04.05.1965
Neðri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

194. mál, eftirlaun alþingismanna

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar. Frv. er, eins og kunnugt er, samið af 4 manna nefnd, sem í átti sæti einn þm. frá hverjum stjórnmálaflokkanna og er flutt af 2 þeirra, sem sæti eiga í þessari hv. d. Efni frv. er, eins og kunnugt er, að gera Lífeyrissjóð alþm. að sérstakri deild í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og gert ráð fyrir, að þeir búi þar við sömu skyldur og sömu réttindi og aðrir starfsmenn, að svo miklu leyti sem það getur átt við um það sérstæða starf, sem þingmennskan er. Þær sérstöku breytingar, sem þetta hefur í för með sér, hafa verið raktar við framsögu málsins við 1. umr. og skal ég ekki endurtaka það. En fjhn. hv. d. leggur einróma til, að málið verði samþ. óbreytt.