17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. tók þetta mál til athugunar á fundi sínum. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 172, mælir n. einróma með samþykkt frv., en tveir hv. nm., þeir hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 5. þm. Reykn., áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. um málið. Einn þm., hv. 3. þm. Norðurl. v., var ekki á fundi n., þegar málið var afgreitt.

Það kom fram undir umr. um frv. í hv. Nd., að leitað hafði verið umsagna og svör fengizt frá samtökum skipstjórnarmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjóra og stýrimanna í Vestmannaeyjum. Þessir aðilar mæltu með samþykkt frv., en skólastjóri stýrimannaskólans í Reykjavík segir í sínu álíti, að hann dragi í efa, að það sé þörf fyrir annan stýrimannaskóla í landinu heldur en þann, sem nú er, þ.e. stýrimannaskólann hér í Reykjavík. Landssamband ísl. útvegsmanna telur, að þar sem lög um stýrimannaskóla séu nú í endurskoðun, geti það ekki mælt með samþykkt þessa frv, að svo komnu máli.

Samkv. þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að neitt verði dregið úr þeirri menntun, sem stýrimannaskóli þessi veitir, frá því, sem nú á sér stað með stýrimannaskólann hér í Reykjavík. Inntökuskilyrði í þennan skóla eru ákveðin þau sömu, sem nú eru í stýrimannaskólann í Reykjavík, en auk þess er samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, kveðið á um það, að það eigi að bæta við nýjum atriðum eða námsgreinum frá því, sem nú á sér stað. Er það t.d. notkun nýrra siglinga- og fiskileitartækja, sem verður að teljast mjög nauðsynlegt og æskilegt, að sé bætt við þá menntun frá því, sem nú á sér stað í stýrimannaskólanum hér. Enn fremur er kveðið á um, að lögð verði áherzla á að kenna meðferð sjávarafla, fiskverkun m.a. og fleira, sem miklu máli skiptir, a.m.k. fyrir yfirmenn á fiskiskipaflotanum.

Vestmannaeyjakaupstaður leggur á það mikla áherzlu, að þetta lagafrv. verði samþykkt og þar með þessi menntastofnun. Allur kostnaður við stofnun skólans og kaup á tækjum, til þess að hægt væri að hefja byrjunarkennslu í honum, hefur þegar verið greiddur af bæjarsjóði Vestmannaeyja, einstaklingum þar í bæ og félagasamtökum, Það ber þess glöggt merki, hve mikla áherzlu íbúarnir í þessum útgerðarbæ leggja á það, að þeir fái að hafa og starfrækja þennan stýrimannaskóla. Það má segja, að það sé ekki óeðlilegt, þegar á það er litið, að hér á í hlut stór og myndarlegur útgerðarbær, sem á allt öðru fremur undir því, sem fiskiskipafloti hans aflar á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði samþ. og því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.