05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

160. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg, flm. fyrir frv. á þskj. 359, er þetta frv. flutt vegna óska stjórnar Skallagríms h/f í Borgarnesi. Í umr. í Ed. gerði 1. flm. grein fyrir frv. og rökstuddi það, hver væri ástæðan fyrir flutningi frv. og hvaða rök mæltu með því, að hér væri gerð undantekning frá reglunni. Í fyrsta lagi viljum við benda á það, að hér er um að ræða siglingu innan flóa og venjulega er siglingatími milli hafna ekki nema ein klst. og 40 mínútur. Því er hér öðru til að dreifa heldur en með þau skip, sem farþega flytja milli fjarlægra hafna og eru á siglingu sólarhring eftir sólarhring. Ég hygg, að Akraborgin sé eini flóabáturinn, sem þarf að hafa svo fjölmenna skipshöfn sem raun ber vitni um og þess vegna er leitazt við að fá þessu breytt, ef það yrði svo að dómi ráðh. og skipaskoðunarstjóra, að það væri talið framkvæmanlegt.

Það er vitanlegt, að rekstur þessa skips er nú með þeim hætti, að erfiðleikar eru að halda honum áfram og er þess vegna reynt að gera þessa tilraun, ef hún mætti að gagni koma að einhverju leyti, ekki sízt þar sem að því er stefnt, að fyllsta öryggis sé gætt eftir sem áður. Og það er að dómi flm. og okkar, sem styðjum málið, að svo sé, með áliti skipaskoðunarstjóra og mati ráðh. Þess vegna treysti ég því, að hér í þessari hv. d. nái þetta mál fram að ganga eins og í Ed., þar sem eru ekki nægileg rök fyrir því, að það sé ekki hægt að meta þessa siglingu eftir öðrum reglum, en þeirra farþegaskipa, sem sigla í kringum landið.