27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 7. landsk þm., Sverris Júlíussonar. Hann upplýsti það, að endurskoðun stæði yfir, svo sem reyndar var vitað, á lögum um stýrimannaskólann í Reykjavík. Gat hann þess, að í þeirri breytingu, sem þar var fyrirhuguð, mundi vera það m.a., að námskeið þau, sem áður hafa verið haldin úti á landi á fjórum stöðum, yrðu lengd úr 4 mánuðum í 6 mánuði og mundu veita sama rétt og próf úr 1. bekk stýrimannaskólans hér í Reykjavík.

Það er að sjálfsögðu ekki nema gott um það að segja, að fræðsla í þessum efnum sé aukin. En þarna er alls ekki um nein full réttindi að ræða, eins og Vestmanneyingar hafa stefnt að því að fá og frv. til l. um stýrimannaskóla þar gerir ráð fyrir. Það er einmitt það, sem fyrir okkur vakir, að þeir aðilar, sem þessa leið vilja fara í sínu lífi, fái sem fyllsta menntun og séu sem hæfastir í því starfi, sem þeir hafa lagt fyrir sig. Ég sé ekki, að þetta þurfi að vera neitt til andstöðu við það frv., sem hér liggur fyrir, nema kannske síður sé og ég vil taka það fram um þær breytingar, sem kunna að verða á l, um stýrimannaskólann í Reykjavík frá þeirri nefnd, sem um það mál fjallar nú, að ég tel alveg sjálfsagt, að þær mundu einnig ná til laga um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, ef þetta yrði samþ. hér og afgreitt. Við höfum stefnt að því að hafa í lögum um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum allan útbúnað, allar kröfur, sem gerðar eru til nemenda, ekki lakari en gert er nú við stýrimannaskólann í Reykjavík.

Hér hefur verið drepið á kostnaðarhlið málsins, og er ég að sjálfsögðu þakklátur þeim, sem vilja fría okkur Vestmanneyinga frá að borga þennan kostnað. En málið er nú einu sinni sett þannig inn í þingið, það er gert með samþykki allra meðlima bæjarstjórnar Vestmannaeyja ágreiningslaust og við höfum þegar í upphafi gert okkur grein fyrir þeirri hlið málsins. Fyrir okkur er þetta ákaflega einfalt reikningsdæmi. Það lá fyrir þegar í upphafi. Þarna er um 20 menn að ræða eða rúmlega 20 menn, sem hafa setzt í skólann. Kostnaður þessara aðila hér í Reykjavík í 6–9 mánuði fer ekki undir 60–70 þús. kr. á mann. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og okkur er það alveg vitanlegt. Þarna er því um beinan kostnað við fræðslu þessara manna að ræða, sem nemur yfir 1 millj. kr. Ef þessir menn eru á sínum heimilum, hjá sínum foreldrum og á eigin heimili, ef þeir eru orðnir búsettir, þá er vitanlega óhætt að reikna með því, að þeirra beini framfærslukostnaður lækkar a.m.k. um helming, það verður ekki nema, um helmingur þess kostnaðar, sem væri við að halda sér hér uppi í leiguhúsnæði, kaupa sér fæði og alla aðstöðu á því verði, sem þar um gildir, er menn dveljast hér. Við erum því ekki þarna að neinu leyti að færa fé frá Vestmanneyingum. Við erum aðeins að færa til hluta af tekjum manna milli þeirra, sem greiða þar útsvör og þeirra, sem vilja mennta sig til þess starfa, sem þarna er um að ræða. Það er það eitt, sem við erum að gera. Þetta dæmi lá alveg ljóst fyrir okkur, þegar við vorum að hugsa um þennan skóla. Við erum ekki að auka útgjöld bæjarfélagsins eða bæjarbúa í heild, heldur aðeins færa tekjur til milli manna. Það mætti náttúrlega, eins og hv. 7. landsk. þm. benti á, styrkja þessa menn hér í Reykjavík. Hvað er það betra? Við værum einnig með því að færa tekjur á milli manna, taka þær af útsvörum heima og greiða til þeirra, sem vilja fá þessa menntun hér í Reykjavík. Við sjáum ekki, að það sé neitt hagkvæmara fyrir okkur eða betra.

Við höfum skapað þarna þessa aðstöðu og hún er eins vel úr garði gerð og um væri að ræða skóla hér í Reykjavík, að öllu leyti sömu kröfur gerðar til þeirra manna, sem þar starfa, og sömu kröfur verða gerðar til nemenda, sem þar útskrifast, þannig að það á engin hætta að vera á ferðum fyrir einn eða neinn, þó að þetta frv. fari í gegn. Reynslan verður síðan að skera úr um það, hver árangurinn verður. Við höfum lagt í þessa fjárfestingu og gert það vel vitandi, hvað við erum að gera í því sambandi og tíminn verður aðeins að leiða í ljós, hvort þetta hefur verið rétt af okkur eða ekki.

Ég vil geta þess hér út af því, sem hv. 7. landsk. ræddi í sambandi við fiskiðnskóla, að við mundum vissulega fagna því, að sá skóli yrði í Vestmannaeyjum. Ég vil undirstrika, að það eru hvergi á landinu, sem mér er kunnugt um, betri aðstæður til rekstrar slíks skóla, vegna þess að þar er, eins og ég gat um í framsöguræðu hér áðan, um stór, nýtízkuleg fiskiðjuver að ræða, sem vinna allt árið úr, að ég hygg, miklu fjölbreyttari afurðum, en hægt er að finna hjá öðrum frystihúsum í landinu, þannig að það væri vissulega mjög góður grundvöllur fyrir fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum og fagna ég því, að þetta skuli hafa komið hér fram.