17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv., sem ég vil leyfa mér að mæla með samþykkt á og óska þess, að d. flýti meðferð þess sem mest má verða. En það er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem ég kemst ekki hjá að gera lítillega að umræðuefni og það eru þau ákvæði frv., að stofnkostnaður skólans og rekstur hans skuli greiddur af Vestmannaeyjakaupstað.

Fram að þessu hefur stýrimannafræðslan í landinu verið á vegum ríkisins og í ríkiskerfinu. Með l. nr. 5 frá 1955 er þessari fræðslu markað starfssvið og það er gert ráð fyrir því, eins og raunar fram kemur árlega í fjárl., að ríkinu er ætlað að standa straum af kostnaði við þetta.

Það er mikill og lofsverður áhugi, sem fram kemur hjá Vestmanneyingum í því, að þeir skuli hafa farið fram á það að fá viðurkenningu á þessari menntastofnun þrátt fyrir það, þó að þeir sjálfir þyrftu að borga kostnaðinn. En ég lít hins vegar þannig á, að ríkið eigi ekki að nota sér á þann hátt áhuga einstakra byggðarlaga, að það brjóti eina stofnun út úr eðlilegu fræðslukerfi þjóðarinnar og láti bæjarfélag bera kostnaðinn af henni, noti sér þannig þann áhuga, sem fyrir hendi er heima fyrir.

Í 17. gr. l. nr. 5 frá 1955, sem fjalla um stýrimannaskólann í Reykjavík, er gert ráð fyrir því, að stýrimannaskólinn skuli láta halda námskeið á ýmsum stöðum, þegar nægileg þátttaka er og eru nefndir fjórir staðir: Ísafjörður, Akureyri, Neskaupstaður og Vestmannaeyjar. Þessi námskeið ganga að vísu töluvert skemmra á menntabrautinni, en gert er ráð fyrir að verði í hinum nýja skóla, sem þetta frv. ræðir um, en eigi að síður sýnir þetta glöggt, að löggjafinn hefur, þegar þessi lög voru sett, hugsað sér, að ríkið stæði undir fræðslu af þessu tagi, þótt hún væri annars staðar, en í Reykjavík.

Ég held, að það sé einmitt mikið gleðiefni, að hér skuli vera komið fram frv., sem nýtur almenns stuðnings, um það, að slík skólastofnun skuli sett á stofn utan Reykjavíkursvæðisins. Það er ánægjuefni, að við getum dreift með hæfilegum hætti fræðslukerfi þjóðarinnar um landið og þess vegna er full ástæða til þess að mæla með samþykkt þessa frv. Hins vegar hefur mér þótt rétt að leggja það til og fara fram á það við hv. d., að gerðar yrðu breytingar í þá átt, að ríkið bæri kostnað af þessari fræðslu, svo sem gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu og hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Norðurl. e. leyft mér að bera fram brtt. í þessa átt á þskj. 175. Till. þessar eru af sama tagi og bornar voru fram um þetta í Nd., þar sem þær náðu ekki samþykki og ég leyfi mér að vænta þess, að þær fái betri hljómgrunn í þessari hv. deild.