19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Mig langaði aðeins til að segja örfá orð út af ummælum þeirra hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Norðurl. e. í gærkvöld, þegar þetta mál var til umr., út af meðferð málsins í n. Nú er að vísu svo, að það var ekkert í ummælum hvorugs þeirra, sem ég get skilið þannig, að þeir hafi á nokkurn hátt haft vilja til að halla þar réttu máli. En vegna þess að mér fannst, að þeir, sem ókunnugir væru málinu, hlytu að fá dálítið ýkta hugmynd um þá hörku, sem beitt hefði verið í n. við afgreiðslu málsins, vildi ég nokkuð árétta það, þó að ég hins vegar viðurkenni, að sú harka hafi verið nokkur.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur hæstv. fjmrh undanfarin ár lagt á það ríka áherzlu, að Alþingi afgreiddi ríkisreikninginn fyrir áramót, og frá hans hendi hefur ekkert verið að vanbúnaði í því efni. Ríkisreikningurinn hefur verið lagður það tímanlega fram, að Alþingi var vorkunnarlaust að hafa lokið afgreiðslu hans fyrir áramót. Hitt er svo annað mál, að það hefur ekki alltaf tekizt, oftast vegna þess að stjórnarandstaðan hefur óskað eftir fresti til þess að athuga málið, sem veittur hafði verið, en það ræði ég ekki nánar. En í stuttu viðtali, sem ég átti við hæstv. fjmrh. á fimmtudag þegar málið var hér til 1. umr., kom það í ljós að afstaða hans í þessu efni var óbreytt frá því, sem áður hafði verið, og hann óskaði eftir því, að málið yrði afgreitt, ef nokkur möguleiki væri á, fyrir jól, og kom okkur þá saman um það, að málið mætti ekki taka til afgreiðslu í nefnd síðar en á föstudag, ef það ætti að nást. Ég kvaddi þá, eins og hér hefur komið fram, hv. 6. þm. Sunnl. á minn fund og tjáði honum, að ég mundi í þessu máli eins og öðru gjarnan vilja hafa sem bezt samkomulag um meðferð málsins, hvað sem liði afstöðu einstakra nm. til þess, þegar það væri afgreitt út úr n., og enn fremur bar ég fram þá ósk, að málið yrði afgreitt í n. á föstudag, taldi það ekki mega síðar vera. Hv. 6. þm. Sunnl. tjáði mér, að hann ætti mjög annríkt, og vissi ég, að þar var ekki um fyrirslátt einn að ræða, þar sem hann hafði átt að hafa framsögu um söluskattsmálið, sem þá var á döfinni. Hins vegar stakk hann upp á því, að n. ræddi saman um meðferð málsins þegar að loknum deildarfundi. Ég fór þá á stúfana að reyna að ná nm. saman, og voru þrír þá staddir hér í salnum, sjálfstæðismennirnir tveir, sem auk mín eiga sæti í n., og hv. 1. þm. Norðurl. e. Tveir þeir fyrst nefndu voru því viðbúnir að mæta þá þegar á fundi, en hv. 1. þm. Norðurl. e. tjáði mér, að hann hefði lofað sér á annan fund, en vænti þó þess, að hann gæti komið á nefndarfund síðar. Þeir hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 9. landsk. voru hins vegar komnir á aðra fundi, og bað ég þingverði að hafa tal af þeim, og þáð er rétt með farið hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að það kom ekki fram sem fundarboð, heldur ósk um, að þeir töluðu við mig. Þessir tveir menn komu svo síðar á fundinn. En hvað snertir hv. 1. þm. Norðurl. e. kom hann ekki, og er það eins og gengur, að fundir verða stundum lengri og meira spennandi en ætlað er í upphafi. (KK: Og aðrir styttri.) Já, það fór nú svona í þetta sinn. Á fundinum báru þeir báðir, hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Norðurl. e., fram óskir um það, að málinu yrði frestað fram yfir áramót, töldu sig ekki hafa neinn tíma til þess að sinna málinu. Og það er rétt, að það komi fram, sem raunar hv. þdm. er kunnugt, að það stóð eins á í þessu efni fyrir hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Sunnl., að hann átti að hafa framsögu um söluskattsmálið. Síðan fóru þeir af fundi. Ég vil, að þessi atriði komi skýrt fram, af því að ég hygg, að hv. þdm. hafi dregið þá ályktun af því, sem þessir tveir hv. þm. sögðu hér í gær, að það hafi verið ófrávíkjanleg krafa mín, að málið yrði afgreitt þegar á fimmtudag. Ég hafði ekki hugsað mér, að það yrði fyrr en á föstudag, en fyrst eftir að fram kom, að þeir óskuðu þess aðeins, að málinu yrði frestað fram yfir áramót, ákváðum við í meiri hl., að málið skyldi afgreitt þá, því að við töldum þá ekki eftir neinu að bíða, þar sem við vildum gjarnan verða við þeirri ósk hæstv. fjmrh., að málið væri afgreitt fyrir áramót. Svo að öll sagan sé sögð, er rétt, að það komi fram, að þá rétt á eftir hitti ég aftur hv. 4, þm. Norðurl. e., og tjáði hann mér þá, að hann mundi vera reiðubúinn að mæta á nefndarfundi á mánudaginn. En það hefði verið mjög ólíklegt, ef málið hefði fyrst átt að takast til meðferðar í n. þá, að unnt hefði verið að afgreiða það fyrir áramót, svo að ég taldi það þá engu breyta.

Ég vildi aðeins, að þetta komi fram, en hafi ég hér í einhverju ekki farið alveg rétt með, þá geta aðilar auðvitað leiðrétt það.