23.02.1965
Neðri deild: 44. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

22. mál, skipströnd og vogrek

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hv. d. hefur haft þetta frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., til meðferðar, en frv. fjallar um breyt. á l. um skipströnd og vogrek, nr. 42 frá 1926. Allshn. hefur einróma samþ. að mæla með því, að frv. verði samþ. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um málsefnið.

Í lögum um skipströnd og vogrek er m.a. ákveðið, hvernig fara skuli með vogrek. Vogrek er það, er mannlaust skip rekur á land eða hluta úr skipi eða aðra muni, sem eru merktir svo eða annars um farið, að ætla megi, að þeir séu eignarrétti undirorpnir. Vogrek eru engan veginn ótíð hér á landi, þó að ætla megi, að þau hafi tíðari verið hér áður fyrr. Í reglum um vogrek, segir, að ábúanda eða eiganda lands beri að bjarga vogreki undan sjó og varðveita, síðan á að tilkynna sýslumanni eða umboðsmanni hans um vogrek, þá er gerð lýsing á því og áætlað verðmæti þess. Því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlað að breyta fjárhæðum tveim í þessum lögum, þ.e.a.s. þar sem áætlað eða metið er verðmæti vogreks.

Höfuðreglan er sú, að auglýsa á eftir eiganda vogreks. Ef ætla má, segir í þessum l. frá 1.926, að verðmæti vogreks sé eigi yfir 200 kr., þá má auglýsa það með þeim hætti, sem eftir atvikum er talinn eðlilegur á staðnum, til þess að komast fyrir, hver sé eigandi þess. Þá má verðmæti samkv. l. ekki fara yfir 200 kr. Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir breyt. hér á um fjárhæð, þannig að fjárhæðin verði ekki 200 kr., þegar svona stendur á, heldur 5 þús. kr. og er þá verið að reyna að koma hinum gömlu fjárhæðum til nokkurs samræmis við núgildandi peningagildi.

Í öðru lagi, þegar verðmæti vogreks hefur náð þessari fjárhæð og fer yfir 200 kr., þá ber að auglýsa með öðrum hætti, dýrari og þunglamalegri. Þá skal auglýsa það í Lögbirtingablaðinu og gefinn er 6 mánaða frestur þeim, sem ætla má að eigi tilkall til vogreks.

Ef vogrek nær að fara að áætluðu verðmæti yfir 500 kr. segir í lögunum og enginn tilkallsmaður gefur sig fram, skal andvirði vogreks renna í ríkissjóð. Og önnur meginbreyting í frv. fjallar einmitt um það, að þessi fjárhæð, 500 kr., verði færð upp í 12 þús. kr., af ástæðum þeim, er áður greinir, þannig að ef vogrek, sem enginn tilkallsmaður hefur gefið sig fram um að eiga, nemur yfir 12 þús. kr., þá rennur það eða verðmæti þess til ríkissjóðs.

Þetta eru þær breytingar, sem frv. stefnir að, að breyta 200 kr. í fyrra tilvikinu í 5 þús. kr. og í seinna tilvikinu úr 500 kr. upp í 12 þús. kr. Allshn. telur, að þetta séu eðlilegar breytingar og sjálfsagðar og því ekki ástæða til þess að hafa á móti því, að þær verði gerðar. Þetta eru að vísu ekki stór atriði, en geta þó orðið það og eins og ég sagði áðan, þá kemur það ekki sjaldan fyrir, að vogrek berast á land og þá má ætla, þegar svo stendur á, að þetta frv., ef að lögum verður, geri allt um hægara að ganga sem kostnaðarminnst frá vogrekum, þegar þau nema ekki mjög stórum fjárhæðum að verðmæti. Og með því að allshn. hefur álítið, að þessar breytingar á l. séu sjálfsagðar og eðlilegar, þá hefur hún einróma samþ. að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.