09.04.1965
Efri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

152. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem hefur haft þetta frv. til athugunar og hef ekki gert ágreining um það, enda tel ég efnislega sjálfsagt, að það verði samþ., og vil greiða fyrir því, að það geti orðið afgr. úr þessari hv. d. En ég vil þó leyfa mér að vekja athygli á einu atriði, sem ég tel mjög mikilvægt að verði tekið til athugunar og æskilegt að af hálfu borgaryfirvalda, verði athugað nánar.

Svo sem brunatryggingakerfið er upp byggt, er gert ráð fyrir því, að öll hús séu skyldu vátryggð, enda er hér einmitt í annarri þeirra breytinga, sem við erum að ræða nú, vikið að skyldu húseigenda til þess að tilkynna ný hús til mats. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, að það mat, sem nú er lagt til grundvallar á húsum hér í höfuðborginni og vafalaust víðar um landið, — e.t.v. er það almenn regla, ég hef ekki kynnt mér það nákvæmlega, — að þetta mat er ekki raunhæft. Og því er það svo, að hús eru ekki metin nema að hluta af verðmæti sínu til brunabótamats. Nú er grundvöllur brunatrygginga, þ.e.a.s. skyldutrygging sá, að það verði tryggt nokkurn veginn, að þessar eignir séu tryggðar á þann hátt, að menn fái greitt andvirði þeirra að meginefni til, ef húseignirnar eyðileggjast og þar sem hér er um skyldutryggingar að ræða, má gera ráð fyrir því, enda mun það vera almenn regla, að menn hirða ekki um það að fá viðbótartryggingu við skyldutrygginguna, enda í rauninni alls kostar óeðlilegt, að menn þurfi að standa í slíku. Það er hins vegar alveg ótvírætt, að brunabótamatið er of lágt. Það munu hafa verið gerðar tilraunir til þess, þegar um algert tjón hefur orðið að ræða, að fara í mál á þeim grundvelli, að brunatryggingunum sé skylt, þar sem þetta er lögbundin skyldutrygging, að hafa húseignir tryggðar, þannig að menn geti fengið endurkaupsverð eignanna að fullu, ef algert tjón verður. Það mun hafa orðið niðurstaðan í því máli, að það var ekki talin vera fyrir hendi skylda hjá vátryggjanda til þess að ábyrgjast, að húseignirnar væru tryggðar fullu verði.

Þetta held ég að sé óumflýjanlegt annað en athuga, a.m.k. ef svo er, að brunabótamatið sé í mjög alvarlegu ósamræmi við raunverulegt verð húseignanna, því að ella getur svo farið, að hér verði um algerlega villandi mat að ræða og starfsemi þessi þjóni alls ekki þeim tilgangi, sem hún á að gera. Þetta er hins vegar flóknara mál en svo, að ég telji fært að bera fram brtt. um það við þetta mál út af fyrir sig, vegna þess að það þarf að kanna það nánar og vafalaust er það svo, að þessi annmarki er víðar á tryggingum heldur en hér í Reykjavíkurborg. En ég vildi þó ekki láta hjá líða að láta þetta sjónarmið koma fram og leggja áherzlu á, að ég tel óumflýjanlegt, að bæði hér í Reykjavík og í brunatryggingum um landið yfirleitt verði tryggingarnar við það miðaðar, að fasteignirnar eða húseignirnar séu metnar á raunverulegu verði, en ekki einhverju gervimati. Það má vafalaust hugsa sér það, að eðlilegt væri að meta húseignirnar t.d. á byggingarkostnaði, eins og hann er áætlaður á hverjum tíma og þá hækka eftir byggingarvísitölu, en um það skal ég ekki segja. En ég held, að það sé óumflýjanlegt, ef brunatryggingarnar eiga að þjóna þeim tilgangi, sem þær eiga að gera, þá verði fólk að geta treyst því, að húseignir séu metnar á því verði, að þar sé um að ræða raunverulegt endurkaupsverð, að sjálfsögðu að frádregnum eðlilegum fyrningum. Ég hygg, að það muni meira að segja vera allmiklum erfiðleikum bundið að fá viðbótarbrunatryggingu keypta, enda margvíslegir annmarkar á því að hafa sömu eign tryggða hjá tveimur aðilum, ef kemur til greina brunatjón, hvernig það þá eigi að skiptast.

Það er ekki till. mín að gera neina breytingu á þessu frv., en ég vildi hins vegar vekja athygli á þessu atriði, sem ég tel veigamikið efni og það er áreiðanlega mikilvægt, að þetta sé athugað, hvort hér sé ekki um að ræða atriði, sem eigi yfirleitt við varðandi brunabótamatið, að það sé óhæfilega lágt, bæði hér í Reykjavík og víða um landið.