18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. fjhn. á þskj. 190 ber með sér, mæla 4 nm. með því, að frv. um samþykkt á ríkisreikningnum árið 1963 verði samþ. eins og það liggur fyrir eftir meðferð Nd. Aðrir nm. munu ekki hafa skilað áliti í málinu og lýstu yfir í n., að þeir tækju ekki þátt í afgreiðslu þess.

Nefndin hefur ekki haft langan tíma til athugunar á frv., en við athugun á þeim aths., sem yfirskoðunarmenn hafa gert við frv., og svörum hæstv. fjmrh. við þeim aths., sem og till. yfirskoðunarmanna, eins og þær eru prentaðar með ríkisreikningunum, þá þykir ekki vera neitt sérstakt tilefni til þess að gera frekari athugasemdir við málið. Engri af aths. yfirskoðunarmanna er vísað til aðgerða Alþ., og skýringar hafa fengizt varðandi þau atriði, sem helzt hefur verið þar talið athugunarvert í sambandi við reikninginn.

Það verður að telja það lofsvert, að á það hefur verið lögð áherzla af hæstv. núverandi fjmrh. að afgreiða ríkisreikning það snemma, að ríkisreikningi næsta árs á undan sé lokið, áður en ár er liðið eftir lok þess reikningsárs, sem veldur því, að tölur allar og efni reikningsins eru mönnum í ferskara minni en þegar svo var háttað, að ríkisreikningur var mörgum árum á eftir lagður fyrir Alþ. Þessi breyting verður að teljast lofsverð, og enda þótt hún hafi leitt af sér það, að hin umboðslega endurskoðun hafi ekki getað lokið endurskoðun á reikningum allra stofnana, þegar ríkisreikningurinn endanlega er samþykktur, þá er það í rauninni ekki nýtt mál, vegna þess að það hefur alla tíð verið svo, jafnvel þótt ríkisreikningur væri samþ. löngu eftir lok reikningsárs, að aths. hinnar umboðslegu endurskoðunar hafa ekki legið fyrir. Það er því ekki sjáanleg nein ástæða til þess, enda hefur verið leitað álíts endurskoðunardeildarinnar um það, að það sé ekki sjáanleg nein ástæða fyrir því að fresta samþykkt ríkisreikningsins. Þó að fram kunni að koma einhverjar breytingar síðar í reikningum stofnananna, þá er alltaf hægt að leiðrétta það og getur ekki haft nema sáralitla þýðingu og í rauninni enga þýðingu varðandi heildarniðurstöður málsins, því að það verður þá leiðrétt á því ári og kemur þá fram í aths. endurskoðunarmanna við þann reikning, þannig að það er engin hætta á því, að neitt falli undan í þessu sambandi, þó að endurskoðuninni sé ekki að öllu leyti lokið.

Meiri hl. n. telur því ekki neina ástæðu til þess að bíða með samþykkt reikningsins, þar til slíkri endurskoðun er lokið, og telur mjög æskilegt, að þeim hætti verði haldið að reyna að ljúka meðferð reikningsins, áður en ár er liðið eftir reikningsárið, og vill því meiri hl. fyrir sitt leyti greiða fyrir því, að það geti einnig orðið í þetta sinn, og leggur því til, að frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir.