18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þann 7. þ. m. var útbýtt á hv. Alþingi þessu frv., sem hér er til umr., og næsta dag, þann 8. des., var það tekið til 1. umr. í hv. Nd. og afgr. til n. Fjhn. Nd. skilaði álitum innan fárra daga. Nál. meiri hl. var útbýtt þann 12. þ.m., og var þar lagt til, að frv. yrði samþ. án aths., en minni hl. fjhn. Nd. skilaði álíti um þetta mál, sem var útbýtt 15. þ.m., og þar voru gerðar mjög veigamiklar aths. og sýnt fram á það, sem þessi hv. minni hl. taldi vera rangar færslur og ófullgerða endurskoðun. Þessar aths. minni hl. voru þó ekki teknar til greina í hv. Nd., er 2. umr. fór fram í þeirri hv. d. 15. og 16. þ.m. En síðan er málið tekið til 3. umr. í þeirri hv. d. með afbrigðum sama dag, 16. des., og samþ. úr deildinni. Daginn eftir, í gær, er frv. til 1. umr. hér í þessari hv. d. Um það bil sem deildarfundi var að ljúka, kom að máli við mig formaður hv. fjhn. og óskaði eftir því, að við mættum á fundi til þess, eins og hann orðaði það, að ræða vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu n. á þessu frv. Ég óskaði eftir því, ef skjóta ætti á slíkum fundi, að það yrði gert strax, til þess einmitt að menn gætu áttað sig á því, hver vinnubrögð yrðu um hönd höfð. Síðan var boðað til fundar. Það kom í ljós, að hvorugur hinna minnihlutamannanna gæti mætt á þeim fundi. Ég mætti þar hins vegar til að ræða það, sem formaður n. hafði rætt um við mig. En þá kom í ljós, að það var ekki það, sem var ætlun meiri hl., heldur var það ætlun meiri hl. að berja í gegn samþykkt málsins í n. og væntanlega, eins og nú er komið í ljós, í. d. án þess að gefa nokkurt tóm til athugunar á málinu. Ég benti á, að það væri æskilegt um þær aths., sem höfðu verið afgreiddar í hv. Nd. daginn áður og voru, hvort sem þær reyndust réttar eða rangar, sýnilega mjög veigamiklar, að það yrði gefið eitthvert tóm til þess að athuga þær, en á það féllst meiri hl. ekki. Nú er málið tekið til 2. umr. í þessari hv. d. með afbrigðum, eins og menn sjá og nú er komið í ljós.

Þegar þess konar vinnubrögð eru um hönd höfð, mun ég ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls, og ég mæli þar einnig fyrir hönd félaga míns í fjhn., hv. 1. þm. Norðurl. e. Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv.