10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það hefur verið mikið um að vera á Alþ. síðustu dagana. Þegar rúm vika var til þingloka, var sem stjórnarliðið tæki skyndilega kipp eftir mók og ráðleysi vetrarins. Hvert stórmálið af öðru var lagt fyrir Alþ., og önnur mál, sem legið höfðu fyrir þinginu alllengi, en ríkisstj. haldið hreyfingarlausum í sínum höndum, öll áttu þessi mál nú að afgreiðast umræðu– og athugunarlítið á örfáum dögum. Í málefnaflóði síðustu daga hefur m.a. verið frv. um stórvirkjun í Þjórsá, skýrsla um alúmínmálið, frv. um nýtt innanlandslán ríkissjóðs og bann við verkfalli flugmanna, svo að nokkuð sé nefnt. Auk þessa hefur svo átt að afgreiða á sömu dögunum frv. um skattalög, frv. um útsvör, frv. um húsnæðismál og svo innan um þessi stórmál og ýmis önnur fleiri hið sérstaka áhuga- og kappsmál ýmissa stjórnarstuðningsmanna, frv. um að leyfa á ný minkaeldi í landinu.

Óðagot stjórnarliðsins nú í þinglokin kom í framhaldi af næsta einkennilegum vinnubrögðum í vetur. Rúmum mánuði eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt fyrir yfirstandandi ár, tilkynnti ríkisstj., að hún hefði ákveðið að skera niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda frá nýlega samþ. fjárl. um 20% eða um 120 millj. kr. Um sama leyti var farið að tala um, að fjárhagur ríkisins væri ekki sem beztur þrátt fyrir allar álögurnar og frá Seðlabankanum bárust tilkynningar um, að staða ríkissjóðs við bankann færi sívaxandi. Nokkurs kurrs hefur gætt í liði stjórnarinnar, einkum utan þings og mikil óánægja hefur komið fram hjá framámönnum í ýmsum starfsgreinum. Skattgreiðendur telja sig herfilega svikna af loforðum stjórnarinnar. Innlendur iðnaður á í vök að verjast, segja forsvarsmenn hans. Sjávarútvegsmenn héldu nýlega mikinn fund hér í Reykjavík og töldu sjávarútveginn að þrotum kominn þrátt fyrir mikinn afla og hátt verð á erlendum mörkuðum. Sá ráðh., sem bezt útsýni hefur haft af stjórnarheimilinu, hefur sagt af sér og er farinn frá. Sagt er, að fleiri ráðh. svipist nú um eftir betri störfum.

Þeir, sem í upphafi viðreisnar voru æði kotrosknir og kunnu ráð við öllum vanda, eru nú fremur tætingslegir og ekki eins hnakkakerrtir og í upphafi. Hvað hefur í rauninni gerzt á stjórnarheimilinu, sem veldur þessum umskiptum? Í stuttu máli er það þetta: Þeir, sem lofuðu að fella niður skatta af almennum launatekjum, hafa þvert á móti stórhækkað skatta á slíkum tekjum. Árið 1960, fyrsta ár viðreisnarinnar, var tekjuskatturinn samkv. ríkisreikningi 97 millj. kr. Í ár, 1965, er þessi skattur áætlaður á fjárl. 375 millj. kr. og fer ábyggilega í reynd yfir 400 millj. Þeir, sem ætluðu að draga úr álögum, lögðu á söluskatt í smásölu árið 1961, 102 millj, kr., en nú árið 1965 er sami skattur áætlaður á fjárl. 923 millj. kr. Sá skattur hefur nífaldazt. Þeir, sem lofuðu afnámi styrkja- og uppbótakerfisins, eru nú að kikna undan niðurborgunum og styrkjagreiðslum, sem fara munu yfir 800 millj. kr. á þessu ári. Þeir, sem lofuðu stöðugu verðlagi, standa nú mitt í sínu eigin dýrtíðarflóði og ráða ekki við neitt. Í stjórnartíð viðreisnarinnar hefur hækkun á almennu vöruverði og þjónustu í landinu numið 91%. Þeir, sem lofuðu, að launakjör skyldu ákveðin með samningum atvinnurekenda og launþega án ríkisafskipta, beita nú ríkisvaldinu svo að segja í öllum tilfellum, þegar semja á um kaup og kjör.

