08.02.1964
Neðri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir ríkisreikningurinn fyrir árið 1963. Á þessum reikningi eru háar tölur. Hann ber það með sér, að kostnaður við ríkisreksturinn er orðinn ákaflega mikill. Sá kostnaður hefur aukizt gífurlega á valdatíma núverandi hæstv. ríkisstj. Ég vil nefna aðeins örfá dæmi um þá útgjaldahækkun, sem orðið hefur á þessu tímabili.

Á 10. gr. reikningsins er færður kostnaður við stjórnarráðið. Árið 1958 var hann 16.6 millj. kr., en 1963 35.8 millj. Hækkunin er 115%. Á sömu grein er kostnaður við utanríkismál. Hann var 1958 10.6 millj., en 1963 23.2 millj. Hækkunin er 119%. Á 11. gr. reikningsins er færður kostnaður við ríkisskattanefnd og skattstofur. Árið 1958 var kostnaður við ríkisskattanefnd, skattstofur og skattanefndir um 8 millj. kr., en 1963 er kostnaðurinn við ríkisskattanefndir og skattstofurnar orðinn 18.5 millj. Hækkunin á þessum lið nemur 130%. Þegar sú breyting á skattal. var gerð fyrir 2—3 árum að leggja niður skattanefndirnar og stofna nokkrar skattstofur í staðinn, var því haldið fram, að þeirri ráðstöfun mundi fylgja sparnaður. Þetta hefur ekki reynzt þannig, heldur þvert á móti. Og auk þess sem þetta nýja fyrirkomulag hefur reynzt dýrara en hið eldra, þá er það miklu seinvirkara. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, að síðan þessi nýi háttur var upp tekinn, séu skattskrár yfirleitt um landið lagðar síðar fram heldur en áður var, meðan skattanefndir fjölluðu um þessi mál. Ég held, að á næstliðnu ári hafi þær víða ekki komið fyrir augu almennings fyrr en í septembermánuði. Og þessi dráttur hefur í för með sér seinkun á ýmsum öðrum störfum, eins og t.d. embættisstörfum sýslumanna. Sýslumenn voru víða að auglýsa manntalsþing í októbermánuði í haust. Það er seinna en venjulegt var áður, og ég held, að ég muni það rétt, að ég hafi heyrt um daginn tilkynningu í útvarpi frá einum sýslumanni hér á landi, þar sem hann var að auglýsa manntalsþing í desember. Þetta er áreiðanlega nýlunda. Ein af aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins, sú þriðja í röðinni, fjallar um þetta efni, þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. 11. gr. B. 2 hefur kostnaður við ríkisskattanefnd og skattstofur orðið á árinu kr. 18 580133.28, og er umframgreiðsla frá fjárl. á þessum lið kr. 10 101133.28. Þetta virðist sanna greinilega, að hið nýja fyrirkomulag á innheimtu skattanna er miklu dýrara heldur en hið gamla var. Er því rík ástæða til, að þetta mál sé tekið til rækilegrar athugunar á ný.“

Í svari sínu út af þessari aths. ber hæstv. ráðh. ekki á móti þessu, en talar þar um sparnað vegna breytinga á innheimtufyrirkomulagi skatta í Reykjavík. Ríkisreikningurinn ber ekki með sér, hver sá sparnaður er, en í því sambandi má benda á, að allur gjaldaliðurinn á 11. gr. ríkisreiknings, sem ber yfirskriftina „kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta“, er 90% hærri nú, 1963, samkv. þessum reikningi heldur en hann var 1958. Og um þetta segja svo yfirskoðunarmenn í sínum till.:

„Þar sem kostnaður við innheimtu og álagningu skatta hefur farið yfir 10 millj. kr. fram úr áætlun fjárl., er greinilegt, að breytingin gefst ekki vel. Er því rík ástæða til ýtarlegrar athugunar á þessu máli.“

Í 17. aths. yfirskoðunarmanna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á ríkisreikningi 1963, 19. gr., er greiðsla vegna hagsýslukostnaðar kr. 891 188.45. Undanfarin ár hefur verið varið allmiklu fé í þessu skyni.“ Og síðan birta yfirskoðunarmenn yfirlit yfir þetta allt frá árinu 1960 til ársins 1963, og samanlagður er kostnaðurinn þessi 4 ár kr. 2 701 577.05. Síðan segja yfirskoðunarmenn um þetta: „Sagt er, að til þessara starfa hafi verið stofnað til að gera ýmsar starfsgreinar í rekstri ríkisins einfaldari og ódýrara bókhald og skýrslur þess fullkomnari og aðgengilegri. Við þessi störf hafa fengizt allmargir menn, bæði innlendir og erlendir, og nema greiðslur til sumra þeirra talsverðu fé. Yfirskoðunarmönnum er ekki ljóst, hver árangur hefur nú þegar orðið af þessu starfi eða hvort vænta megi enn meiri árangurs síðar meir og hvort mikið sé enn ógert við þennan hagsýsluundirbúning, áður en sú sýslan kemst í framkvæmd.“ Síðan óska þeir upplýsinga um, hvað þessu máli liði.

