19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð síðasta ræðumanns, að formennska hv. formanns fjhn. hefur mér jafnan fallið vel, og þess v egna er það undantekning, að ég tel mig hafa ástæðu til . þess að gera aths. við stjórn hans á nefndarstarfi nú. Hann sagði hér áðan það, sem hann kallaði „alla söguna“. — Ég vil bæta við hana örlitlum eftirmála.

Þegar hann tilkynnti mér fund fjhn. um ríkisreikninginn, hafði ég lofað að mæta á öðrum fundi og tjáði honum það, það er alveg rétt. Sá fundur stóð ekki lengi, og ég mætti honum hér niðri í stiganum í alþingishúsinu, þegar ég kom af fundi og ætlaði að fara á fund hv. fjhn. Þá sagði hann mér, að sá fundur væri búinn, svo stuttur hafði hann verið. Ég vissi ekki annað en þessi fundur, sem hv. fjhn ætlaði að halda, væri um vinnubrögð, en ekki um endanlega afgreiðslu málsins, og ég vissi ekki heldur um, að afgreiðslan væri endanleg, fyrr en seinna, — hefði verið talin endanleg. Nú sé ég það á nál. hv. meiri hl., sem kom út upp úr þessum fundi, að þar segir: „N. hefur athugað frv.“

Ég álít þetta nauðsynlegan eftirmála við sögu hv. formanns n., að n „athugaði“ frv. á þessum stutta fundi, þar sem þó voru ekki eiginlega mættir nema meiri hl., þ.e. stjórnarstuðningsmennirnir.

„Nefndin hefur athugað frv.“ Það minnir mig á það; sem einhvern tíma var sagt af keisaranum: „Ríkið, það er ég.“ Ég hef náttúrlega oft orðið þess var, að hv. meiri hl. telur sig þess umkominn að ákveða fyrir fram niðurstöður mála án þess að ræða við minni hl., þótt hann sé nokkuð stór. En ég hef aldrei séð það fyrri, að það sé talið, að mál hafi verið „athugað af n.“, þar sem minni hl. væri ekki viðstaddur. Og ég satt að segja fullyrði, að það voru engin skilyrði til þess að gera þá athugun á ríkisreikningnum, sem skylt er að gera af nefnd, sem málinu hefur verið vísað til, — það eru engin skilyrði til þess að gera þá athugun á svona stuttum fundi. Hér er um algert handahóf að ræða og flaustur og málamynd.

Ég skil það ákaflega vel, að hæstv. fjmrh. hefur áhuga á því að láta afgreiðslur fara fram á reikningnum, án þess að það dragist lengi. En hitt fyndist mér þó að væri enn þá eðlilegra, að hæstv. ráðh. hefði áhuga á því, að reikningurinn yrði vel undirbúinn, þegar hann væri lagður fram, vel frágenginn, fullkomlega endurskoðaður af þeim aðilum, sem eiga að endurskoða liði hans. En þó að ég hafi ekki haft tíma til þess að athuga reikninginn frá því sjónarmiði, hvernig þar hefur verið frá gengið, eru fréttir úr hv. Nd. um, að þar hafi þótt nokkuð á vanta. Og einnig sé ég það nú á aths. yfirskoðendanna, sem eru fljótlesnar, að þeir, sem ekki eru vanir því að vera strangir í aths., hafa þó að þessu sinni byrst sig í meira lagi, meira en þeir eru vanir að gera.

Ég fyrir mitt leyti álít, að hæstv. ráðh. hljóti að hafa áhuga á því, að nefnd og d. athugi reikninginn á forsvaranlegan hátt og hann geti orðið afgreiddur með þeim hætti, sem telst í samræmi við þingsköp. Ég álít, að það sé engan veginn hægt að telja, að hann hafi fengið þá meðferð, sem þingsköp ætlast til. Af þessum ástæðum lýsi ég því yfir, að ég mun ekki taka þátt í afgreiðslu reikningsins og mun sitja hjá við atkvgr. um hann á þessu stigi.