26.11.1964
Efri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

28. mál, landamerki

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í því frv. á þskj. 29, sem ég hef leyft mér að flytja hér, felst fyrst og fremst breyt. á reglum um greiðslu þóknunar og ferðakostnaðar merkjadómsmanna. Samkv. ákvæðum núgildandi landamerkjalaga greiða aðilar eða sá þeirra, sem dómur ákveður, þóknun merkjadómsmanna og ferðakostnað þeirra. Ég tel þessar reglur ósanngjarnar og andstæðar grundvallarreglum, sem nú gilda um dómgæzlu í nútíma þjóðfélagi. Það má heita alveg viðurkennd grundvallarregla réttarfars, að aðilar í dómsmálum eigi rétt á, ef svo má segja, ókeypis dómendum, þ.e.a.s. að laun dómara séu greidd úr ríkissjóði, og þannig er það einnig almennt á okkar landi.

Að því er ferðakostnað dómenda varðar, þá er það að vísu svo hér á landi, að hann er talinn til málskostnaðar. En ég tel að, að því leyti til hafi landamerkjamál nokkra sérstöðu, sem réttlæti frávik frá þeirri almennu reglu, þ.e.a.s. þá sérstöðu, að í landamerkjamálum eru ferðalög merkjadómsmanna beinlínis lögboðin og óhjákvæmileg, þannig að í hverju merkjadómsmáli hlýtur að koma til ferðakostnaður dómenda, sem aftur á móti í mörgum málum kemur lítt til greina. Í annan stað mun nú þróunin í réttarfarsmálum stefna í þá átt, að ferðakostnaður dómenda sé greiddur úr ríkissjóði og ég hygg, ef ég man rétt; að það hafi verið gert ráð fyrir þeirri reglu í frv. að almennum einkamálalögum, sem lá síðast fyrir Alþingi. Ég hef því lagt til, að reglum þeim, sem nú gilda um þessi efni, verði breytt á þá lund, eins og þetta frv. ber með sér, að þóknun til merkjadómsmanna og ferðakostnaður þeirra verði greitt af almannafé.

Þetta er sú aðalbreyting, sem í þessu frv. felst og eins og ég áðan sagði, þá tel ég hana sanngjarna og tel, að hún muni vera í samræmi við þá þróun, sem verða mun í þessum efnum.

En því er ekki að neita, að það er oft um talsverðar upphæðir að ræða, sem með þessum hætti eru lagðar á aðila og ég tel rétt að létta þeirri kvöð af þeim og ég býst við því, að í sumum tilfellum geti þessi regla komið beinlínis í veg fyrir eða aftrað því, að menn leiti réttar síns. En þó að það sé vissulega ekki ástæða til að haga reglunum þannig, að þær hvetji beinlínis menn til þess að eiga í landamerkjadeilum, þá eiga menn þó auðvitað ekki síður rétt á því, þegar um þau mál er að tefla, heldur en önnur ágreiningsmál að fá úr þeim skorið með þeim hætti, sem þjóðfélagið gerir ráð fyrir.

Um aðrar breytingar í þessu frv. frá lögunum er það að segja, að það eru nánast orðalagsbreytingar. Þannig er í 1. gr. frv., 8. gr. l., í 2. málsgr. sagt, að dómsmrh. eigi að taka þá ákvörðun, sem þar er um að ræða, en í núgildandi lögum er mælt svo fyrir, að það sé ráðh. En það mun a.m.k. áður fyrr og ég veit ekki til þess, að því hafi verið breytt, í framkvæmdinni hafa verið skilið á þá lund, að atvmrh. færi með þá ákvörðun:

Í öðru lagi er þarna talað um héraðsdómara og sýslumann, þar sem í lögunum er talað um valdsmann, en á því þykir betur fara, þó að þetta valdsmannsheiti sé að vísu gamalt og úr okkar gömlu lögbókum.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er einfalt og auðskilið og ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til allshn.