Ástæðurnar til óðagots stjórnarliðsins á Alþ. þessa dagana, ástæðurnar til þess, að breyta þurfti í skyndi nýsamþykktum fjárl., ástæðurnar til aðgerðaleysis á Alþ. í vetur, og ástæðurnar til ráðherraskiptanna í ríkisstj. eru fyrst og fremst þær, að stefna ríkisstj., viðreisnarstefnan, hefur farið út um þúfur. Hagstjórnartæki efnahagsráðunauta ríkisstj. hafa reynzt ónýt. Gengislækkunarráðin hafa leitt til óviðráðanlegra verðhækkana og til gróða fyrir skuldara. Vaxtahækkunin hefur leitt til hækkandi verðlags. Söluskattsstefnan hefur hækkað verð á nauðsynjum og fært kaupmönnum og millilíðum aukinn gróða. Hin frjálsa verðlagning hefur leitt til hækkandi álagningar og hærra vöruverðs. Hagræðingarstefna ríkisstj. og loforðin um sparnað hafa snúizt upp í stóraukna eyðslu og hækkuð ríkisútgjöld. Frystingin á sparifé hefur leitt af sér lánsfjárkreppu og óheilbrigð viðskiptakjör. Þannig hefur viðreisnin í einu og öllu farið út um þúfur.

Og nú um miðjan maímánuð er ærinn vandi á höndum. Svo að segja allar launastéttir landsins krefjast hærri launa. Flest stærstu verkalýðsfélögin í landinu hafa sagt upp gildandi kjarasamningum frá 5. júní n.k. að telja. Kröfur launastéttanna eru studdar augljósum og ómótmælanlegum rökum. Laun hafa hækkað um minna á undanförnum árum en almennt verðlag í landinu. Afkoma þjóðarbúsins alls hefur þó verið mjög góð. Mikill og vaxandi sjávarafli hefur s.l. 4 ár orðið til þess ásamt með síhækkandi markaðsverði erlendis, að þjóðartekjurnar hafa hækkað mikið og meir en í nálægum löndum. Viðreisnarstefnan hefur engan þátt átt í þessari hagstæðu þróun þjóðarteknanna. Þvert á móti stóðu efnahagssérfræðingar viðreisnarinnar gegn kaupum á fiskiskipum og byggingu verksmiðja, sem vinstri stjórnin hafði efnt til og síðan gerðu mögulegar síldveiðar og síldarvinnslu á þeim grundvelli, sem þetta er rekið á nú. Fyrir ári veittu launþegasamtökin ríkisstj. og atvinnurekendum frest til þess að búa sig undir þá óhjákvæmilegu launahækkun, sem nú verður knúin fram.

Ríkisstj. hefur við engan að sakast um þennan vanda, sem hún nú stendur frammi fyrir, nema sjálfa sig og sína efnahagssérfræðinga. Kjarni þeirrar efnahagsstefnu, sem leitt hefur út í þær ógöngur, sem nú er komið í, er sú kenning, að setja beri ofar öllu öðru í efnahagsmálum þjóðarinnar sjónarmið gróðans. Rétt hefur þótt og hagkvæmt að gefa þessari gróðakenningu ýmis falleg nöfn. Stundum hefur hún komið fram undir nafninu frjáls verzlun, frjáls álagning, frjáls fjárfesting, frjáls viðskipti eða frjálsir atvinnurekendur, frjálst efnahagslíf, frjálsir einstaklingar. En hver hefur verið kjarni þessa frelsis? Hann hefur verið sá, að nokkrir einstaklingar í þjóðfélaginu hafa haft frelsi til að hækka álagningu á almennri nauðsynjavöru. Hann hefur komið fram í því, að fáir einstaklingar, sem verzlað hafa með íbúðarhúsnæði, hafa haft frelsi til þess að taka til sín óhóflegan gróða af slíkum viðskiptum.

