29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

152. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt í Ed. að tilhlutan borgarráðs Reykjavíkurborgar. Þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir að hafa í för með sér, ef samþykkt verður, eru í fyrsta lagi, að það er skorið úr eða gerð nánari skil á því, að húseiganda beri að sjá um, að hús sé tilkynnt til mats, og að allur vafi sé tekinn af um það atriði, og einnig, að tilkynningin um þetta sé skrifleg, og jafnframt, að vátryggjanda sé heimilt að taka hús í tryggingu, ef húseigandi vanrækir slíkt. Í 2. gr. frv. eru ákvæði þess efnis, að borgarstjórn er veitt heimild til þess að leysa til sín hús samkv. mati, ef brunatjón verður á því, sem nemur meira en helmingi matsverðs. Þetta er talið nauðsynlegt, til þess að ekki sé verið að verja fé til meiri háttar viðgerða eða endurbyggingar á húsi, sem annaðhvort stafar eldhætta af eða þarf á því stigi eða síðara stigi að víkja af skipulagsástæðum.

Það er ekki ástæða til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. Það hefur farið án breytinga gegnum Ed. Allshn. hv. Nd. hefur haft frv. til athugunar og allshn. mælir einróma með, að frv. verði samþ. óbreytt.