27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 8. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, og hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, leyft mér að flytja á þskj. 30 frv. til l. um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Frv. um þetta sama efni var flutt hér á síðasta þingi og var þá svo seint fram komið, að það náði ekki afgreiðslu, en var eftir 1. umr. sent hv. sjútvn., sem mun hafa sent það til umsagnar þeim aðilum, sem hún taldi eðlilegt að um það gæfu álít.

Ég hafði hér í þessari hv. d. framsögu um málið á síðasta þingi og gerði þá allýtarlega grein fyrir því og tel því ekki ástæðu til langrar framsögu nú. Frv. er í öllum höfuðatriðum óbreytt frá því, sem það var, er það var lagt fram á síðasta þingi. Þó hefur í 5 gr. þess, en hún fjallar um, hvaða fræðsla skuli vera veitt í skólanum, verið bætt inn 3 nýjum töluliðum..

Í fyrsta lagi er í 2. kafla 5. gr. bætt við tölulið 12, sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Þekking í meðferð og notkun nýrra siglinga- og fiskileitartækja.“

Þó að þetta ákvæði sé ekki í lögum um stýrimannaskólann í Reykjavik, er þessi fræðsla að sjálfsögðu veitt þar.

Flm. þessa frv. töldu eðlilegt og sjálfsagt, að þetta ákvæði væri tekið inn í það frv., sem hér liggur fyrir, því að þótt áttavitinn sé og verði án efa um næstu framtíð undirstaða siglinga, er vitað, að mjög mikil og ör framþróun hefur orðið í siglingatækni hin síðari ár. Þar hafa mörg ný tæki þegar komið til og án efa von á fleiri nýjungum í næstu framtíð á þessu sviði.

Um hin nýju fiskileitartæki er það að segja, að þau eru nú í dag þegar orðin undirstaðan undir öllum fiskveiðum Íslendinga. Á það jafnt við um þorskveiðar og síldveiðar. Það liggur því alveg í augum uppi, að það hlýtur að verða eitt af undirstöðuatriðum hjá hverjum stýrimannaskóla að veita sem hald bezta og hagnýtasta fræðslu í meðferð og notkun þessara tækja.

Því miður eru mörg dæmi þess, að skipstjórar, sem fengið hafa þessi tæki um borð í skip sin, — á ég þar við fiskileitartækin, — en hafa ekki áður haft aðstöðu til að kynnast þeim, hafa verið hálfa og jafnvel heila vertíð að læra notkun þeirra og þá að sjálfsögðu misst afla, sem þeir hefðu ekki orðið af, ef fullkomin þekking á tækjunum hefði verið fyrir hendi, er þau komu um borð í skipin.

Það fer því ekki á milli mála að mikil áherzla hlýtur að verða lögð á það í framtíðinni að veita þeim mönnum, sem til skipstjórnar læra, sem mesta og bezta þekkingu í meðferð þessara tækja. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum hefur þegar fengið og mun fá á næstu vikum til afnota öll þau siglingatæki og fiskileitartæki, sem nú þekkjast í íslenzkum fiskiskipum og mun ég koma nánar að þessu síðar.

Þá hafa einnig verið teknir upp í þetta frv. 2 nýir töluliðir í 3. kafla 5. gr. þessa frv., sem voru ekki í því frv., sem flutt var hér á síðasta þingi um þetta efni og eru ekki í gildandi lögum um stýrimannaskólann í Reykjavík. En það er 4. töluliður, sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Þekking í meðferð sjávarafurða, fiskverkun og fiskmati“ — og 5. töluliður, svo hljóðandi: „Þekking á almennri vinnustjórnun og vinnuhagræðingu.“

Ég held, að ekki verði um það deilt, að til bóta er og nauðsynlegt, að þeir menn, sem læra til skipstjórnar á fiskiskipum, öðlist sem bezta þekkingu í þessum efnum, eftir því sem við verður komið.

Allir eru sammála um, að sem mest vöruvöndun í fiskiðnaðinum sé höfuðnauðsyn. Það liggur því alveg í augum uppi, að til bóta er, að skipstjórnarlærðir menn hafi hlotið sem bezta fræðslu í meðferð sjávarafurða, fiskverkun og fiskmati. Fyrsta stigið í meiri vöruvöndun er að sjálfsögðu í meðferð aflans um borð í skipunum, þó að meðferð aflans, þegar í land er komið, ráði þar einnig og ekki siður miklu. Hygg ég, að óvíða sé betra að koma við hagnýtri fræðslu í þessum efnum, en einmitt í Vestmannaeyjum, þar sem er stór bátafloti af öllum stærðum og stór fiskiðjuver, sem vinna úr fjölbreytilegra hráefni, að ég hygg, en mörg önnur frystihús hér á landi.

Um 5. tölulið þessarar umræddu gr. frv.: „Þekking á almennri vinnustjórnun og vinnuhagræðingu“ — er það að segja, að það hlýtur að verða til aukins hagræðis hverjum skipstjórnarlærðum manni.