Frelsið hefur birzt í rétti fárra til að græða. Það hefur birzt í rétti fárra til að ráðskast með gjaldeyri þjóðarinnar, í rétti til að fjárfesta eftir gróðasjónarmiðum, í rétti hinna ríku til þess að græða meira og meira á kostnað þjóðarheildarinnar.

Þessi stefna hins óhefta gróða, þessi stefna brasks og eyðslu hefur þegar kostað þjóðina mikið. Stefna gróðahyggjunnar og hins falska frelsis hefur leikið atvinnuvegi þjóðarinnar hart. Hún hefur féflett þá og gert þá vanmegnuga að standa undir skyldum sínum við það fólk, sem við undirstöðuatvinnuvegina vinnur. Það hljómar eins og öfugmæli að heyra það nú, að sjávarútvegur landsmanna geti ekki hækkað laun til starfsfólks síns í metaflaári og á sama tíma og útfluttar sjávarafurðir hafa hækkað í verði á erlendum markaði um 7—8% á einu ári. Ég hygg, að framleiðsluvörur þýðingarmestu greinar sjávarútvegsins hafi hækkað í verði á erlendum markaði um 10% á s.l. ári, en það samsvarar 50% hækkun á öllu kaupi starfsfólks þessarar framleiðslugreinar. En þrátt fyrir þessi ytri skilyrði er sagt, að þessi framleiðslugrein geti ekki staðið undir hærra kaupgjaldi en nú er greitt. Hvað hefur orðið af hinum mikla hagnaði aukins afla og hækkaðs markaðsverðs? Jú, ríkíssjóður hefur tekið til sín mikinn hluta hagnaðarins og dýrtíðar- og gróðahyggjustefnan hefur tekið hinn hlutann.

En það má ríkisstj. vita, að útilokað er með öllu, að launastéttir landsins sætti sig við óbreytt launakjör og það í vaxandi dýrtíð, á sama tíma sem ytri efnahagslegar aðstæður eru jafngóðar og nú. Röng efnahagsstefna ríkisstj. verður ekki látin stöðva réttmætar kröfur vinnandi fólks. Og mitt í þeim vanda, sem ríkisstj. nú á í með efnahags- og fjármál þjóðarinnar, tilkynnir hún, að það sé ætlun hennar að semja við erlendan auðhring um byggingu alúmínverksmiðju í nágrenni Hafnarfjarðar og ráðast jafnframt í byggingu stórvirkjunar við Þjórsá, m.a. til þess að sjá alúmínverksmiðjunni fyrir raforku. Bygging alúmínverksmiðjunnar er áætlað, að kosti um 2.500 millj. kr. Bygging raforkuvers í Þjórsá mun ekki kosta undir 2.000 millj. kr. Hér er því um byggingarframkvæmdir að ræða, sem kosta munu 41/2–5 milljarða ísl. kr. samanlagt. Ráðgert er, að Íslendingar eigi raforkuverið og selji auðhringnum raforkuna á föstu verði með fyrirframsamningi til langs tíma. Auðhringurinn á að hafa rétt til rakorkukaupanna í 45 ár. Áætlað er, að alúmínhringurinn greiði 103/4 úr eyri fyrir hverja kwst. af raforku og það verð standi óbreytt a.m.k. í 15 ár. Þetta raforkuverð er miðað við knappan lágmarksframleiðslukostnað samkv. þeim byggingaráætlunum, sem fyrir liggja. Byggingaráætlanir eru miðaðar við verðlag ársins 1964, en byggingarframkvæmdir munu standa í 3 ár. Augljóst er, að byggingarkostnaður hlýtur að fara langt fram úr áætlun vegna verðhækkana, sem þegar hafa orðið og hljóta að verða á næstu 3 árum. Fari svo framkvæmdakostnaður fram úr áætlun að öðru leyti, eins og venja hefur verið, getur enginn vafi leikið á, að stofnkostnaður virkjunarinnar fer langt fram úr áætluðu verði. Þá hafa færustu virkjunarsérfræðingar Íslendinga bent á, að óhjákvæmilegt muni reynast að gera viðbótarmannvirki fyrir ofan virkjunarstað til þess að auka öryggi í rekstri orkuversins vegna óvenjumikils ísskriðs og aurframburðar í ánni. Slíkar framkvæmdir kosta stórfé. Þá er augljóst, að grípa verður til rekstrar varaaflstöðva til þess að tryggja alúmínverksmiðjunni næga raforku í vissum tilfellum. Allur þessi kostnaður lendir á hluta Íslendinga í orkuverinu, þar sem raforkuverðið til alúminverksmiðjunnar er ákveðið fyrir fram og miðað við áætlaðan stofnkostnað, ekki við stofnkostnað eins og hann verður, heldur áætlaðan stofnkostnað og áætlaðan rekstrarkostnað án truflana. Í frv. ríkisstj. um virkjun í Þjórsá er ákveðið, að ný regla skuli upp tekin um verðlagningu á rafmagni til Íslendinga. Ráðgert er að stórauka álagninguna frá því, sem verið hefur.

