16.12.1964
Neðri deild: 29. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í nál. hv. minni hl. fjhn. á þskj. 162 eru gerðar nokkrar aths. og fluttar brtt., sem snerta aðallega bókhaldsatriði í sambandi við nokkra vegi. Í því sambandi er rétt að geta þess, að þegar ríkisreikningurinn fyrir 1962 var til athugunar hjá yfirskoðunarmönnum Alþingis, var 21. aths. þeirra við þetta mál þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirskoðunarmenn veittu því athygli, að engar greiðslur eða lán eru færð á reikning ríkisins vegna þeirra framkvæmda, sem byrjað var á á árinu 1961 og haldið áfram á árinu 1962 á Reykjanesbraut. Upplýst hefur verið, að lán hafi verið tekið til þessara framkvæmda.“

Í svari varðandi þessa aths. frá samgmrn. er gerð ýtarleg grein fyrir, hvernig þessum færslum er háttað, og þessar upphæðir eru taldar í efnahagsreikningi vegamálanna. Þegar yfirskoðunarmenn gerðu svo till. um þetta mál, segja þeir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gefin er skýring á færslu fjármunanna við vegagerðina og lántökum til hennar. Framvegis er rétt að færa þetta á þann hátt, er segir í aths.“

Síðan hefur ríkisbókhaldið fylgt þeim bókfærsluaðferðum um þetta atriði, sem yfirskoðunarmenn sögðu fyrir um.

Í sambandi við þær aths., sem koma fram í nál. hv. minni hl., hafa þeir Einar Bjarnason ríkisendurskoðandi og Egill Símonarson ríkisbókari sent mér svo hljóðandi grg., sem ég vil lesa hér upp til skýringar á þessu máli. Grg. er á þessa leið:

„Reykjanesbraut hefur sérstöðu meðal vega hér á landi, bæði vegna stærðar og gerðar. Honum er ekki lokið enn. Engin fjárveiting hefur verið til hans í fjárl. Meðan veginum er ekki lokið og ekki liggur neitt fyrir um það, hvort lán þau, sem til hans hafa verið tekin, eigi að greiðast með fjárveitingum úr ríkissjóði, fé úr vegasjóði eða á annan hátt, sbr. 95. gr. vegal., nr. 71 frá 1963, er ekki talið rétt að færa vegagerðarkostnaðinn á rekstrarútgjöld ríkisins. Vegurinn er því talinn sem eign á efnahagsreikningi vegagerðar ríkisins með þeirri fjárhæð, sem kostnaður var orðinn við hann í árslok 1963, og lán til vegarins talið til skuldar á móti. Samkv. fyrirmælum yfirskoðunarmanna ríkisins í till. þeirra til Alþingis um ríkisreikninginn 1962, 21. gr., var byggingarkostnaður vegarins, eins og hann var í árslok 1963, færður á efnahagsreikning ríkisins, bæði eigna og skuldamegin. Um Ólafsvíkurveg, Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarveg er svipað að segja að því leyti, að til Ólafsvíkurvegar var engin fjárveiting á árinu 1963 og til þeirra framkvæmda í Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarvegi, sem um er að ræða, ekki heldur, og voru tekin lán til framkvæmdanna. Ætlunin er að leggja fram fé úr vegasjóði til greiðslu lána þeirra, sem til þessara framkvæmda voru tekin, og á því ekki að færa kostnaðinn til rekstrarútgjalda á 13. gr. ríkisreikningsins 1963. Lánin eru ekki heldur talin meðal skulda ríkissjóðs á skuldahlið ríkisreiknings, heldur á skuldahlið efnahagsreiknings vegagerðarinnar, svo sem ríkisbókhaldið telur rétt vera. Þótt á 50. lið 6. gr. eignarhliðar efnahagsreiknings á ríkisreikningi 1963 sé svo að orði komizt: Lán til Reykjanesbrautar — er að sjálfsögðu átt við eign í Reykjanesbraut, enda sama fjárhæð færð á skuldahlið 1. gr. 31. lið, og er færslan, svo sem að ofan greinir, gerð eftir kröfu yfirskoðunarmanna.

Um rekstrarkostnað ríkisins. Í nefndum 18.5 millj. kr. kostnaði, sem rætt er um í nál. minni hl., er ógreidd þóknun til skattanefndar frá fyrra ári 1.1 millj. og á því að teljast til frádráttar kostnaðinum 1963, sem þá verður 17.4 millj., og til viðbótar kostnaðinum 1962, sem þá verður 13 millj. Mismunurinn er því um 4.4 millj. á kostnaðinum 1963 og 1962. Nokkuð af þeirri hækkun er stofnkostnaður við skattstofur, en verulegasta hækkunin mun vera launahækkunin, sem varð á miðju ári 1963, enda eru beinar launagreiðslur nálægt 70 % af kostnaðinum.

Endurskoðunardeild fjmrn. Engin ástæða er til að bíða eftir því, að endurskoðun allra reikninga ríkisins sé að fullu lokið, áður en ríkisreikningurinn er samþykktur. Endurskoðunin er í eðli sínu athugun á því eftir á, að allt hafi verið rétt gert, og má segja, að þegar miklum meiri hl. endurskoðunarinnar er lokið, áður en ríkisreikningurinn er lagður fram til samþykktar á Alþingi, séu litlar líkur til þess, að svo verulegar skekkjur komi fram í því, sem eftir er, að ástæða sé til þess, að Alþingi samþykki hann ekki, auðvitað þá með þeim fyrirvara, að leiðrétt verði það, sem fram kemur við endurskoðun og leiðrétta ber.“

Undir þetta skrifa þeir Einar Bjarnason ríkisendurskoðandi og Egill Símonarson ríkisbókari. Ég hef út af fyrir sig engu við þetta að bæta,sem kemur fram í grg. þessara tveggja embættismanna.