24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

78. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með lögum um leigubifreiðar í kaupstöðum og kauptúnum frá 29. maí, 1957 og öðrum lögum um sama efni, sem á undan voru gengin, hlutu leigubifreiðastjórar, sem aka fólksbifreiðum og vörubifreiðum, mikilvæg réttindi. Eitt meginatriði laganna frá 1957 var að heimila takmörkun leigubifreiðafjöldans í kaupstöðum og kauptúnum með fleiri íbúa en 700. Áður en lagaheimild fékkst fyrir takmörkun leigubifreiðafjöldans, hafði það sýnt sig hvað eftir annað, að menn, sem ekki höfðu áður stundað leigubifreiðaakstur, keyptu sér bifreiðar, ef þeir fengu tækifæri til þess að komast um stundarsakir með þær í góða atvinnu og tóku þannig atvinnu frá þeim mönnum, sem höfðu stundað bifreiðaakstur um árabil eða jafnvel gert hann að ævistarfi. Þannig skapaðist óánægja innan stéttarinnar, atvinnuleysi og niðurboð á töxtum. Leigubifreiðastjórar skiptust þá í meginatriðum í tvo hópa: annars vegar þá, sem höfðu aksturinn að föstu starfi, hins vegar ýmiss konar lausamenn, sem vildu njóta réttindanna til leigubifreiðaaksturs, þegar þeim bauð svo við að horfa, en vera lausir við þær skyldur að vera ætíð reiðubúnir til þjónustu. Úr þessu ófremdarástandi var lögunum frá 1957 ætlað að bæta og það hefur að allverulegu leyti tekizt.

Notagildi laganna hefur þó ekki orðið hið sama fyrir fólksbifreiðastjóra annars vegar og vörubifreiðastjóra hins vegar. Leiguakstur með fólksbifreiðar er þannig atvinnugrein, að hún þrífst einungis í þéttbýli, enda mun þessi atvinna einvörðungu vera stunduð í kaupstöðum og hinum stærri kauptúnum og yfirleitt mun það ekki þekkjast, að fólksbifreiðastjórar séu búsettir utan þessara staða. Og þar sem stéttarfélög fólksbifreiðastjóra eru til, munu félagssvæði þeirra yfirleitt takmörkuð við kaupstaði eingöngu og e.t.v. í örfáum tilfellum við stærri kauptún. Takmörkunarheimildin samkv. l. frá 1957 er því fullnægjandi fyrir fólksbifreiðastjóra. Þessu er aftur á móti á annan veg farið með vörubifreiðastjóra. Þeir eru búsettir í flestum sveitarfélögum landsins og stéttarfélög þeirra ná yfirleitt yfir heilar sýslur. Vörubifreiðastjórafélög á öllu landinu munu vera milli 25 og 30, en fólksbifreiðastjórafélög eru hins vegar innan við 10, eftir því sem ég bezt veit. Það heyrir til undantekninga, ef félagssvæði vörubifreiðastjórafélags nær einungis yfir einn kaupstað eða eitt stórt kauptún. En það eru aðeins þessi vörubifreiðastjórafélög, sem hafa not af l. frá 1957. Öll önnur vörubifreiðastjórafélög, þar með meginþorri þeirra, hafa annaðhvort ekki heimild til takmörkunar eða þá að heimildin verður þeim ekki að neinu gagni, því að hún tekur aðeins til hluta af félags- og vinnusvæði þeirra.

Úr þessum annmörkum er því frv. ætlað að bæta, sem ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Vesturl. En efni frv. kemur fram í 1. gr., en efnislega er hún á þá leið, að samgmrn. sé heimilað að fengnum till. hlutaðeigandi vörubifreiðastjórafélags og meðmælum sýslunefndar að takmarka fjölda leigubifreiða til vöruflutninga í þeim sýslum landsins, þar sem starfandi er eitt stéttarfélag vörubifreiðastjóra, er hefur að félagssvæði alla sýsluna og ekkert umfram það. Ef félagssvæði hins vegar tekur einnig til kaupstaðar, er staðsettur er í sýslunni, skal heimil takmörkun vörubifreiðastjórafjöldans á félagssvæðinu í heild, enda komi til meðmæli bæjarstjórnar og sýslunefndar. Eigi skal þó heimilt að takmarka sérstaklega fjölda leigubifreiða til vöruflutninga í kaupstöðum og kauptúnum með 700 íbúa eða fleiri, ef vörubifreiðastjórar á þessum stöðum eru félagar í vörubifreiðastjórafélagi, sem hefur heila sýslu eða sýslu og kaupstað að félagssvæði.

Ég tel rétt til þess að skýra þetta nokkru frekar að taka ákveðið dæmi. Ég vil þá taka sem dæmi Árnessýslu. Þar er starfandi vörubifreiðastjórafélag, sem hefur alla sýsluna að félagssvæði og vinnusvæði. Í Árnessýslu er kauptún, Selfoss, sem hefur fleiri íbúa en 700. Eftir núgildandi lögum væri heimilt að takmarka vörubifreiðastjórafjöldann á Selfossi. Hins vegar væri algerlega tilgangslaust að nota þá heimild eða framkvæma það, vegna þess að vörubílstjórar, sem búsettir eru í nágrenni Selfoss eða í nágrannakauptúnum, hafa full réttindi til þess að aka vörum bæði til Selfoss og frá Selfossi, þannig að þessi takmörkun kæmi bílstjórunum, sem búsettir eru á Selfossi, ekki að neinu gagni, enda eiga þeir auðvitað gagnkvæman rétt, sem búa á Selfossi, til þess að aka annars staðar í sýslunni. Ef þetta frv. yrði að lögum, mundi hins vegar vera heimilt að takmarka vörubifreiðastjórafjöldann í allri sýslunni í heild, en þá yrði hins vegar, þar sem Selfoss er ekki sérstakt félagssvæði, óheimilt aftur á móti að takmarka á Selfossi einum. Ég tel, að þetta dæmi skýri raunar alveg tilgang þessa frv.

Þetta frv. er flutt eftir eindreginni ósk Landssambands vörubifreiðastjóra, og vörubifreiðastjórar hafa á þingum sínum gert samþykktir í þessa átt og það meira að segja hvað eftir annað. Lögin frá 1957 eru því, eins og ég hef rakið, að því leyti til ófullkomin, að þau veita fyrst og fremst eða eingöngu réttinn þeim, sem búsettir eru í þéttbýlinu, en vörubifreiðastjórastéttin hefur þá sérstöðu umfram aðrar stéttir bifreiðastjóra, að hún er einnig búsett í dreifbýlinu og hún hefur einnig annað skipulag. Félagssvæðin eru þar stærri og ná þar yfir heilar sýslur og það skortir á, að lögin frá 1957 taki tillit til þessara staðreynda. Með það í huga að bæta hér úr er þetta frv. flutt.

Ég legg svo að lokum til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.