Sem svar við þessari aths. er birt umsögn ríkisendurskoðanda um hagsýsluna, og þar nefnir hann þrjú atriði, þar sem árangur hafi orðið til sparnaðar af hagræðingarstörfum. Fyrst nefnir hann sameiningu Áfengisverzlunar ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins. Kostnaður við hina sameinuðu stofnun er án efa lægri en áætla mætti, að hann hefði verið nú að óbreyttu fyrirkomulagi, segir ríkisendurskoðandi. Það er nú svo um þessa stofnun, Áfengisog tóbaksverzlunina, að reikningur hennar er nokkuð öðruvísi upp settur í ríkisreikningi heldur en áður var, meðan verzlanirnar voru tvær. En þó verður ekki betur séð en rekstrarkostnaður fyrirtækisins sé a.m.k. eins mikill 1963 hlutfallslega, miðað við brúttótekjur af vörusölu, og hann var hjá hinum tveim verzlunum fyrir sameininguna. Einnig vil ég benda á það, að ekki þurfti að setja upp neina hagsýslustofnun til þess að sameina þessar tvær verzlanir. Það var ekki svo flókið mál. En um þennan lið í aths. segja yfirskoðunarmenn svo í till. sínum:

„Svar ríkisendurskoðanda við fsp. yfirskoðunarmanna gefur frekar litlar upplýsingar um þetta mikla vandamál. En þar sem líkur eru til, að áfram verði fé varið til hagsýsluundirbúnings, þer nauðsyn til að taka það mál fastari tökum en verið hefur. En hyggilegt mun að gæta fullrar varúðar í því fyrir okkur að miða í þessum efnum við það, sem gerist hjá miklu fjölmennari þjóðum. Málið er því til athugunar framvegis.“

Annar liður, sem ríkisendurskoðandinn nefnir, er stofnun Gjaldheimtu Reykjavíkur, og segir hann, að kostnaður ríkisins af þeirri stofnun sé mun minni en áætla mætti, að hann hefði verið nú við innheimtu þeirra gjalda, sem hún annast, að óbreyttu fyrirkomulagi. Ég hef áður getið þess, hvað mikil hækkun hefur orðið í heild á skattamálaliðnum á 11. gr., sem var 90% á tímabilinu frá 1958 til 1963. Í þriðja lagi nefnir ríkisendurskoðandi það, að hagsýsla ríkisins hafi beitt sér fyrir athugun á bifreiða og vinnuvélakostnaði ríkisstofnana og skynsamlegri endurnýjun hans og nýtingu, og talar um, að það hafi verið sparað mikið fé á þessum liðum, en ekki liggja hins vegar fyrir um það neinar tölulegar upplýsingar. Það verður því ekki séð, að enn sem komið er sé mikill árangur af þessum hagsýslustörfum, sem hafa kostað til ársloka 1963 um 2.7 millj. kr.

Ég ætla ekki nú við 1. umr. þessa máls að nefna fleiri dæmi en ég hef þegar gert um þær miklu hækkanir, sem orðið hafa á kostnaði við ríkisreksturinn, þó að þar sé vitanlega margt fleira umtalsvert. “

Í svörum sínum nefnir hæstv. ráðh. einkum launahækkanir til skýringar á þeim gjaldahækkunum, sem orðið hafa. Ekki eru þetta fullnægjandi skýringar. Að vísu varð hækkun á launum opinberra starfsmanna á árinu 1963, og ef ég man rétt, var áætlað af ríkisstj., að sú launahækkun mundi nema að meðaltali eitthvað milli 40 og 50%. En á það er að líta, að sú launahækkun gekk ekki í gildi fyrr en á árinu 1963, sem þessi reikningur er fyrir, og má því auðvitað gera ráð fyrir, að sú launahækkun komi með meiri þunga á næsta reikningi.

19. aths. yfirskoðunarmanna snertir endurskoðunina í fjmrn. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og að undanförnu hafa yfirskoðunarmenn fengið skýrslu frá endurskoðunarnefnd fjmrn. um það, hve langt endurskoðun hennar er komið. Samkv. þessari skýrslu, sem hér fylgir, er ástandið í þessu efni engan veginn gott og hefur því miður gengið í öfuga átt við það, sem yfirskoðunarmenn hafa gert sér vonir um og gert ráð fyrir að undanförnu. Um tíma færðist þetta í betra horf, þannig að endurskoðuninni miðaði nokkuð vel áfram, en samkv. þessari skýrslu er hér um afturför að ræða og það að mun.“

Þetta segja þeir m.a. Í svarinu, sem fengið er frá ríkisendurskoðanda, er því hins vegar haldið fram, að endurskoðuninni hafi aldrei, síðan núv. ríkisendurskoðandi tók við sínu starfi, verið svo vel á veg komið sem nú, og er þá talið eftir því, hve miklu er lokið af endurskoðunarverkinu, en ekki eftir fjölda þeirra stofnana, sem ekki er lokið endurskoðun í. Hann segir í lok svarsins, að með fleiri þjálfuðum og vel menntuðum starfsmönnum mætti komast nær því marki að ljúka endurskoðun fyrr, en slíkt mundi að sjálfsögðu hafa verulega aukinn kostnað í för með sér. En yfirskoðunarmenn segja aftur á móti í sínum till. um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirskoðunarmenn byggðu aths. á skýrslu frá ríkisendurskoðuninni, og efast yfirskoðunarmenn ekki um, að sú skýrsla er rétt.“

Þessi skýrsla frá ríkisendurskoðuninni í fjmrn. fylgir ekki reikningnum, og verður því ekki um þetta dæmt að svo stöddu. En af því, sem þarna kemur fram, sýnist mér, að það sé ekki rétt að afgreiða þetta frv. nú þegar, heldur fresta afgreiðslu þess, þar til nánari upplýsingar liggja fyrir og vitneskja hefur fengizt um það, að endurskoðuninni hjá fjmrn. sé lokið.