30.03.1965
Neðri deild: 60. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

163. mál, dýralæknar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Norðurl. e., hv. 2. þm. Austf. og hv. 3. þm. Austf. leyft mér að flytja á þskj. 366 frv. til l, um breyt. á l. um dýralækna.

Í lögum frá 1963 um breyt. á l. nr. 124 22. des. 1957,. um dýralækna, segir svo í 1. gr., að dýralæknisumdæmi skuli vera, sem þar segir, 19 talsins í landinu. Í sömu grein segir, að landbrh, ákveði, hvar dýralæknar hafi búsetu. 13. og 14. umdæmi samkv. þessum lögum er Þingeyjarþingsumdæmi, sem nær yfir Suður-Þingeyjarsýslu austanverða, Húsavík og Norður-Þingeyjarsýslu. En 14, umdæmið er Austurlandsumdæmi, sem tekur yfir Norður-Múlasýslu, Seyðisfjörð, Neskaupstað og Suður-Múlasýslu að Breiðdalsheiði.

Nú er það till. okkar flm. frv. á þskj. 366, að tekið verði upp nýtt umdæmi, Norðausturlandsumdæmi og að til þess falli hlutur af hinum tveim, fyrrnefndu umdæmum, Þingeyjarþingsumdæmi og Austurlandsumdæmi. Það er gert ráð fyrir því í frv., að til Norðausturlandsumdæmis skuli teljast Norður- Þingeyjarsýsla austan Jökulsár, Skeggjastaðahreppur og Vopnafjarðarhreppur í Norður-Múlasýslu. Enn fremur er tekið fram, að í hreppum vestan Öxarfjarðarheiðar skuli menn eiga rétt til að vitja dýralæknis á Húsavík.

Þetta frv. er fram komið vegna fundar- ályktana, sem þm. þeirra tveggja kjördæma, sem hér eiga í hlut, hafa borizt, annars vegar frá almennum héraðsmálafundi í Norður- Þingeyjarsýslu, sem haldinn var 4. sept. 1964, og hins vegar frá fulltrúafundi, sem haldinn var á Þórshöfn á Langanesi 22. febr. s.l. með þátttöku fulltrúa úr þeim hreppum Norður- Múlasýslu, sem gert er ráð fyrir, að verði í Norðurlandsumdæmi. Þessir fundir hafa farið þess mjög eindregið á leit við okkur þm. kjördæmanna, að við styðjum að því, að þetta nýja umdæmi verði stofnað. Hér er um að ræða 9 hreppa samtals, 7 í Norður-Þingeyjarsýslu austan Jökulsár og 2 í Norður–Múlasýslu, en eins og áður er sagt, er gert ráð fyrir, að vesturhrepparnir í Norður-Þingeyjarsýslu eigi jafnframt rétt til þess að vitja dýralæknis á Húsavík. Hér er um mjög víðlendar sveitir að ræða og langa leið að fara af þessu svæði, hvort sem dýralæknis er vitjað á Húsavík eða á Egilsstöðum, en þar sitja umdæmisdýralæknar þeirra umdæma, sem nú eru að lögum á þessu svæði. Við höfum fengið upplýsingar frá Búnaðarfélagi Íslands um búfjártölu í hinu fyrirhugaða umdæmi og eftir því, sem næst verður komizt, var hún á s.l. hausti: sauðfjártala 43.576, nautgripatala 810, hrossatala 475. Það skal tekið fram, að a.m.k. úr einum hreppi var ekki til hjá Búnaðarfélaginu tala frá s.l. hausti, heldur er tekin talan frá 1963, sem mun vera nokkru lægri, en tala þess búfjár, sem nú er á fóðrum.

Um þetta skal ég ekki hafa fleiri orð, en ég vil geta þess, að við flm. höfum rætt þetta mál við yfirdýralækni og urðum þess vísari, að hann skilur þá nauðsyn, sem hlutaðeigandi byggðarlögum er á því að fá sérstakan dýralækni. Sömuleiðis ræddum við þetta mál við hæstv. landbrh., áður en við fluttum frv.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn. og vil mega vænta þess fyrir hönd okkar flm., að n. hraði eftir föngum meðferð málsins, því að við teljum mikilsvert, að það verði afgreitt, ef unnt er, á þessu þingi.