu, sem hann sagði hér síðast, um það, að það hafi enginn þurft neitt í mín eyru að hvísla um það. Og það er a.m.k. eitt, sem víst er, að ég mun ekki hlýða neinum hvíslingum um það að fara að taka mildilega á því, að menn svíki skyldur sínar í þessu efni.