Störf skipstjóra og stýrimanna á hverju fiskiskipi eru öðrum þræði verkstjórn. Það eru þeir, sem segja fyrir verkum, ekki einasta í sambandi við siglingu skipsins, heldur einnig og ekki síður í sambandi við veiðarnar og meðferð aflans, eftir að hann er um borð kominn. Það fer því ekki heldur á milli mála í þessu sambandi, að sem mest fræðsla og aukin þekking í almennri vinnustjórnun og vinnuhagræðingu er þessum aðilum til hagræðis og þeim nauðsynleg.

Ég mun láta þetta nægja um efni frv., en vísa til grg. þess og þeirra upplýsinga, sem fram komu í framsöguræðu, er það var flutt hér í þessari hv, d. á síðasta þingi. En eins og fram kemur í grg., sem frv. fylgir, þá hefur stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum þegar tekið til starfa. Var hann settur 3. okt. s.l. að undangengnu hálfs mánaðar námskeiði í ákveðnum fræðslugreinum, sem þar verða kenndar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja steig skref í trausti þess, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. Taldi hún, að undirtektir þær, sem frv. fékk, er það var lagt hér fram á síðasta þingi; gefi bendingu um, að þess megi vænta.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að handa skólanum hafa verið fest kaup á öllum þeim siglingatækjum, smærri og stærri, sem nú þekkjast í íslenzkum fiskiskipum. Eru tæki þessi sumpart komin í skólann og hafa verið sett þar upp, önnur eru á leið til landsins erlendis frá og koma nú á næstu vikum. Er hér um að ræða radartæki, sjálfvirka ljósmiðunarstöð, dýptarmæli, lóran-staðarákvörðunartæki, sjálfstýritæki með áttavita, auk annarra smærri kennslu- og siglingatækja. Enn fremur hefur þegar verið sett upp í skólanum nýtt Simradfiskleitartæki, en fiskleitartæki af þessari tegund eru fleiri í íslenzkum fiskiskipum, en af öðrum tegundum. Skólastjóri hefur þegar verið ráðinn við skólann, Ármann Eyjólfsson sjóliðsforingi. Lauk hann prófi með góðri einkunn frá Soværnets Officerskole í Danmörku árið 1960. Lærði hann þar aukalega sjómælingar og sjókortagerð. Og með lögum nr. 51 frá 29. marz 1960 var honum veitt stýrimannsskírteini í innan– og utanlandssiglingum á verzlunar– og varðskipum, af hvaða stærð sem er og skipstjórnarskírteini á sams konar skipum, eftir að hafa fullnægt ákvæðum laga nr. 66 frá 17. júní 1946, um atvinnu við siglingar. Ég vil einnig geta þess, að Ármann Eyjólfsson veitti forstöðu námskeiði fyrir hið svonefnda minna fiskimannapróf, sem haldið var í Eyjum á síðasta hausti á vegum stýrimannaskólans í Reykjavik, með góðum árangri, eftir því sem skólastjóri þess skóla hefur upplýst. Er af þessu auðsætt, að skólinn hefur þegar verið búinn þeim tækjum, sem nauðsynleg eru og stendur þar í engu að baki stýrimannaskólanum í Reykjavik og einnig, að við skólann hefur verið ráðinn maður með þá menntun, sem lögin um stýrimannaskólann í Reykjavik krefjast af þeim aðila, sem þeim skóla veitir forstöðu.

Hvort tveggja þetta ásamt því, að frv. gerir ráð fyrir, að formaður skólanefndar og prófdómendur skuli vera stjórnskipaðir, ætti að vera nokkur trygging fyrir því, að út úr stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum útskrifist ekki nemendur með lakari fræðslu, en úr stýrimannaskólanum hér í höfuðstað landsins.

Allur kostnaður við stofnun skólans og kaup á tækjum honum til handa hefur þegar verið inntur af hendi úr bæjarsjóði Vestmannaeyja og með framlögum frá félagasamtökum og einstaklingum, sem áhuga hafa á málinu og engin beiðni liggur fyrir Alþingi um rekstrarstyrk skólanum til handa.

Það, sem hér er því farið fram á með þessu frv., er það eitt, að hv. Alþingi samþ. frv. þetta til l. um þennan fyrirhugaða stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, þannig að prófskírteini frá honum verði tekin gild og veiti þeim aðilum, sem þar standast tilskilin próf, sömu réttindi og prófskírteini frá stýrimannaskólanum í Reykjavik veita þeim, sem þar hafa staðizt fiskimannapróf.

Við heima í héraði höfum metið það svo, að nú þegar væri full þörf og tímabært að koma þar upp stýrimannaskóla. Leyfi ég mér að vænta þess, að þetta mál fái greiðan framgang hér á hv. Alþingi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2 umr. og hv. sjútvn.