04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

76. mál, sala eyðijarðarinnar Miðhúsa í Gufudalshreppi

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja bóndanum í Djúpadal í Gufudalshreppi í Austur-Barðastrandarsýslu eyðijörðina Miðhús í sömu sveit. Eins og venja er til um slík mál sem þessi, sendi landbn. frv. til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra og hafa þessar umsagnir borizt n. og mæla báðir þessir aðilar með því, að frv. verði samþ.

Það hafa stundum orðið nokkrar umr. hér í þinginu um mál þessi og er kannske rétt, að ég til upplýsinga lesi upp þessar umsagnir, með leyfi hæstv. forseta. Umsögn landnámsstjóra ,Pálma Einarssonar, er á þessa lund:

„Með bréfi, dags. 4. febr. 1965, hefur hv. landbn. Nd. Alþ. óskað umsagnar um 76. mál á þskj. 99 frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Miðhús í Gufudalshreppi til bóndans í Djúpadal, Samúels Zakaríassonar. Jörðin Miðhús er aðliggjandi landi Djúpadals og liggur út með Djúpafirði að vestan og er um 3 km leið milli bæjanna. Ekkert hús er á jörðinni, en tún er 2 ha., þar af 1.75 ha. vélfærir. Þegar Samúel Zakaríasson fékk leigða jörðina, var tún 0.8 ha., óvéltækt. Ræktunarmöguleikar eru mjög takmarkaðir og lega þess lands, sem telja má ræktunarhæft, er erfið. Stærð jarðar í heild getum við ekki upplýst um, en beitiland er talið gott samkv. eyðijarðaskýrslu. Þjóðvegurinn liggur rétt við túnið. Jörð þessi er ein hinna mörgu eyðibýla, sem við teljum, að eigi ekki að byggjast upp sem sjálfstætt býli og má telja, að vegna legunnar henti það vel búendum í Djúpadal að kaupa hana, sem nytjað hafa jörðina í allt að 30 ár, hafa girt tún hennar og ræktað það, sem ræktað er af jörðinni. Sé það svo, að hreppsnefnd mæli með sölu til Samúels, leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði samþykkt.

Virðingarfyllst,

Pálmi Einarsson.“

Og frá jarðeignadeildinni barst landbn. svofelld umsögn:

Hv. landbn. Nd. Alþ. hefur sent jarðeignadeild ríkisins til umsagnar frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja Samúel Zakaríassyni bónda í Djúpadal ríkisjörðina Miðhús í sama hreppi. Jörðin, sem hefur verið í eyði um langan aldur, er nytjuð af Samúel Zakaríassyni síðan 1946 og hefur leiga verið 100 kr. á ári. Hreppsnefnd Gufudalshrepps mælir með því, að Samúel verði seld jörðin. Lönd Djúpadals og Miðhúsa liggja saman og því eðlilegt, að Samúel hafi áfram afnot jarðarinnar, því að ekki kemur til álíta að stuðla að sjálfstæðum búrekstri á jörðinni.

Með vísan til þessa sér jarðeignadeildin ekki, að neitt mæli gegn því, að nefnt lagafrv. verði afgr. sem lög.

Sveinbjörn Dagfinnsson.“

Ég skal þá geta þess einnig, að okkur bárust frá hreppsnefnd Djúpadalshrepps meðmæli með því, að ábúenda Djúpadals eða bóndanum í Djúpadal yrði seld þessi jörð. Með tilvísan til þessara umsagna og meðmæla mælir landbn. með því, að frv. verði samþykkt.