Ljóst er af því, sem hér hefur verið sagt, að raforkuverð til landsmanna mun tvímælalaust hækka, en ekki lækka frá því, sem nú er, a, m. k. fyrstu 15–20 árin frá byrjun þessara framkvæmda.

Séu raforkumál landsmanna skoðuð nokkru nánar og raforkuþörfin metin, eins og hún mundi verða á næstu 20 árum, sést enn betur, að fyrirhuguð fyrirframsala á raforkunni úr Þjórsárvirkjuninni til alúmínverksmiðjunnar er hið mesta glapræði. Sérfræðingum ber saman um, að raforkuþörf landsmanna muni tvöfaldast á hverju 10 ára tímabili. Nú er heildarraforka landsins í uppsettu vélaafli um 150 þús. kw. Samkv. reglum sérfræðinganna þyrftum við því að ráðast í nýjar virkjanir, sem nema 150 þús. kw. á næstu 10 árum, og á næsta 10 ára tímabili þar á eftir þyrftum við að virkja 300 þús. kw. til viðbótar. Á næstu 20 árum þyrftum við því að virkja fyrir innlendan markað okkar sjálfra um 450 þús. kw. Ráðgert er, að Íslendingar fái í sinn hlut úr 210 þús. kw. virkjun við Búrfell aðeins 84 þús. kw. Umfram þá orku þyrftum við því að virkja sem næmi 366 þús. kw. á næstu 20 árum. Þá orku yrðum við að sækja í aðrar virkjanir en Búrfellsvirkjun á næstu 20 árum, því að orkan þaðan, sem talin er vera ódýrasta raforkan, sem við eigum kost á, væri bundin með fyrirframsamningi alúmínverksmiðjunni. Fyrirframsala á þessari ódýru orku og það sennilega langt undir framleiðslukostnaðarverði er því vægast sagt óhyggileg.

Hagur landsmanna af rekstri alúmínverksmiðjunnar yrði ekki mikill. Gert er ráð fyrir, að verksmiðjan gæti greitt í skatt 50 millj. kr. á ári, en jafnframt á ríkið að gefa eftir öll aðflutningsgjöld af byggingarefni og vélum verksmiðjunnar. Sú eftirgjöf mundi nema um 20% af stofnkostnaði verksmiðjunnar eða um 500 millj. kr. Skatturinn fyrstu 10 árin, 50 millj. á ári, næmi því aðeins sömu fjárhæð og tolleftirgjöfin af byggingarframkvæmdunum, en slíka tolla verða fyrirtæki landsmanna sjálfra að greiða auk venjulegrar skattgreiðslu. Laun 450 Íslendinga, sem ráðgert er að ynnu í verksmiðjunni, yrðu varla hærri en 200 þús. kr. að meðaltali á mann eða um 90 millj. kr. á ári. Gjaldeyristekjur af verksmiðjunni yrðu því varla meiri fyrstu árin en 100–140 millj. kr. Slík upphæð er ekki ýkjahá, þegar þess er gætt, að sjávarútvegur okkar leggur um 5.000 millj. kr. í gjaldeyri í þjóðarbúið á hverju ári.

