05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

178. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af Búnaðarfélagi Íslands. Helztu nýmæli þess frá eldri lögum eru m.a. þau, að veiðistjóri skal taka við stjórn allra aðgerða við eyðingu svartbaks undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands. Þá skal ráða sérstaka menn til eyðingar svartbaks til lengri eða skemmri tíma eftir ástæðum og veiðistjóra er heimilt að fela áðurnefndum ráðnum mönnum eyðingu minka, refa og hvers konar vargfugla, sem herja á æðarvarp, ef nauðsyn þykir.

Landbn. hafði þetta frv. til athugunar og mælir einróma með því, að það verði samþ. óbreytt og skilar álíti á þskj. 612.

Gildandi lög um eyðingu svartbaks eru mjög úrelt orðin og eftir því sem kunnugir menn segja, næstum dauður bókstafur. En það er staðreynd, að svartbak hefur fjölgað mjög hin síðari ár og að það hefur litið verið aðhafzt til útrýmingar honum. Laun þau, sem eldri lög gera ráð fyrir, að veiðimenn skuli hljóta fyrir unninn svartbak, eru svo lág, að það hvetur ekki til framkvæmda í þessum efnum. En bændur, sem verða fyrir búsifjum af þessum vargi; hafa mjög takmarkaða möguleika til þess að stunda fuglaveiðar, bæði vegna mannfæðar víða og strjálbýlis. Málum er því þannig komið í þessum efnum, að svartbakurinn gerist æ aðgangsharðari með ári hverju og horfir til stórvandræða víða í æðarvarpi, þar sem fuglinn hefur naumast nokkurt griðland orðið fyrir þessum gráðuga vargfugli. Þó ógnar svartbakurinn og andastofninum og etur ómælt af laxaseiðum og smásilungi. Það eru að vísu til bændur, sem hafa nokkur not af svartbaknum og hafa veruleg hlunnindi af eggjatöku, en það er hverfandi á móti því tjóni, sem fuglinn vinnur annars staðar. Ég hygg, að það sé skoðun allra, sem fylgjast með háttalagi svartbaksins og hinni öru fjölgun hans, að það sé mál til þess komið að hefja öfluga herferð gegn honum.

Þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, eins og ég gat um áðan, að veiðistjóri taki að sér umsjón eyðingaraðgerðanna undir stjórn Búnaðarfélags Íslands og heimilt er skv. frv. að ráða sérstaka menn til veiðanna lengri eða skemmri tíma, auk hækkaðra skotmannslauna, má vænta þess, að frv., ef að lögum verður, geti stuðlað að því, að svartbaknum verði fækkað verulega á skömmum tíma. Og það er áreiðanlegt, að það er fyllilega mál komið til þess að hefja öfluga herferð gegn þessum gráðuga fugli.