15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins í þetta sinn að segja nokkur orð um meðferð málsins.

Það var á föstudaginn var, síðari hluta dags, sem frv, var afgr. frá hv. fjhn. Við, ég og hv. 11. þm. Reykv. (EÁ), skiluðum nál. um það hingað á skrifstofu þingsins strax í gærmorgun, þegar opnað var, á mánudagsmorgun, en nál. er ekki komið enn. Ég geri ráð fyrir því, að það stafi af miklu annríki í prentsmiðjunni. Þetta var nokkuð ýtarlegt nál., og þar voru fylgiskjöl með, sem átti að prenta til skýringar, og þar voru einnig brtt. til leiðréttingar á frv. Nú vil ég fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti frekari meðferð málsins, þangað til nál. okkar liggur fyrir, en ég skil ekki í, að það geti dregizt mjög lengi, þar sem það var í gærmorgun, sem við afhentum það. Ég þykist vita, að hæstv. forseti verði við þessum tilmælum okkar að fresta frekari meðferð málsins, þangað til okkar álíti hefur verið útbýtt.