En hverjar yrðu afleiðingarnar af fjárfestingu hér suðvestanlands, sem næmi 4.500–5.000 millj. kr. í þessum tveimur fyrirtækjum á 3 árum? Hverjar yrðu afleiðingarnar hjá öðrum atvinnugreinum, þegar þessar framkvæmdir tækju til sín 1–2 þús. menn í 3 ár í vinnu, þegar þess er gætt, að nú skortir stórlega vinnuafl við framleiðslustörf? Og hverjar yrðu afleiðingar slíkrar fjárfestingar sem þessarar fyrir jafnvægið í byggð landsins eða hvaðan á vinnuaflið að koma? Og hverjar yrðu afleiðingarnar af þeirri grundvallarstefnubreytingu að heimila erlendu einkafjármagni aðstöðu til atvinnurekstrar í landinu og það með sérstökum réttindum umfram landsmenn sjálfa? Hver mundu viðbrögð íslenzkra stjórnarvalda verða, þegar annar erlendur auðhringur kæmi í kjölfar alúmínhringsins og óskaði eftir sams konar fríðindaaðstöðu til þess að reisa hér og reka nokkur stórfyrirtæki í fiskiðnaði? Hverju mundu núv. stjórnarvöld svara, ef svissneski auðhringurinn Nestle, einn af 10 stærstu auðhringum veraldar, óskaði eftir slíkum réttindum til fiskvinnslu hér á landi? Hann hefur þegar komizt inn í hraðfrystifiskiðnaðinn í Noregi og nú nýlega einnig í Kanada. Hverju yrði svarað, ef hann byði að greiða 10% hærra verð fyrir fiskinn en nú er greitt á Íslandi, en slíkt væri auðvelt fyrir hringinn í fyrstu lotu? Og hverju mundu núv. stjórnarvöld svara tilboði frá brezka auðhringnum Unilever, sem er einn stærsti auðhringur í heimi á sviði olíu og feitmetis, ef hann byðist til þess að reisa hér lýsisherzlustöð og hækka lýsisverðið um 10% , fengi hann alla framleiðslu okkar til langs tíma? Ætli sjónarmið gróðans segðu þá ekki til sín, ef slík tilboð kæmu? Má ekki telja víst, að fleiri auðhringar, en alúmínhringurinn gætu valið sér rétta umboðsmenn hér á landi, umboðsmenn, sem vildu vera í stjórn hinna miklu fyrirtækja þeirra, menn, sem vildu gerast lögfræðingar hinna fésterku auðhringa, menn, sem fljótir yrðu að renna á hljóð gróðans, sem jafnan fylgir stórum auðhringum? Jú, það er ekki aðeins hætt við því, — það er alveg víst.

Sú ákvörðun að stíga það örlagaskref að heimila erlendu auðfélagi aðstöðu til atvinnurekstrar í landinu og það með forréttindum mundi vissulega draga dilk á eftir sér. Sú ákvörðun mundi efalaust leiða til þess, að stigið yrði annað skref og þriðja skref og kannske mörg fleiri skref í sömu átt. Hætt er við, að brátt yrði lítið eftir af efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, þegar sú stefna væri upp tekin. Núv. ríkisstj. hefur lengi verið veik fyrir áróðri þeirra manna, sem lofað hafa ágæti erlendrar stóriðju og í erfiðleikum sínum við að framkvæma vonlausa efnahagsmálastefnu hefur hún í vaxandi mæli tapað trúnni á íslenzkum atvinnuvegum og getu landsmanna sjálfra til að ráða fram úr málefnum sínum.

