30.11.1964
Efri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

45. mál, ferðamál

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við athugun á þessu máli í samgmn. á milli 2. og 3. umr. varð það að samkomulagi í n., að tekin skyldi aftur brtt., sem flutt hafði verið á þskj. 89, en í þess stað fluttar brtt. á þskj. 122, eins og frsm. n. lýsti. En í sambandi við þetta þótti okkur, sem fluttum brtt. á þskj. 90, fara betur að breyta orðalagi hennar, vegna þess að hér er stefnt að því að gera breytingu á sömu lagagrein, bæði með till. á þskj. 121, eins og hún er nú orðuð, og till. n. á þskj. 122. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða, heldur formsbreytingu, og vil ég því gera með nokkrum orðum grein fyrir efni tillögunnar.

Á undanförnum árum hefur ferðamannastraumur til landsins vaxið mjög mikið og með bættum samgöngum innanlands eru einnig sköpuð skilyrði til þess að greiða fyrir ferðamönnum úr einu byggðarlagi til annars. Aukið orlof stefnir einnig að því að örva ferðamannastraum um landið. Þetta hefur mörgum verið ljóst á undanförnum árum og hafa menn haft opin augu fyrir því, að nauðsynlegt væri í þessu sambandi að bæta aðstöðu víða í landinu fyrir móttöku ferðamanna, og í þessu skyni hafa á 2 undanförnum þingum verði sett lög, sem að þessu miða. 1963 voru sett lög um veitingasölu og gististaðahald. Þau taka bæði til gistihúsa, gistiskála, greiðasölu og gistiheimila, þannig að þeir staðir, sem veita þjónustu á þessu sviði, eru samkv. þessum lögum flokkaðir eftir því, hve vel þeir eru úr garði gerðir og hve mikla þjónustu þeir láta af hendi. Á síðasta þingi voru svo sett lög um ferðamál. Þar er m.a. kveðið á um, að stofna skuli ferðamálasjóð, sem á að veita stuðning til veitingasölu og gististaðahalds. Tekjur ferðamálasjóðs eru þannig fengnar, að greiða skal árlega úr ríkissjóði framlag til ferðamálasjóðs, eigi lægra en 1 millj. kr. Ferðamálasjóði er og heimilt með samþykki ráðh. að taka lán allt að 20 millj. kr., og er fjmrh. heimilt að ábyrgjast slík lán fyrir hönd ríkissjóðs. Ferðamálaráð beitir sér fyrir því að fá ýmsa aðila, sem hagsmuni hafa af auknum ferðamannastraumi, til þess að greiða árlega frjáls framlög til sjóðsins eða efla hann á annan hátt. Ferðamálaráð skal leita annarra fjáröflunarleiða og vera ráðgefandi um slík mál gagnvart ráðh. Gert er ráð fyrir því, að lán verði veitt úr ferðamálasjóði til þess að bæta aðstöðu til máttöku ferðafólks, svo sem til byggingar og endurbóta á húsnæði eða til kaupa á húsgögnum og öðru slíku. Lögin gera beinlínis ráð fyrir því, að sumt af þeim lánum, sem veitt eru úr sjóðnum, séu ekki háar fjárhæðir, heldur sé leitazt við að verja fé sjóðsins til þess að bæta aðstöðu og þjónustu við ferðamenn, eftir því sem auðið er á hverjum stað og geta því lánin náð bæði til veitingahúsa, gististaða, gistiskála eða jafnvel gistiheimila úti um land.

Lög um ferðamál, þau sem nú er verið að gera hér breyt. á, voru afgreidd hér á hv. Alþingi 24. apríl þ. á. Og bæði þessi lög, sem ég hef gert að umtalsefni, voru undirbúin af hæstv. ríkisstj. og flutt hér inn í þingið sem stjórnarfrv. En ekki var lengi látið við svo búið standa af hálfu hæstv. ríkisstj., því að í okt., eftir að þetta þing hóf störf, er borið fram frv. um breyt. á l. um ferðamál, þeim l., sem afgreidd voru á Alþingi 24. apríl s.l. Og breytingin er m.a. í því fólgin, að það skuli lögbundið, að öll lán, sem veitt verða úr ferðamálasjóði, hvort sem þau eru há eða lág, skuli vera með vísitöluákvæði. Ég tel ótvírætt, að andi l. um ferðamál og sú stefna, sem þar lá til grundvallar, hafi verið sú að bæta aðstöðu við móttöku ferðamanna og gera kleift að ráðast í framkvæmdir á því sviði með hagstæðum lánum. En með því að ákveða, eins og hér er stefnt að því að gera, að öll lánin skuli vera veitt með vísitöluákvæði, þá virðist mér augljóst, að það er stefnt að því að draga úr eftirspurn eftir þessum lánum og þar með að draga úr framkvæmdum á þessu sviði frá því, sem ella kynni að geta orðið.

Það er eðlilegt að dómi okkar, sem stöndum að brtt. á þskj. 121, að það fé, sem fengið er til útlána með vísitölutryggingu, verði einnig lánað með vísitöluákvæði. En við teljum ekki eðlilegt, að það fé, sem fengið er með framlögum úr ríkissjóði og því raunverulega innheimt af almenningi með sköttum og tollum, það sé lánað út með vísitöluákvæði. Það er því efni brtt. okkar á þskj. 121, að einungis sá hluti af lánum úr ferðamálasjóði, er samsvarar hinu vísitölutryggða fé, sem sjóðurinn hefur til umráða, skuli vera með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu þá bundnar vísitölu. Jafnframt leggjum við til, að vextir af þeim lánum, sem eru með vísitöluákvæði, verði ekki hærri en 4% og mun það vera í samræmi við þá samninga, sem gerðir voru um lán, sem húsnæðismálastjórn veitir.

Það kom fram hjá frsm. hv. samgmn., að með því að samþykkja þessa brtt. yrði þetta lánakerfi óþarflega flókið. Ég vil benda á, að um mörg ár hefur lánum frá Húsnæðismálastofnun ríkisins verið þannig hagað, að þau hafa verið svokölluð A- og B-lán, þannig að annar flokkurinn hefur verið með vísitöluákvæði, B-lánin, en ekki hinn lánaflokkurinn og er mér ekki kunnugt um, að þetta hafi valdið miklum vandkvæðum við afgreiðslu þeirra lána. Ég vil enn fremur benda á það, að í l. um stofnlánadeild landbúnaðarins er ákvæði um það, að stofnlánadeildinni sé eigi heimilt að endurlána erlent lánsfé nema með gengisákvæði, enda gangi slíkt lán aðeins til vinnslustöðva og vélakaupa. Þó er gerð frá þessu sú undantekning, að stofnlánadeildinni sé heimilt að endurlána með gengisákvæði erlent lánsfé til bygginga, sem reistar eru til sameiginlegra þarfa bændasamtakanna og er þá sérstaklega haft í huga lánsfé til Bændahallarinnar. Mér er ekki kunnugt um, að þessi lagaákvæði hafi valdið neinum vandkvæðum við afgreiðslu mála hjá stofnlánadeild landbúnaðarins, svo að fordæmi fyrir þeirri tilhögun, sem við leggjum hér til, eru vissulega fyrir hendi og eins og ég hef þegar tekið fram, hníga mörg rök að því, að rétt sé að afgreiða málið á þann hátt að samþykkja till. á þskj. 121. En ég endurtek það, herra forseti, að brtt. á þskj. 90 er tekin aftur.