Á sambandsþingi ungra sjálfstæðismanna fyrir rúmu ári sagði hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, það, sem hér skal eftir honum haft orðrétt, — forsrh. sagði: „Með stóriðju skapast traust og festa í efnahagslífinu.“ Forsrh. sagði enn fremur, að hann efaðist um, að nokkurt annað sjálfstætt ríki byggði velgengni sína á jafnótraustum grundvelli og fiski, sem syndir um hafdjúpið. Og enn sagði forsrh., að við hefðum séð þess dæmi, að jafnvel velmegun gæti komið jafnvæginu úr skorðum. Og ályktunarorð forsrh. voru: „Meginverkefnið fram undan er að nýta betur fallvötnin og efna til stóriðju.“

Þannig var skoðun forsrh. mótuð af vantrausti á íslenzkum sjávarútvegi og svartsýni á því, að hægt væri að ráða við efnahagsmálin nema með erlendri stóriðju. Fremstu efnahagsráðunautar ríkisstj. hafa líka mjög greinilega lýst því yfir, að þeir teldu meginástæðuna til þess, að nú yrði að ráðast í stóriðju, að fullvíst mætti telja, að hinir eldri atvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, gætu ekki staðið undir nægilega miklum hagvexti, eins og það hefur verið orðað. Skoðun annarra ráðh. hefur verið mótuð af sömu vantrúnni á efnahagslegri aðstöðu þjóðarinnar. Hæstv. menntmrh, líkti íslenzku efnahagskerfi við smákænu í samanburði við hafskip annarra þjóða. Og hann sá ekki aðra leið en að kæna smáþjóðarinnar yrði að hengja sig aftan í hafskip stórþjóðanna. Og nú er því haldið að Íslendingum, að þeir geti ekki leyst sín raforkumál sjálfir án fylgilags við erlenda auðhringa og þeir geti ekki leyst sín efnahagsmál án tilkomu erlends einkafjármagns og atvinnurekstrar útlendinga á Íslandi. Og svo koma þeir menn, sem þessu halda fram og þykjast vera hinir sönnu bjartsýnismenn. Þeir þykjast vera stórhuga og bera öðrum á brýn afturhaldssemi og kotungshátt.

Stórhugur Íslendinga hefur aldrei verið fólginn í því að gefast upp við að leysa verkefni sín og fela útlendingum forsjá sinna mála. Möguleikar Íslendinga nú til mikilla framkvæmda og framfara eru vissulega miklir. Þjóðartekjurnar eru miklar. Fiskimiðin eru gjöful og aðrir landkostir eru góðir. En það þarf nýja stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, til þess að þessir möguleikar nýtist til gagns fyrir þjóðina. Það þarf að hverfa frá stefnu hins falska frelsis, skipulagsleysis og glundroða. Það þarf að taka upp stjórnarstefnu, sem er grundvölluð á samstarfi launastéttanna og ríkisvaldsins og miðar að því að bæta kjör vinnandi fólks í landinu. Það verður að miða efnahagsmálastefnuna við þjóðarhagsmuni í stað gróðahyggjusjónarmiða fárra manna. Það verður að miða uppbyggingu í atvinnumálum landsins við framtíðarhagsmuni þjóðarinnar sjálfrar og við það, að landið verði allt byggt og auðlindir þess verði nýttar af landsmönnum sjálfum. Vit og fyrirhyggja þjóðarinnar á að móta stefnu í fjárfestingarmálum, en ekki handahóf gróðabralls. Og stefnan í viðskiptamálum á að miðast við þarfir þjóðarheildarinnar, en ekki hlíta duttlungavilja fésýslumanna. Og umfram allt annað verður stefnan í atvinnu- og efnahagsmálum og þjóðmálunum sem heild að miðlast við að tryggja sem bezt sjálfstæði þjóðarinnar, efnalega og menningarlega. Við þetta er stefna okkar Alþb.-manna miðuð.